Færsluflokkur: Bloggar
4.4.2008 | 12:59
Gríðarlegt áhorf á Mannaveiðar
Ég var að flétta Viðskiptablaðinu í morgun og skoða rafrænu mælingarnar sem að Capacent er að gera á sjónvarpsstöðvunum. Mér til mikillar ánægju voru Mannaveiðar að mælast með u.þ.b. 50% áhorf. Þetta er alveg stórkostlegt, að fá loksins áreiðanlega staðfestingu á því sem að við kvikmyndagerðarmenn höfum haldið fram árum saman að Íslendingar vilja fá að horfa á innlent leikið sjónvarpsefni. Nú hlýtur það að gerast að sjónvarpsstöðvarnar fari að keppast við að framleiða innlent gæðaefni sem endurspeglar okkar íslenska raunveruleika. Það er engin skynsemi í öðru.
Ég hef nú áður hér skrifað nokkrar línur um enska boltann og ætla að bæta aðeins um betur. Oft heyrist að það sé svo dýrt að framleiða innlent leikið dagskrárefni. 365 miðlar greiddu upphæð nálægt 1.500 milljónum fyrir 3 ára samning á enska boltanum eða upphæð sem er nálægt 500 milljónum á ári næstu 3 árin. Brotið niður á mánuði eru það 41,6 milljónir mánaðarlega. Heyrst hefur að framleiðslukostnaður við Mannaveiðar hafi verið u.þ.b. 60 milljónir, þar af er styrkur frá Kvikmyndamiðstöð Íslands 20 milljónir. Það þýðir að RUV hefur lagt til 40 milljónir í verkið. Annað dæmi er að Næturvaktin gullmoli 365 á þessum vetri kostaði sjónvarpstöðina líklega áþekka upphæð eða u.þ.b. 40 milljónir.
Fyrir 500 milljónir á ári (enska boltann) sem er yfirleitt vel undir 5% í áhorfi, má framleiða eina leikna ÍSLENSKA seríu eins og Næturvaktina eða Mannaveiðar í hverjum mánuði. (báðar með margfalt áhorf við enska boltann) Hvað höfum við verið að hugsa.
En bara svona til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum þá hef ég mjög gaman af öllum íþróttum og vill veg þeirra sem mestan í sjónvarpi. En gjarnan mætti sinna öðrum greinum en knattspyrnu betur. Af henni er fáránlega mikið framboð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2008 | 11:08
Enski boltinn hvað !
Fyrir skömmu síðan hóf fyrirtækið Capacent rafrænar mælingar á áhorfi og hlustun á ljósvakamiðlum. Þessar mælingar eru stöðugt í gangi og gefa loksins íslenskum auglýsingakaupendum raunsanna mynd á því hvar áhorfið og hlustunin er best á hverjum tíma.
Ég var örstutt að kíkja á fyrstu niðurstöðurnar sem Capacent birti og þær eru mjög merkilegar. Ef ekki eru í þeim verulegar skekkjur sem eiga eftir að jafnast út á næstunni má sjá að innlent efni nýtur mikilla vinsælda. Við kvikmyndagerðarmenn höfum haldið þessu fram árum saman en oftast fyrir daufum eyrum. Nú sést þetta svo ekki verður um villst að þetta efni skarar framúr hvað áhorf varðar.
Það var líka merkilegt að sjá að enski boltinn mælist varla. Áhorf á hann er langt undir 10%, samt var 365 tilbúið að greiða fyrir sýningarrétt á honum 1.500 milljónir króna. Líklegast vegna þess að forráðamenn þar trúðu því að áhorf á þetta efni væri mikið. Ef marka má kannanir Capacent hafa þeir þó líklega keypt köttinn í sekknum. Það verður þrautin þyngri að fá kostendur og auglýsendur til þess að kaupa birtingar með þetta lítið áhorf.
Þetta vekur svo upp spurninguna hvort að fyrri aðferðir við áhorfskannanir hafi stjórnast að hluta til af því hvaða þrýstihópur var háværastur á hverjum tíma? Allavega benda fyrstu tölur til þess að forráðamenn sjónvarpsstöðvanna allra ættu að setja aukið fjármagn í innlenda dagskrárframleiðslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 18:41
Dæmisaga af óréttlæti, aðrir segja óréttlát dæmisaga
Ég var að flétta Fréttablaðinu og rakst þar á leiftrandi skemmtilegan pistil eftir Þorvald Gylfason. Að vanda var hann skemmtilegur, upplýsandi og vel fram settur. Eftir að ég hafði setið smá stund og hugleitt hvað maðurinn var að segja datt í huga minn þessi mynd.
Við sitjum í leikhúsi lífsins og erum á sama tíma áhorfendur og þátttakendur.Sá þáttur leikritsins sem ég ætla að fjalla um, hefur þessar persónur og leikendur.
Bóndinn, leikinn af íslensku þjóðinni.
Laxveiðimaðurinn leikinn af útgerðarmönnum með kvóta.
Ráðgjafar sem leiknir eru af þingmönnum löggjafarþingsins.
íslenski almúginn sem er leikin af sjálfum sér.
Söguþráðurinn er sem hér segir:Bóndi nokkur átti auðlind eina, laxveiðiá. Hann hafði leyft almúganum að veiða þar án takmarkanna en nú var svo komið að nokkrir laxveiðimenn voru svo stórtækir í sókn sinni að ljóst var að bóndinn þyrfti að takmarka sóknina i ánna ef ekki ætti illa að fara. Eftir nokkra umhugsun og vangaveltur varð það úr að hann fól ráðgjöfum sínum að búa til kerfi sem yrði öllum til hagsbóta og verndaði auðlindina fyrir komandi kynslóðir.
Viti menn ráðgjafarnir settu saman kerfi sem í meginatriðum er svona: Almúginn er útilokaður frá auðlindinni, hann hefur enga möguleika á því að komast inn í kerfið (þannig tryggðu ráðgjafarnir að nýliðun meðal þeirra sem í auðlindina sækja væri engin).
Síðan tóku þeir og úthlutuðu auðlindinni milli þeirra laxveiðimanna sem höfðu veitt mest síðustu árin og notuðu veiðireynslu þeirra síðustu árin til þess að útdeila gæðunum.
Að lokum heimiluðu ráðgjafarnir laxveiðimönunum að eiga viðskipti með veiðiheimildirnar sín á milli án þess að þeir þyrftu að borga bóndanum eiganda auðlindarinnar krónu fyrir heimildirnar.
Laxveiðimennirnir urðu með einu pennastriki stóreignamenn á meðan að bóndinn hinn raunverulegi eigandi fær ekkert í sinn hlut.
-----------
Er þetta ekki kallað eignaupptaka? Er nema von að tiltrú manna á löggjafarvaldinu sé lítil?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2008 | 15:56
Framsóknarfjós
Þetta hugtak skaust upp þegar ég var í huganum að fara yfir atburði síðustu daga í borginni. Ef það er eitthvað sem að hægt er að læra á þessari vitleysu þá er það hvað mannskepnan er sjálfhverf og siðblind. Pólitískt siðferði virðist vera algerlega horfið og almúginn mærir höfðingjana sem mæla með klofinni tungu, svo hendist hann (almúginn)í meðaumkun með þeim sem hafa leyft sér að fara á svig við lög og reglur af því að þeir hrökklast úr embætti. Jú og svo er bara að skreppa og tala við skattstjórann og þá er málið dautt. Verður ekki að krefja skattstjórann um hvað hann hyggst gera í málinu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2008 | 17:04
Kallinn swingar eins og engill
Ég var svo skemmtilega lánssamur að fara á tónleika Bubba Morthens og Stórsveitarinnar í gær. Það var alveg ótrúlega gaman að upplifa þetta, Kóngurinn kom fram á sviðið í hvítum smóking með hljóðnema í hendi og engan gítar. Sérlega óvanaleg staða. Ég verð að viðurkenna að ég var nokkuð spenntur því ég var ekki viss um hvernig sveiflan færi með lög eins og Aldrei fór ég suður, Rómeó og Júlía og Ísbjarnarblús svo einhverjar perlur frá kappanum séu nefndar.
Til að gera langa sögu stutta þá sat ég ýmist með hökuna niður á bringu af undrun eða brosti eins og barn í afmæli nú og svo dillaði maður eins og búðingur því sveiflan tók mann traustátökum. Heilt yfir var þetta alveg frábært og sveiflan fór vel með perlurnar sem maður er búin að raula árum saman.
Það voru þó nokkrir hápunktar sem mig langar að nefna. Framhjáhalds ræða Bubba þar sem hann þrumaði yfir karlpeningnum í salnum og renndi síðan inn í "Sumar konur" með gæsahúða saxafón inngangi frá Sigurði Flosasyni. Kossar án vara og Þínir löngu grönnu fingur hentuðu vel fyrir Stórsveitina. Síðast en ekki síst langar mig að nefna Fjöllin hafa vakað og Ísbjarnarblús þar sem Þórir Baldursson tók Hammondinn eftirminnilega til kostanna.
Ég verð svona að lokum að minnast aðeins á Ragga Bjarna sem kom og tók My Way til að hvíla Bubba smá stund. Ótrúlegt að kallinn getur varla talað af elli, en hann syngur eins og engill. Garðar Thor kom einnig fram með eitt lag sem mér þótti slappasta atriðið á tónleikunum.
Heilt yfir var þetta stórskemmtileg kvöldstund þar sem hljómsveitin fór á kostum og Kóngurinn var tær snilld, dansandi í hvíta smókingnum.
Takk fyrir mig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2008 | 17:27
Er nóg að heita Cleese?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2007 | 00:19
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 11:41
Höfum við gengið til góðs?
Ég er einn þeirra sem að held því fram að við séum á kolrangri leið með stefnuna í umferðarmálum. Aðferðafræðin er ekki að gera sig og mér sýnist að þessar tölur frá Ríkislögreglustjóra staðfesti það. Reyndar vantar nánari sundurliðun og skilgreingingu á þessu en þetta er verulega athyglisvert.
Umferðarstofa hefur farið hamförum í áróðri sínum, svo mjög að fólk er hætt að nenna að hlusta á þetta tuð. Þaðan kemur bara endalaust svartsýnishjal sem er farið að minna á söguna "Úlfur Úlfur" Svo þegar þeir þurfa virkilega að koma einhverju á framfæri nennir engin að hlusta.
Þurfum við ekki meira umburðarlyndi og gleði í umferðina? Vissulega er þetta dauðans alvara en það þjónar ekki tilgangi sínum að tala stöðugt um umferðina eins og vígvöll.
Einhvervegin læðist að mér sá grunur að þessi fjölgun sé fyrst og fremst venjulegt dagfarsprútt fólk sem óvart gleymdi sér augnablik og fór lítillega út fyrir vikmörkin. Eftir sem áður hefur ekki náðst sýnilegur árangur í því að stöðva umferðarþrjóta þessa lands enda er öll áherslan á því að stöðva þá sem enga hættu skapa í kringum sig. Eða hvað?
Um 6.000 umferðalagabrot skráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 19:28
Hipp hipp húrra
Aldeilis frábær sjónvarpsauglýsing var frumsýnd í gær þegar Síminn hóf að sýna nýja auglýsingu fyrir 3G farsímakerfið. Hvað er það sem að gerir þessa mynd svona góða kann einhver að spyrja.
Hér í fyrsta sinn í langan tíma tekur íslenskt stórfyrirtæki sig til og hefur kjark til þess að láta framleiða fyrir sig metnaðarfulla sjónvarpsauglýsingu sem byggir á vel hugsaðri hugmynd. Húmor og ótrúlega skemmtilegur nútímavinkill á annars grafalvarlegu efni. Víst er að hugsuðir, eigendur og framleiðendur myndarinnar hafa vitað að efnið er eldfimt. Enda er það að koma í ljós, þjóðin er að tapa sér yfir þessu.
Í allt of langan tíma hefur auglýsingabransinn verið huglaus og hvert stórfyrirtækið af öðru hefur framleitt stórar og miklar sjónvarpsauglýsingar sem hafa ekkert að segja, sýna fallegar myndir og ramma en eru algerlega hugmynda- og merkingalausar.
Vonandi er þetta upphafið á skeiði hina hugrökku, þar sem menn þora að leggja nafn sitt og ímynd við framsæknar og ögrandi hugmyndir. Hér hefur verið risið upp úr meðalmennsku, húrra fyrir því.
Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2007 | 12:01
Vald óttans
Er ekki mögulegt að þetta sé akkúrat málið, beita borgarana nógu miklu ofbeldi og áreiti, þá eru verulegar líkur á því að megin þorri þegnanna haldi sér til hlés og hætti sér ekki í það að drekka malt. Enda eiga þeir þá á hættu að þvagleggir og stólpípur verði notaðir til þess að tímasetja það nákvæmlega hvenær maltflaskan kláraðist. Svona mál þola enga bið, embættismennirnir verða að komast út á götu sem fyrst til þess að þefa af fleirum.
Nei svona að öllu gamni slepptu þá er þetta stór alvarlegt mál, í raun er ótrúlega mikið af óhæfu fólki í valdastöðum sem virðist ekki kunna neitt í mannlegum samskiptum nema beita Valdi óttans.
Man til að mynda eftir einum skólameistara sem sífellt er að koma skilaboðum til nemenda sinna um að ef hann fái ekki sínu framgegnt, verði engar skemmtanir í skólanum þetta árið.Já vald óttans birtist í ýmsum myndum.
Jæja ég er að hugsa um að skreppa í Hveragerði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Viðar Garðarsson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar