Þjást íslensk fyrirtæki af einkennum lystarstols? fyrri hluti

Við rannsóknir á skipulagsheildum sem hafa orðið undir í samkeppni hefur komið fram leitni sem fræðimenn eru farnir að kalla „Anorexia Industrialosa“ sem mætti kannski heimfæra á íslensku sem rekstrar röskun.

Einkenni þessara skipulagsheilda er einbeittur vilji þeirra til þess að ná fram hagræðingu í rekstri með niðurskurði á kostnaði. Viljinn til þess að keyra niður kostnað gengur svo langt að hann leiðir til megurðar og loks dauða skipulagsheildarinnar. Í dag er talið að fjöldinn allur af fyrirtækjum sem féllu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar megi rekja til hugarfars stjórnenda sem einblíndu um of á fjármálalegar kennitölur og arðsemi í gegnum niðurskurð kostnaðar.

Undir slíku hugarfari þarf hver einasti vöruliður, hvort sem um er að ræða vöru eða þjónustu að skila fyrirfram skilgreindri arðsemi án tillits til stöðu á markaði. Til þess að ná framsettu arðsemismarkmiði var annað hvort vöruverð hækkað eða varan var tekin af markaði ef arðsemi var ábótavant.

Í dag eru hæfir stjórnendur ávallt að gera sér betur og betur grein fyrir því að þeir geta ekki hunsað markaðinn sem þeir starfa á, ætli þeir sér að ná varanlegum innri vexti í skipulagsheildina. Það einfaldlega gengur ekki upp að taka ekki tillit til markaðarins og viðskiptavinanna á sama tíma og skorið er niður og aðlagað í rekstrinum. Á milli þessara þátta ríkir viðkvæmt órjúfanlegt jafnvægi.

Hér eru 5 atriði sem geta bent til þess að skipulagsheildin sé farin að renna niður brekkuna  í átt að rekstrar röskun.

  1. Fyrirtækið er að tapa viðskiptavinum en veit ekki hvers vegna.
  2. Sú skoðun ríkir að viðskiptavinir sem ekki snúa aftur skili hvort sem er ekki nægjanlegum arði og séu óþarflega kröfuharðir.
  3. Þú sem stjórnandi hefur ekki talað við viðskiptavini þína í meira en einn mánuð. Þegar þú gerir það ert þú ekki góður hlustandi þannig að þér finnst það sem þeir hafa fram að færa ekki skipta máli.
  4. Þú sem stjórnandi situr mestan tíma þinn á bak við skrifborðið við að greina tölur úr bókhaldinu í leit að niðurskurðar tækifærum.
  5. Þú sem stjórnandi ferð ekki út á markaðinn til þess að fá stemninguna þar í æð.

Í raun má segja að skipulagsheild með rekstrar röskun sé jafn sjúk og einstaklingur með lystarstol eða átröskun. Þegar horft er í spegil sér lystarstols-sjúklingur ekki hversu illa er komið fyrir sér. Hann trúir því að ástand og útlit hans batni með auknu svelti. Þannig gengur hann þvert á eign heilsu og heilbrigði heltekinn af hugmyndafræði sem margsinnis hefur verið sýnt fram á að leiði til glötunar.

Sama á við um stjórnandann sem knúin er áfram af þeirri hugmyndafræði að aukinn niðurskurður færi fyrirtækinu á endanum varanlega arðsemi. Hann sér ekki hvernig hann getur brugðist við sívaxandi rekstrar vanda með öðrum hætti. Hann finnur ekki þennan viðkvæma jafnvægispunkt á milli þarfa markaðarins og viðskiptavinanna annarsvegar og aðhalds og ráðdeildar í rekstri hinsvegar. Hann gengur því fram í góðri trú um að hann sé að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að bjarga rekstrinum. En hann er í raun að leiða fyrirtækið í enn meiri erfiðleika.

Framhald síðar...

Greinarflokkur þessi var upphaflega birtur á alkemistinn.wordpress.com

Í síðari grein verður m.a. sýnt fram á hvernig markaðslegar rannsóknir geta sagt til um rekstrar heilbrigði skipulagsheildarinnar umfram hefðbundinn efnahags og rekstrarreikning.

Froða


Nú um stundir er loftslags ráðstefnan í Kaupmannahöfn að ná hámarki sínu og þjóðarleiðtogar flykkjast þangað til þess að vera menn með mönnum. Á bak við þessa skrúðgöngu er því miður lítið annað en froða í upphrópunar stíl. Í raun eru þetta ný trúarbrögð sem við eigum að trúa á hvað sem tautar og raular. Ég hef kosið í þessum efnum að vera efasemdarmaður. Framgangan og þvælan sem maður heyrir í þessu samhengi er þannig að þetta er fyrir löngu hætt að vera byggt á rökum og rannsóknum. Hver vísindamaðurinn af öðrum stekkur fram á ritvöllinn og boðar nýjar kenningar um það hvað losun á gróðurhúsalofttegundum sé skaðleg. Síðan þegar rýnt er í málið er því miður oft ekki að finna neina vísindalega sönnun fyrir því að umræddar afleiðingar séu af manna völdum.

Viddi en jöklarnir eru að bráðna var sagt við mig um daginn í einni rökræðunni. Það er alveg rétt, það eru til gögn sem sýna jöklar voru byrjaðir að hopa í kringum árið 1800 eða löngu áður en útblástur gróðurhúsa lofttegunda kom til. Jarðvegs rannsóknir á því landi sem kemur undan hopandi jöklum sýna líka gamla trjástubba og annan gróður. Hvenær skildi þessu hafa verið plantað?

Umræðunni virðist því stjórnað af trúarleiðtogum sem kæra sig kollótta um sannleikann. Sama hvort menn heita Al Gore eða Andri Snær þá er sannfæring og trú er ekki það sama og staðreyndir.

Ég fékk eina góða athugasemd frá Bjarna vini mínum Sigtryggssyni við síðasta pistli. Þar bendir hann á að óhófleg og vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum hefur flýtt þeirri röskun á loftslagi, sem oft er kölluð "global warming". Það er alveg rétt hjá honum að þetta er kenning sem haldið hefur verið fram og henni hefur vaxið fylgi. Ég hef haft efasemdir um að hún standist og tel reyndar að sífellt fleiri gögn séu að koma í ljós sem sýni að hún standist ekki. Meira um það síðar.

Ég tek heilshugar undir með Bjarna þar sem hann segir „Skoðið báðar hliðar málsins“ Einnig að við eigum þrátt fyrir að vera efahyggjumenn að hvetja og ýta undir hverskonar þróun á endurnýjanlegum orkulindum, bindingu kolefna í gróðri og jarðvegi og almennt að gæta að og ganga vel um nánasta umhverfi okkar og náttúru.

Heimsendaspámenn og loddarar eru orðnir heldur fyrirferðamiklir í þessari umræðu að mínu viti.


Loftslags trúarbrögð

Ég er einn af þeim sem hef ekki verið tilbúin til að gleypa fullyrðingar um hlýnun jarðar alveg hráar. Ég hef viljað fá trúverðugar vísindalegar sannanir fram í dagsljósið. Að sama skapi hef ég ekki geta neitað framsetningu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna IPCC. Þrátt fyrir sterkan orðróm um spillingu og gagnahagræðingu. Nú síðustu daga og vikur hefur Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna IPCC misst trúverðugleika sinn. Ástæðan fyrir því er sú að nefndin byggir ályktanir sínar á gögnum frá Loftslagsdeild háskólans í Austur-Anglíu í Bretlandi (Climatic Research Unit) skammstafað CRU. Nýlega brutust tölvuþrjótar inn í tölvukerfi CRU og stálu þar umtalsverðu magni af gögnum og tölvupóstum sem sýna og sanna mjög vafasama meðhöndlun gagna og óeðlileg samskipti CRU við marga af æðstu stjórnendum IPCC.

Phil Jones yfirmaður CRU hefur viðurkennt opinberlega að brotist hafi verið inn í tölvukerfi CRU en að sama skapi hefur hann reynt að gera lítið úr innihald þess sem komið er í umferð af þessum gögnum. Sumir erlendir fréttaskýrendur ganga svo langt að halda því fram að þetta sé upphafið af endalokum IPCC. Hvort sem að það er rétt eða ekki er alveg ljóst að niðurstöður nefndarinnar eru byggðar á rannsóknargögnum sem eru fölsuð til þess að draga fram fyrirfram gefna niðurstöðu.

Þetta er merkilegt í ljósi þess að nú eftir nokkra daga eru þjóðarleiðtogar heimsins að hittast í Kaupmannahöfn til þess að ræða aðgerðir í loftslagsmálum heimsins. Þessi umræða er byggð á niðurstöðum IPCC sem notar gögn sem átt hefur verið við til þess að draga fram fyrirfram ákveðnar niðurstöður.

Ég á kunningja sem að sagði við mig um daginn að þessi loftslagsmál væru eins og trúarbrögð. Ég hló en svo fór ég að hugsa þetta betur og sá að hann hafði mikið til síns máls. Hér er vel gefið, vel menntað, vel upplýst fólk tilbúið til þess að trúa því að losun gróðurhúsa lofttegunda sé að orsaka hnattræna hlýnun. Án þess að það sé sannað á einn eða neinn hátt. Öll framkoma þessa fólks er eins og um trú eða trúarbrögð sé að ræða. Öll rökhugsun út í veður og vind og hjarðeðlið tekur völdin. Einhvernvegin er það þannig að mjög margir vísindamenn trúa því að framsetning IPCC sé rétt. En það eru ekki vísindi heldur trú. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti trú, en þegar hún dulbýr sig sem vísindi og slær um sig með fölsuðum rannsóknargögnum er hún ekki trúverðug.


Og hvað gerir Jóhanna þá?

supply_and_demand_tshirt.jpg

Eins og við flest höfum fundið á eigin skinni síðustu mánuði þá hefur efnahagur landsins verið veikur og kreppuástand eða samdráttarskeið hefur varað mánuðum saman. 

Ég var spurður af því um daginn „Hvað er þessi efnahagur landsins sem stjórnmálamenn klifa sífellt á eiginlega“. Ég verð að viðurkenna að það rann ekki alveg beint upp, ég þurfti að hugsa smá stund því að hugtakið er orðið svo tamt í munni að maður er hættur að hugsa nákvæmlega hvað það raunverulega merkir. 

Efnahagur landsins er raunverulega það sem við sem þjóð framleiðum (fiskur, ál, matvæli, fatnaður). Það sem við sem þjóð notum af varningi (matur, föt, bílar). Þjónustan sem við sem þjóð nýtum okkur eða kaupum (klippingin, menntunin, viðgerðin á bílnum). Þannig má segja að allir (engin undanskilin) sem framleiða, eða nýta sér eitthvað í landinu hafi hlutverk í efnahag landsins. 

Þannig eru framleiðsla og neysla ofin saman. Til þess að fólk geti neytt hluta þarf að framleiða þá. Og til þess að framleiðslan geti staðið undir sér þarf fólk að vilja neyta framleiðslunnar. 

Segja má að þegar efnahagur landsins er heilbrigður og í jákvæðri uppsveiflu markast hann af þessum megin þáttum: 

  • Almenningur hefur trú á efnahagshorfum til framtíðar, þannig að hann eyðir meira.
  • Afleiðingin af því er aukin eftirspurn sem þýðir að þeir sem eru að framleiða og veita þjónustu þurfa að auka við sig starfsfólk og kaupa inn meira hráefni. 
  • Aukið atvinnustig þýðir síðan að enn fleiri neytendur kaupa vörur og þjónustu. Eftirspurn eykst enn frekar.
  • Fjárfestar hafa trú á því að efnahagurinn haldi áfram að rísa þannig að verð á hlutabréfum hækkar. 
  • Með auknu fjárflæði kaupa fjárfestar meira magn bréfa á markaði en líka aukið magn af vöru og þjónustu.
  • Verð á hlutabréfamarkaði vex
  • Efnahagur landsins er í jákvæðum spíral upp á við. 

Gagnstætt jákvæðum áhrifum í efnahag þjóðarinnar getur þjóðin lent í neikvæðum áhrifum  til lengri tíma eða svokölluðum neikvæðum spíral sem grefur undan og veikir efnahag þjóðarinnar. Þessu neikvæðu áhrif markast af þessum megin þáttum. 

  • Almenningur hefur takmarkaða trú á efnahagshorfum til framtíðar, þannig að hann eyðir minna.
  • Afleiðingin af því er lækkandi eftirspurn sem þýðir að þeir sem eru að framleiða og veita þjónustu þurfa að fækka starfsfólki og kaupa inn minna hráefni. 
  • Lækkandi atvinnustig þýðir síðan að enn fleiri neytendur missa vinnu og getu til að kaupa vörur og þjónustu. 
  • Þeir neytendur sem eru í vinnu hafa áhyggjur af því að þeir gætu misst vinnuna þannig að þeir eyða minna. Eftirspurn dregst enn frekar saman.
  • Fjárfestar hræðast enn frekara fall á mörkuðum þannig að áhugi þeirra á því að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum dvínar. 
  • Verð á hlutabréfamarkaði fellur 
  • Efnahagur landsins er í neikvæðum spíral niður á við.

Þetta er í raun það ástand sem að við lifum í, neikvæður spírall niður á við. Helsta orsökin; óvissa á framtíðina og minnkandi kaupgeta almennings eða með öðrum orðum mikið fall á eftirspurn. 

Já þetta er ekki mikið flóknara, hryggstikkið í samfélaginu er geta mín og þín til þess að neyta þess sem samfélagið býður upp á. Þegar geta okkar til þess að kaupa það sem hugur girnist skerðist. Dregst efnahagur þjóðarinnar saman. 

Þá getum við spurt; hvað hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gert til þess að auka trú almennings á því að ríkisstjórnin valdi hlutverki sínu við stjórn efnahagsmála? 

Hvað hefur þessi sama ríkisstjórn gert til þess að hvetja landsmenn til þess að auka neyslu sína?  

Eða hvað hefur þessi ríkisstjórn gert fyrir efnahag landins? Svari nú hver fyrir sig.  


Vonbrigði

Ég átti von á því að ný ríkisstjórn mundi marka sér afgerandi spor í þágu landsmanna allra.   En aðgerðar listi stjórnarinnar virðist vera bitlaus samsuða. Ég átti von á svo mikið mikið meiru. Þessir hlutir samanbornir við það sem áður var boðið, sambærilegt og markar ekki nein tímamót. Tíminn á svo eftir að leiða í ljós hvort að hér sé saman komið lið sem lætur hendur standa fram úr ermum.

Sérstaklega finnst mér aumkunarvert að sjá tillögu um að stöðva uppboð á heimilum fólks í 6 mánuði OG HVAÐ SVO! Þetta er málamynda plástur sem tekur ekki á vandanum sem við blasir.  Vandinn er misgengi á milli lánsfjár og tekna eða tekjumöguleika fjölskyldna. Hjá fjölskyldum sem ramba á barmi þrots er þetta einungis frestun á vandamálinu en ekki lausn. Blekkingarleikur eða ómerkilegur kosningavíxill.


GLEÐILEG JÓL

Birta og Arnar Geir á ÞorláksmessukvöldÉg sendi okkar bestu kveðjur um gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra okkar vina og vandamanna. Megi baráttan við kreppuna og lífið ganga vel hjá ykkur öllum. 

Kær jólakveðja úr Sveighúsum

Örvæntingar æði

Nú er svo komið að á hverjum degi heyrir maður af nýju fólki sem alvarlega er að hugsa um að henda lyklinum af húsinu og bílnum inn í viðkomandi lánastofnanir og flýja land. Ég held að ráðamenn þurfi að fara að gera sér grein fyrir því að þúsundir fjölskyldna standa í þeim sporum að geta ekki með neinu móti klofið þær skuldbindingar sem það tók að sér í góðri trú um stöðugleika og örugga efnahagsstjórn. Staðreyndin er að fólk sér fram á betri kjör fyrir sig og sína með því að hlaupast frá skuldbindingum sínum. Hvort sem það er til útlanda eða ekki. Ég var að tala við einn félaga sem tók á sínum tíma 18 milljóna erlent lán til að fjármagna 70% af kaupverði íbúðar fyrir fjölskylduna. Allt var reiknað út frá greiðslugetu fjölskyldunnar og 130 þúsund króna afborgun átti ekki að vera of íþyngjandi. Nú er staðan sú að mánaðarleg greiðsla þessa láns er komin í 270 þúsund og fjölskyldan löngu hætt að hafa greiðslugetu til að standa undir þessu. Til viðbótar eru svo auðvitað bílalán ýmsar tómstundir barnanna og ýmis önnur útgjöld. Fjölskyldufaðirinn tjáði mér að hann væri sko alveg til í að selja allar sínar eignir bara til þess að hafa hreint borð en það er engin markaður fyrir eitt né neitt. Eigið fé eða framlag fjölskyldunnar er löngu brunnið upp og tryggingar (hús og bíll) standa í raun ekki undir eftirstöðvum lána. Fyrir þessa fjölskyldu er engin leið út (að þeirra mati) nema skila lyklum af íbúð og bíl og láta lýsa sig gjaldþrota. Jafnvel 7 ára klafi þar sem einstaklingurinn verður eignalaus og rúin trausti í bankakerfinu er í raun aðgengilegri fyrir þetta sómafólk til að þau megi veita sér og sínum LÁGMARKS viðgerning. Þetta fólk gerði í raun ekkert af sér nema treysta því fólki sem sagði að hér ríkti festa og öryggi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það fólk hinsvegar talar niður til fjölskyldunnar og segir henni að hún hafi skuldsett sig óhóflega.Sorglegt en því miður satt.

Nú er nóg komið

Ég er einn af þeim sem hef verið aðdáandi Davíðs Oddssonar lengi, jafnvel þó að ég hafi ekki alltaf verið honum efnislega sammála. Staðfesta, ótvíræðir leiðtogahæfileikar, röggsemi, dugur og þor eru allt saman eiginleikar sem ég hef hrifist af. Nú er hinsvegar svo komið að ég tel óhjákvæmilegt að þessi fyrrverandi pólitíkus og núverandi embættismaður dragi sig í hlé.  Hroki, drambsemi, einræðis tilburðir og þröngsýni eru að sama skapi eiginleikar sem ég fyrirlít og því miður hef ég séð of mikið af þeim eiginleikum upp á síðkastið. 

Það er þungbært fyrir þennan ágæta mann sem átti mjög svo farsælan stjórnmálaferil að sitja uppi með það að vera sá embættismaður sem hefur gert ein mestu afglöp sögunnar í starfi sínu sem bankastjóri Seðlabankans.  En þannig er það nú bara. 

Sátt og samtakamáttur næst ekki fram hjá þjóðinni fyrr en forystumenn hennar viðurkenna mistök sín og veikleika. Þá þarf að leggja niður pólitískan rétttrúnað, flokkspólitískt hagsmuna pot, og persónulegt hagsmuna pot. Við þurfum að fá leiðtoga fram sem að þjóðin raunverulega trúir að sé að gæta hagsmuna hennar en ekki einungis hagsmuna fyrir fáa útvalda. 

 


mbl.is Sigurður: Lenti illilega saman við Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðji kosturinn var augljós

Því miður virðist merkisberi hins almenna verslunarmanns Gunnar Páll Pálsson hafa verið gleyptur af græðgis-væðingu bankakerfisins. Það er merkileg niðurstaða að formaður VR hafi einungis séð 2 kosti í stöðunni. Í mínum huga er augljóst að þriðji kosturinn var sá eini sem formaðurinn gat tekið ef hann vildi njóta áfram trausts umbjóðenda sinna. Og þriðji kosturinn var auðvita að greiða atkvæði á móti þessari aðgerð. Ærlegur maður getur ekki með neinu móti samþykkt að mismuna umbjóðendum sínum gróflega eins og Gunnar Páll hefur gert. Þúsundir verslunarfólks sem er með viðskipti sín hjá Kaupþingi hefur verið niðurlægt af formanni sínum. Hvaða afsakanir sem hann reynir að bera fram til þess að verja klaufagang sinn er alveg ljóst að hann var ekki að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.
mbl.is Ekki hægt að taka aðra ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faðir vor, þú sem ert....... í Seðlabankanum

Ég er búin að liggja svolítið á meltunni og hugsa um þetta magnaða viðtal við Davíð Oddsson sem sýnt var í Kastljósi í gærkvöldi. Ég hafði því miður ekki möguleika á því að skoða þetta fyrr en í dag. 

Ég verð að segja að þarna brá núverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans sér í gamalkunnugt hlutverk sem landsfaðirinn sem þarf að sefa þjóð sína. Ég verð að segja að sem slíkur stóða hann sig frábærlega en ég set spurningarmerki við þessa framgöngu hans. Var þetta hans hlutverk? Ég held ekki þessi skilaboð átti forsætisráðherra vor að flytja þjóðinni. Það hefði verið það eina rétta. Því að skilaboðin voru alveg þræl pólitísk og ekki hlutverk embættismanns að þruma svona yfir þjóðinni.     


ÞAÐ HLÝTUR AÐ VERA AF MANNA VÖLDUM!!

 

 

 

2000-years-of-global-warming

 

Það hlýtur að vera af mannavöldum fyrst við getum ekki skýrt það, eða hvað?

Staðreynd málsins er að vísindaþekking okkar getur ekki skýrt þær sveiflur sem verða á hitastigi í náttúrunni. Það er engin áræðanleg aðferð til til þess að greina á milli náttúrulegra og manngerðra áhrifa á hnattræna hlýnun. Þannig að vísindamenn sem hafa í raun enga haldbæra skýringu á hitasveiflum jarðar draga gjarnan þá ályktun að hún sé af mannavöldum. 

Því miður er hjarðeðli mannanna sterkt og á það líka við í heimi vísindanna. Þó eru til einn og einn virtur vísindamaður sem með rökum hafa sýnt fram á að ályktanir sem dregnar hafa verið um að hnattræn hlýnun af manna völdum standast ekki. 

Rök vísindanna eiga vel við þegar stærðir og umfang er mælanlegt,  en þegar gögn á bak við ályktanir eru takmörkuð eru niðurstöður eða ályktanir því miður oft ónákvæmar eða hreinlega rangar. 

Dr. Roy W.Spencer einn helsti loftslags sérfræðingu heims, er einn af þeim fræðimönnum sem bent hafa á, að ályktanir um áhrif manna á hlýnun jarðar sé byggðar á ófullnægjandi gögnum. Hann bendir á það í greinum sínum að ástæða þess að nokkuð mikill stuðningur við þessar kenningar í vísindasamfélaginu er EKKI sá að menn hafi útilokað aðra möguleika.  Heldur frekar vegna takmarkaðrar þekkingar á fræðasviðinu og því að nákvæmari rannsóknargögn yfir lengri tíma vantar. 

Sú gróðurhúsalofttegund sem langsamlega mest er af í andrúmsloftinu er vatnsgufa. Hún jafngildir 98 prósentum af öllum gróðurhúsalofttegundum. En koltvíoxíð aðeins einu prósenti. 

Ég verð að segja fyrir mig að náttúrulegar sveiflur í 98% efninu finnst mér líklegri skýring á hnattrænum hitasveiflum en manngerðar sveiflur í 1% efninu. 

Til gamans er hér línurit sem Dr. Spencer hefur tekið saman yfir hnattrænar hitasveiflur milli áranna 1850 og 2007 er um að ræða rauntölur en fyrir tímabilið frá árinu 1 til 1850 eru árhringir trágróðurs notaðir til þess að áætla hitastið á hverjum tíma. 


Val-bundin vitskerðing?

Ég hlustaði í útvarpi á Umhverfisráðherrann okkar þar sem að hún var í yfirheyrslu hjá umsjónarmanni Íslands í dag á Stöð 2 núna fyrr í kvöld. Það sem að datt í hugann á mér við að hlusta á hana var að annað hvort er konan eitur snjöll og útsmogin eða þröngsýn og vitgrönn. Eftir að vera búin að velta þessu fyrir mér dágóða stund komst ég að þeirri niðurstöðu að líklegast væri um val-bundna vitskerðingu að ræða.

Í þessu viðtali sagði ráðherrann að stefna ríkisstjórnarinnar væri að halda áfram að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og var hún þá að ræða um losun koltvíoxíðs. Þetta var sagt svona eins og við Íslendingar værum í flokki mestu umhverfis sóðanna á þessari plánetu. 

Evrópusambandið eyðir umtalsverðum upphæðum í það að ná langtímamarkmiðum sínum  varðandi nýtingu á umhverfisvænni orku. Þeir eru að gera sér vonir um að komast upp fyrir 10% hlutfall af umhverfisvænni orkunotkun í nánustu framtíð. Á sama tíma er notkun okkar Íslendinga á umhverfisvænni orku um 70% af heildar notkun okkar. Það sér hver maður að hér er ólíku saman að jafna. 

Það var líka kostulegt að þetta viðtal skildi vera sama dag og hinn virti sænski fræðimaður Fred Goldberg hélt fyrirlestur í Norræna húsinu. Hann telur meðal annars að mannleg áhrif á loftslagsbreytingar séu stórlega ofmetinn. Samkvæmt hans kenningum hefur mannkynið ekki einu mælanleg áhrif á veðurfarið. Kenningar hans koma saman við kenningar Doktors Roy W. Spenser.  Staðreyndin er sú að vatnsgufur jafngilda 98 prósentum af öllum gróðurhúsalofttegundum. En koltvíoxíð aðeins einu prósenti. 

Aðeins 4 prósent af þessu eina prósenti af Koltvíoxíði er síðan af mannavöldum. Líkurnar á því að það geti haft veruleg áhrif eins og haldið hefur verið fram varðandi hlýnun jarðar eru því nánast hverfandi. 

Það er gott að geta talað af sannfæringu um mál út frá val-bundinni þekkingu.  Einhverjir kalla það lýðræði aðrir kjósa að kalla það fölsun. 



Borgarrrrrstjóri hinn fjórði

Ég skal viðurkenna það að ég hef ekki haft mikla trú á því að Hanna Birna gæti leitt sundurleitan borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Og ef það er eitthvað sem að flokkinn vantar núna þá er það sterkur og stefnufastur leiðtogi og ég satt best að segja sá hann ekki í hópnum. Þessi hópur er búin að vera í tómu tjóni síðan Vilhjálmur tók við sem leiðtogi en hann var langt frá því að valda starfinu. Það eru gömul sannindi og ný að gamall og reyndur pólitíkus sem hefur gríðarlega reynslu og þekkingu þarf ekki að vera góður leiðtogi. Því miður fyrir flokkinn var það raunin með Vilhjálm.

En aftur að Hönnu Birnu. Á mig hefur þessi kona alltaf virkað eins og hún sé hrokafull frekja. Hún getur sett upp einhvern vandlætingar þvermóðsku svip sem er ekki vitund heillandi. Ég held að ég geti sagt að hann sé beinlínis fráhrindandi. 

Ég sat í gærkvöldi og fylgdist með Helga í Kastljósinu taka hana í yfirheyrslu. Ég sat spenntur í sófanum og hlustaði á hvert orð og reyndi að ráða í hverja hreyfingu og hvern svip. Þegar viðtalinu sem var í beinni var lokið stóð ég sjálfan mig að því að brosa. YESSSS hrópaði ég, það er enn von. Ég sá konu sem að var geislandi og talaði af festu, öryggi og yfirvegun. Svo tók hún líka ábyrgð, sagði fullum hálsi að hún sem leiðtogi hópsins tæki fulla ábyrgð á því hvernig mál hefðu þróast síðustu daga. Það að þora að taka ábyrgð á verkum sínum er sjaldgæfur eiginleiki pólitíkusa, þeir eru þekktari fyrir taka helst enga ábyrgð en sannir leiðtogar gera þetta hiklaust. 

Ég bíð spenntur eftir næstu vikum til að sjá hvernig málin þróast hjá henni og hvort að hún nær að vinna traust almennings (mín) með forystuhæfileikum sínum. Ég vona allavega að við fáum að sjá meira af þessari konu sem var svo kraftmikil og sannfærandi í Kastljósinu.  


Gott hjá þér strákur

Kóngurinn á heiður skilin fyrir að segja skoðun sína umbúðalaust. Samfélag okkar á að vera þannig að allir geti sagt sína skoðun án þess að verða fyrir aðkasti þeirra sem ekki geta myndað sjálfstæða hugsun og hafa því kosið að vera hjarðmenn annarra. 

Því miður er það sífellt að færast í aukanna að fólk með heilbrigðar sjálfstæðar hugsanir veigrar sér við að koma fram með þær. Ástæðan er óhemjuskapur og yfirgangur öfgafólks bæði til vinstri og hægri, þeirra sem vilja berja sem flesta til hlýðni í hjörðinni.  Ég tek heilshugar undir skoðanir Bubba að álið er sko ekki það versta sem þessi þjóð glímir við.

Hér deyr fólk á biðlistum eftir aðgerðum vegna fjárskorts í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma getum við eitt milljónum í ísbjörn og sungið til að vernda stokka og steina. Í mínum huga skrítnar áherslur.  


mbl.is Bubbi liggur undir ámælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira af myndum

Var að setja inn meira af myndum frá degi 1 í MBA göngunni. Dagur 2 og 3 koma síðar. Kíkið í myndamöppuna sem að heitir MBA gangan 2008. Njótið vel kæru félagar.

MBA gangan 2008

 IMG 2526

Þá er lokið MBA göngunni þetta árið. Gengið var um Mýrdalinn undir styrkri stjórn heiðurshjónanna Grétars og Ívu. Þetta var 3ja daga frábær ferð þar sem náttúru fegurðin var stórbrotinn.  Fyrst var farið austur að Hjörleifshöfða þar sem gengið var undir leiðsögn Þóris Kjartanssonar, landeiganda. Einstaklega fróðleg og skemmtileg gönguleið. Að því loknu var ekið upp að Hafursey þar sem gengið var á Skálafell. Þar á brúninni er þverhnípi niður og þar blasir við Mýrdalsjökull í öllu sínu veldi. Sannarlega stórkostlegt útsýni. 

Á degi tvö var rigning á því svæði sem átti að ganga og því var gripið til þess ráðs að fara í göngurnar sem búið var að skipuleggja fyrir dag númer 3. Ekið var að Sólheimaskála í Sólheimaheiði. Þaðan er gengið niður Lakaland, Hrossatungur og Selheiði í Réttargil hjá skógarreitnum í Gjögrum. Útsýnið hér var enn stórkostlegra en á fyrsta deginum og hér komst hópurinn í snertingu við Sólheimajökul í orðsins fyllstu merkingu. Hrikalegt og ægifagurt landslag.

Á þriðja degi var síðan gengið frá Falli þaðan sem gengið er inn Krákutungu framhjá Stofndalshelli og síðan fram Hvammsdal fram hjá Prestshelli. Allt annað landslag heldur en hrikaleg fegurðin í kringum jökulinn.

Þetta var ógleymanlegt ævintýr og einstakur og samhentur göngu hópur.

Fleiri myndir verða settar inn í albúm á næstu dögum. 


Úlfur úlfur

Ég velti fyrir mér þegar ég sé uppslátt eins og þennan, hvort það sé almenn leti sem fær okkur landsmenn til þess að sleppa því að kynna okkur málin efnislega á eigin spýtur.

Ef spurt hefði verið hvort viðkomandi væri tilbúin til þess að lifa við enn frekari kólnun efnahagslífsins næstu árin? Eða hvort við eigum að hætta að nýta auðlindir okkar? Hvað þá?

Hvað er átt við með orðinu stóriðja? Er verið að tala um orkufrekan iðnað eða mengandi iðnað? Ég hef á tilfinningunni að fólk sé andsnúið svokallaðri stóriðju og virkjunum af því að það heldur að þarna séu á ferðinni verulega mengandi framkvæmdir. En er það svo?

Tekin hefur verið saman flokkun á allri losun íslendinga á gróðurhúsalofttegundum. Eftir atvinnugreinum er myndin þessi:

Sjávarútvegur og samgöngur 42% af heildar losun þjóðarinnar

Allur iðnaður þar með talið áliðnaður 34% af heildar losun þjóðarinnar

Landbúnaður og úrgangur 19% af heildar losun þjóðarinnar

Jarðhitavirkjanir 3% af heildar losun þjóðarinnar

Annað óskilgreint 2%

Á hvað forsendum skildu þátttakendur hafa svarað? Allavega það er skoðun undirritaðs að svona glórulaus framsetning sé neikvæð og niðurbrjótandi fyrir allan þorra almennings og Fréttablaðinu til lítils sóma.


mbl.is 57% andvíg frekari virkjunum fyrir stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíusukk !

Nú er blessað bensínið komið í rúmlega 173 krónur og enn hækkar dropinn. þetta gerist þrátt fyrir að verð á heimsmarkaði virðist heldur vera að gefa eftir. Hún féll til að mynda um 2 dollara tunnan á heimsmarkaði  þjóðhátíðardaginn 17. júní. Ég skutlaðist að sjálfsögðu út á næstu bensínstöð undir hádegi daginn eftir (þann 18. ) og átti að sjálfsögðu von á því að olíufélögin okkar, sem eru jú í bullandi samkeppni mundu nýta sér þessa lækkun jafn hratt og þau hafa nýtt sér hækkanir á heimsmarkaði undanfarnar vikur.

Það var öðru nær, ég held að reiknilíkön olíufélags manna geti bara reiknað verð upp. Alla vega eru takkarnir illa fastir (líklega lítið notaðir) þegar reikna á verðið niður. Enn bíð ég og bíð, og ekkert gerist.

Þetta hefur leitt hugann að álagningu olíufélaganna. Samkvæmt upplýsingum frá FÍB sem að fylgist með þessari verðþróun daglega, virðist svo sem olíufélögin verið að hækka álagningu sína síðustu daga. (mælt í krónum á hvern seldan lítra) Bingó þar er komin skýringin á því að engin lækkun varð þann 18.

Svigrúm þessara félaga til þess að lækka álagningu sína er líkast til ekki mikil. Glitnir situr uppi með Skeljung eftir að hafa tryggt söluna á félaginu. Þar þurfa menn jú ávöxtun á sitt pund. N1 og Olís fóru bæði nýlega í gegnum eigenda skipti þar sem í báðum tilfellum var um skuldsetta yfirtöku að ræða. Þannig að ekki er svigrúmið mikið þar.  Það er samt verulegt áhyggjuefni ef þessi félög með verðsamráði sínu hækka álagningu sína á þeim tíma þegar þjóðin þarf að fá fram lækkanir. 

Það er mikilvægt að muna í þessu samhengi að púkinn sem fitnar mest á þessu ástandi er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Því þrátt að bensíngjald ríkisins sé föst krónutala þá er ríkið líka að taka vörugjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskatt af hverjum bensín lítra. Öll þessi gjöld eru hlutfalls reiknuð þannig að með hækkandi verði verður hlutur ríkisins hærri.  

Það er merkilegur fjandi að einu tillögurnar sem sést hafa frá ráðherranum gera ráð fyrir auknum álögum á eldsneyti.  Já gott fólk það stendur til að bæta við enn einum gjaldflokki á eldsneyti og kalla það kolefnisgjald. Hversu langt er hægt að leyfa ríkinu að halda áfram á þessari braut skattpíningar?

Að lokum þetta, ég hlustaði á Pétur Blöndal í morgun en hann var að tjá sig í morgunútvarpi Bylgjunnar. Hann vildi ekki slá af álögum á eldsneyti þar sem að hann óttaðist að það yrði þensluhvetjandi.  Ég er nú yfirleitt hrifin af málflutningi Péturs en hvað þetta varðar er ég honum ósammála, hátt orkuverð er farið að hefta eðlilega starfsemi.  Með röksemdafærslu í þessum dúr er hægt að sýna fram á að feitt fólk skapar þenslu. Það notar meira af auðlindum og þarf meiri þjónustu, ergó það er þensluhvetjandi.  

 


Bjarnarbrjálæði

Líkast til, eru allir löngu orðnir leiðir á ísbjarnar skrifum en ég ætla samt að velta upp nokkrum pælingum um bangsa og ráðherra hans. 

Því skaut upp í huga minn þegar ég var að flétta blöðunum í morgun að mikið væri gaman ef ráðherrar þessa lands hugsuðu eins vel um þegna sína og ráðherra umhverfismála hugsar um villuráfandi rándýr norður í landi. Í nafni náttúruverndar er hægt að eyða mörgum milljónum að fé ríkissjóðs til þess að reyna að bjarga villidýri sem getur ekki gengið laust í íslenskri náttúru. Til allrar lukku varð að aflífa dýrið áður en þessu sirkus varð fáránlega dýr fyrir þjóðarbúið. 

Ég bara get ekki réttlætt í huga mínum þessi viðbrögð. Hér deyr fólk á biðlistum eftir læknisaðgerðum, öryrkjar og aldraðir lifa sumir hverjir við skammarleg kjör, ríkið hefur ekki efni á því að lækka álögur á eldsneyti almenningi til heilla, nú á þjóðin að sýna aðlögunarhæfni sýna og herða sultarólina. Á sama tíma finnst mönnum bara allt í lagi að eyða mögulega milljónatugum í ísbjörn. Ég held að við eigum gott orð yfir þetta háttarlag, flottræfilsháttur\u001b það er varla hægt að kalla það annað. Auðvita átti að lóga birninum strax.  


Er svarið aukin forsjárhyggja?

Sem barnfæddum Akureyring svíður mér sárt að alla helgina hafa dunið á okkur fréttir af skrílslátum, ökuníðingum, slagsmálum, líkamsárásum og öðrum óspektum frá Akureyri. Fjölmiðlar hamast hver í kapp við annan að draga fram allt hið neikvæða við atburðinn sem Akureyringar stóðu að með miklum myndarskap. Í öllum frétta flaumnum mátti þá finna eina litla línu í blöðum dagsins þar sem sagt var að viðburðurinn Bíladagar hefði farið fram með miklum sóma. Bílaklúbbur Akureyrar sem í áratugi hefur staðið fyrir bílasýningum og uppákomum í kringum 17. júní með miklum myndarskap, stendur á bak við þennan viðburð. 

Bæjarstýra Akureyringa sem þrátt fyrir að vera sjálfstæðiskona, er orðin helsti merkisberi forræðishyggju. Hún hamast nú við að reyna að ná tökum á skrílslátum einstaklinga sem allt of lengi hafa fengið að komast upp með öfgafulla hegðun víða um land. Svo langt gengur nú þessu forystukona að hún markvisst reynir að lágmarka heimsóknir unglinga til bæjarins.

Það er ekkert svar að útiloka unglinga frá bæjarfélaginu, þegar öllum má vera ljóst að einungis lítill hluti þeirra er til vandræða. Ég legg til við þig ágæta bæjarstýra að þú skoðir aðra möguleika eins og breytingar á lögreglusamþykkt bæjarins sem mundi gefa lögreglu aukið vald til að beita þungum fjársektum fyrir skrílslæti. Einnig mætti skoða að setja upp borgaralegt eftirlit þar sem bæjarbúar sjálfir kæmu til aðstoðar lögreglu. Í þessu mætti virkja íþróttafélög, björgunarsveitir, og fleiri. 

Akureyringar eru og eiga að vera stoltir af bænum sínum. Það felst ekkert stolt í því að láta fámennan hóp kúga sig. Það felst ekkert stolt í því að gefast upp, það felst ekkert stolt í því að banna gestum að koma ef þeir eru á ákveðnum aldri. Stoltið felst í því að láta alla vita að þeir séu velkomnir til þessa góða bæjar en um leið að skrílslæti verði ekki liðin og þeir sem verði uppvísir af þeim verði teknir föstum tökum, svo föstum að þeir munu hugsa sig um áður en þeir koma aftur.  Á bak við það mundi allir bæjarbúar flykkja sér og ganga um stoltir. 

Hrós í þessari umræðu fær Jóhannes í Bónus fyrir að standa gegn forræðishyggjunni.  

Ég hvet norðanmenn til að segja nei við forræðishyggju og taka þess í stað ruddana strax úr umferð. Harkalegar aðgerðir gagnvart þeim sem eiga það skilið spyrjast fljótt út og halda öðrum fautum frá.  


mbl.is 265 mál til lögreglu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Viðar Garðarsson

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband