Til stuðnings tjáningarfrelsinu

Hér er myndbandið frá Sigurrós, fyrir þá sem voru of seinir á YouTube. Hér er á ferðinni lítið fagurt nakið listaverk. Skylda allra íslendinga að koma því að sem víðast. 

 

 


Og kötturinn sagði ekki ég.......

Virkjun Jarðvarma, líklega umhverfisvænasta leið sem mögulegt er að nota við orkuöflun. Ég held að það ætti að senda félagsmenn í NSS í fræðsluferð til austur-evrópu lands þar sem orkuöflun fer fram að mestu með kolum.

126690980_5c03232dc4 


mbl.is NSS leggjast gegn áformum um Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Embættismanna ofbeldi

Ég er einhvernvegin þannig gerður að mér líkar best þegar fólk er ákveðið en samt gætt réttsýni og umburðarlyndi.  Þess vegna er ég til að mynda ekkert sérlega hrifin af þeim sem aðhyllast bókstafstrú ýmiskonar, gildir þá einu hvaða trúarbrögð eiga í hlut. Upp á yfirborðið síðustu daga hefur skotið nýjum bókstafsmanni sem er að verða eins og vírus sem hefur smitast út í sinni sveit.

Ég hef áður hér á þessu bloggi skrifað um Sýslumanninn á Selfossi vegna þess að hörkuleg og ferköntuð framganga hans hefur vakið athygli mína. Vill taka fram strax að ég hef aldrei átt persónuleg samskipti við þennan mann, heldur hafa valdsmannslegar aðgerðir hans dregið athygli mína að honum.  

Gein Helgu Jónsdóttur lögfræðings í Fréttablaðinu í gær föstudaginn 2. maí, er afar athyglisverð og í raun, dæmisaga um embættismann sem misskilur hlutverk sitt. Í skjóli bókstafsins er málarekstur keyrður áfram í óþökk bæði þolanda og geranda. Jafnvel þó að bent hefði verið á lagaheimildir til þess að fella málið niður.

Þegar ég flétti svo blöðunum í morgun voru tvær greinar sem ég rakst á sem urðu til þess að ég hugsaði það er ekki hægt að sitja og horfa upp á þetta ofbeldi á Selfossi athugasemdalaust.  Fyrst var það viðtal við Stefán Eiríksson lögreglustjóra í Reykjavík í 24 stundum, fyrirsögnin „Meðalhófið er heilög regla“ virðist ekki alltaf eiga við á Selfossi. Fréttablaðið í dag birtir svo athugun sína á fjölda mála hjá sýlsmannsembættum landsins milli ára. Þar kemur fram að á sama tíma og þessi málafjöldi embættanna hefur frekar dregist saman á landsvísu hefur hann rúmlega þrefaldast í Selfossi.  Ekki eins og það sé nóg heldur lauk 74,3% málanna á landsvísu með ákæru. Á Selfossi er þessi tala 88,8% eða 14,5% yfir meðaltali hinna embættanna.

Tilfinning mín um refsigleði yfirvaldsins á Selfossi var semsagt staðfest með tölfræði.  Nú er rétt að rifja upp aðeins það sem ég hef skrifað áður um Sýslumanninn á Selfossi og vald óttans. Ég skrifaði þá í hálfkæringi að þessi embættismaður væri að beita borgarana svo miklu ofbeldi og áreiti í því skyni að fá megin þorri þegnanna til að halda sér til hlés. Beita valdi óttans gagnvart samborgurum sínum. Aðferðafræði sem harðsvíraðir glæpamenn nota gjarnan.

Eftir þessa athugun Fréttablaðsins er augljóst að þessi ágæti embættismaður er að reyna að halda uppi lögum og reglu á suðurlandi með valdsmannlegum hrottaskap. Með laga bókstafinn að vopni gengur hann fram með mun meiri hörku og óbilgirni en við eigum að venjast.  

Ég held að það sé rétt að loka þessum hugleiðingum með orðum Sigurðar Líndal lagaprófessors sem höfð eru eftir honum vegna máls Helgu Jónsdóttur í þessari sömu úttekt Fréttablaðsins  „Rétt hefði verið að leita allra leiða til að fara vægar í sakirnar“ 

 


Athygli í góðar þarfir

Það er alger snilld að myndband Eurobandsins skuli vera tekið fyrir hjá slúðurdálka höfundinum Perez Hilton, þetta er nákvæmlega það sem að þarf þúsundir manna að horfa á, áður en gengið er í símakosningu. Ég kíkti inn á síðuna fyrir augnabliki og þá voru 90.000 manns búin að skoða myndbandið þarna síðan seint í gærkvöldi. Gargandi snilld.
Þetta er Það eina sem skiptir máli þegar almenningur ræður úrslitum í flestum löndum. :-)
mbl.is „Hommalegra en hommalegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlítið meira um gróðurhúsaáhrif

Aðeins meira af kenningum Roy Spencer. 
 
Eins og ég skrifaði í fyrri pistli í dag þá er hlýnun af völdum aukins magns koldíoxíðs (CO2) í andrúmsloftinu einu og sér til þess að gera lítil. Það hefur verið fræðilega reiknað út að ef að engar aðrar breytingar verða í lofthjúpnum, mun tvöföldun á koldíoxíð (CO2) í lofthjúpnum valda minna en 1 gráðu í hlýnun (eða um 1 gráðu á Fareinheit).  
 
 
En...gallinn er að þetta með engar aðrar breytingar í lofthjúpnum er ekki mögulegt.  Til að mynda má gera ráð fyrir því að ský, vatnsgufa og loftslagið í heild muni bregðast með einhverjum hætti við auknum hita. Þessi viðbrögð ættu annaðhvort að auka eða vinna gegn manngerðri hlýnun. Þessir þættir eru í umræðunni kallaðir viðbrögð (e. feedbacks). þessi svokölluðu viðbrögð stýra því svo hvort að manngerð hlýnun verður í hamfara stíl eða smávægileg og varla merkjanleg. Mat á þessum viðbrögðum er grunnurinn af öllum deilum fræðimanna um gróðurhúsaáhrifin. 
 


Hvað veldur gróðurhúsaáhrifum?

Eftir að hafa kynnt mér nokkuð vel kenningar Roy Spencer finnst mér alltaf vera meiri og meiri skynsemi í þeim. Kannski vegna þess að þær eru undirbyggðar af úr vísindalegum athugunum færustu sérfræðinga og svo eru þær ekki settar fram með upphrópun eða sem trúarbrögð. Sú framsetning einkennir því miður of marga sem vilja tjá sig um gróðurhúsaáhrifin og hvað valdi þeim.  Skoðum aðeins hvað Roy Spencer segir.

Kenningin um hlýnun jarðar byggir á þeirri forsendu að stöðugur meðalhiti jarðar orsakist af jafnvægi milli (1) sólargeisla sem ná inn í lofthjúpinn og (2) Innrauðum geislum sem sleppa út og tapast út í geiminn. Með öðrum orðum orka inn=orka út.  Þannig er útstreymi orku að meðaltali áætlað 235 wött á hvern fermeter á ársgrundvelli. 

 Gróðurhúsa lofttegundir í andrúmsloftinu (mestmegnis vatnsgufur, ský, koldíoxíð og metan) stýra að mestu því hversu heitt yfirborð jarðar verður. Notkun okkar mannanna á jarðefnaeldsneyti eykur síðan magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Áhrif þessarar aukningar eru að meira af innrauðu geislunum (sem vanalega sleppa út í geiminn) lokast inni í lofthjúpnum. Þetta styrkir enn frekar náttúruleg gróðurhúsaáhrif, þannig að hlýnun verður í lægri hluta andrúmsloftsins og á yfirborði jarðar. 

Kenningin um gróðurhúsaáhrifin segir að lægri hluti andrúmsloftsins hækki í hitastigi vegna þessara áhrifa koldíoxíðs, (aukning á hitanum veldur því að innrauðu geislarnir sleppa út í geiminn) sem veldur auknu útstreymi á innrauðum geislum þar til jafnvægi er náð við geislun sólar (orka inn=orka út) Með öðrum orðum hitastig á jörðinni mun aukast þar til jafnvægi er náð. ÞETTA ER KENNINGIN UM GRÓÐURHÚSAÁHRIFIN Í EINFALDRI MYND.

Hér er svo vandamálið. Hlýnun af völdum aukins magns koldíoxíðs (CO2) í andrúmsloftinu einu og sér, er til þess að gera lítil. Það hefur verið fræðilega reiknað út að ef að engar aðrar breytingar verða í lofthjúpnum, mun tvöföldun á koldíoxíð (CO2) í lofthjúpnum valda minna en 1 gráðu í hlýnun (eða um 1 gráðu á Fareinheit). Þetta er ekki umdeild staðhæfing, heldur niðurstaða loftslags sérfræðinga og vísindamanna á þessu sviði. Í dag er staðan þannig að við erum komin í svona 40% af því að tvöfalda magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu. 

Athyglisvert ekki satt?

Meira síðar.... 

 


Gróðurhúsaáhrif - sannleikur eða bull? Roy W Spencer

Þessi ágæti fræðimaður sem reyndar er mjög virtur fyrir skoðanir sínar gefur ekki mikið fyrir boðskap Al Gore. Hann gaf nýlega út bókina "Climate Confusion" sem allir áhugamenn um umhverfið ættu að lesa.  Þessi ágæti snillingur heldur því fram og rökstyður að tölvulíkön þau sem notuð eru í dag til að spá fyrir um hlýnun jarðar séu í meginatriðum ranglega saman sett. Hér að til gamans ein af þeim ábendingum sem hann hefur sett fram.

"Al Gore likes to say that mankind puts 70 million tons of carbon dioxide into the atmosphere every day. What he probably doesn't know is that mother nature puts 24,000 times that amount of our main greenhouse gas -- water vapor -- into the atmosphere every day, and removes about the same amount every day. While this does not 'prove' that global warming is not manmade, it shows that weather systems have by far the greatest control over the Earth's greenhouse effect, which is dominated by water vapor and clouds."  

Meira síðar..... 


Að sjálfsögðu á ráðherra íþróttamála að fara til Kína!

Nokkur umræða hefur verið um það síðustu daga hvort að ráðherra mennta- og íþróttamála eigi að vera viðstaddur setningu ólympíuleika í Kína. Íþróttakeppni er, og á að vera hafin yfir flokkadrætti og pólitík. Það er sjálfsagt og eðlilegt að mótmæla mannréttindabrotum Kínverja á Tíbetum. Það eigum við að gera við hvert tækifæri sem býðst. En við eigum ekki að sleppa tækifærunum sem gefast. 

Sú undarlega skoðun er orðin ansi útbreidd að best sé að árétta skoðanir sínar með því að fara í fýlu og mæta ekki. Þetta er ótrúlega útbreiddur misskilningur. Með þessu mundum við sýna óvirðingu okkar við ólympíuhugsjónina, en kínverskum stjórnvöldum gæti sjálfsagt ekki verið meira sama um hvort íslenskur ráðherra kemur eða ekki.  

Ráðherra íþróttamála á því að mæta á setningu ólympíuleikanna í Kína og sýna með því þúsundum afreksmanna virðingu sína á þeim afrekum sem þeir hafa undirbúið sig árum saman fyrir. Síðan á hún að nota hvert tækifæri sem gefst til þess að koma að stuðningi okkar við frelsis baráttu Tíbet á framfæri við Kínverska ráðamenn. 


Gríðarlegt áhorf á Mannaveiðar

Ég var að flétta Viðskiptablaðinu í morgun og skoða rafrænu mælingarnar sem að Capacent er að gera á sjónvarpsstöðvunum. Mér  til mikillar ánægju  voru Mannaveiðar að mælast með u.þ.b. 50% áhorf.  Þetta er  alveg stórkostlegt, að fá loksins áreiðanlega staðfestingu á því sem að við kvikmyndagerðarmenn höfum haldið fram árum saman að Íslendingar vilja fá að horfa á innlent leikið sjónvarpsefni. Nú hlýtur það að gerast að sjónvarpsstöðvarnar fari að keppast við að framleiða innlent gæðaefni sem endurspeglar okkar íslenska raunveruleika. Það er engin skynsemi í öðru.

Ég hef nú áður hér skrifað nokkrar línur um enska boltann og ætla að bæta aðeins um betur. Oft heyrist að það sé svo dýrt að framleiða innlent leikið dagskrárefni. 365 miðlar greiddu upphæð nálægt 1.500 milljónum fyrir 3 ára samning á enska boltanum eða upphæð sem er nálægt 500 milljónum á ári næstu 3 árin. Brotið niður á mánuði eru það 41,6 milljónir mánaðarlega. Heyrst hefur að framleiðslukostnaður við Mannaveiðar hafi verið u.þ.b. 60 milljónir, þar af er styrkur frá Kvikmyndamiðstöð Íslands 20 milljónir. Það þýðir að RUV hefur lagt til 40 milljónir í verkið. Annað dæmi er að Næturvaktin gullmoli 365 á þessum vetri kostaði sjónvarpstöðina líklega áþekka upphæð eða u.þ.b. 40 milljónir. 

Fyrir 500 milljónir á ári (enska boltann) sem er yfirleitt vel undir 5% í áhorfi, má framleiða eina leikna ÍSLENSKA seríu eins og Næturvaktina eða Mannaveiðar í hverjum mánuði. (báðar með margfalt áhorf við enska boltann) Hvað höfum við verið að hugsa. 

En bara svona til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum þá hef ég mjög gaman af öllum íþróttum og vill veg þeirra sem mestan í sjónvarpi. En gjarnan mætti sinna öðrum greinum en knattspyrnu betur. Af henni er fáránlega mikið framboð.  


Enski boltinn hvað !

Fyrir skömmu síðan hóf fyrirtækið Capacent rafrænar mælingar á áhorfi og hlustun á ljósvakamiðlum. Þessar mælingar eru stöðugt í gangi og gefa loksins íslenskum auglýsingakaupendum raunsanna mynd á því hvar áhorfið og hlustunin er best á hverjum tíma.

Ég var örstutt að kíkja á fyrstu niðurstöðurnar sem Capacent birti og þær eru mjög merkilegar. Ef ekki eru í þeim verulegar skekkjur sem eiga eftir að jafnast út á næstunni má sjá að innlent efni nýtur mikilla vinsælda. Við kvikmyndagerðarmenn höfum haldið þessu fram árum saman en oftast fyrir daufum eyrum.  Nú sést þetta svo ekki verður um villst að þetta efni skarar framúr hvað áhorf varðar. 

Það var líka merkilegt að sjá að enski boltinn mælist varla. Áhorf á hann er langt undir 10%, samt var 365 tilbúið að greiða fyrir sýningarrétt á honum 1.500 milljónir króna. Líklegast vegna þess að forráðamenn þar trúðu því að áhorf á þetta efni væri mikið. Ef marka má kannanir Capacent hafa þeir þó líklega keypt köttinn í sekknum. Það verður þrautin þyngri að fá kostendur og auglýsendur til þess að kaupa birtingar með þetta lítið áhorf.

Þetta vekur svo upp spurninguna hvort að fyrri aðferðir við áhorfskannanir hafi stjórnast að hluta til af því hvaða þrýstihópur var háværastur á hverjum tíma? Allavega benda fyrstu tölur til þess að forráðamenn sjónvarpsstöðvanna allra ættu að setja aukið fjármagn í innlenda dagskrárframleiðslu. 


Dæmisaga af óréttlæti, aðrir segja óréttlát dæmisaga

Ég var að flétta Fréttablaðinu og rakst þar á leiftrandi skemmtilegan pistil eftir Þorvald Gylfason. Að vanda var hann skemmtilegur, upplýsandi og vel fram settur. Eftir að ég hafði setið smá stund og hugleitt hvað maðurinn var að segja datt í huga minn þessi mynd.

Við sitjum í leikhúsi lífsins og erum á sama tíma áhorfendur og þátttakendur.Sá þáttur leikritsins sem ég ætla að fjalla um, hefur þessar persónur og leikendur.

Bóndinn, leikinn af íslensku þjóðinni.

Laxveiðimaðurinn leikinn af útgerðarmönnum með kvóta.

Ráðgjafar sem leiknir eru af þingmönnum löggjafarþingsins.

íslenski almúginn sem er leikin af sjálfum sér.

Söguþráðurinn er sem hér segir:Bóndi nokkur átti auðlind eina, laxveiðiá. Hann hafði leyft almúganum að veiða þar án takmarkanna en nú var svo komið að nokkrir laxveiðimenn voru svo stórtækir í sókn sinni að ljóst var að bóndinn þyrfti að takmarka sóknina i ánna ef ekki ætti illa að fara. Eftir nokkra umhugsun og vangaveltur varð það úr að hann fól ráðgjöfum sínum að búa til kerfi sem yrði öllum til hagsbóta og verndaði auðlindina fyrir komandi kynslóðir.

Viti menn ráðgjafarnir settu saman kerfi sem í meginatriðum er svona: Almúginn er útilokaður frá auðlindinni, hann hefur enga möguleika á því að komast inn í kerfið (þannig tryggðu ráðgjafarnir að nýliðun meðal þeirra sem í auðlindina sækja væri engin).

Síðan tóku þeir og úthlutuðu auðlindinni milli þeirra laxveiðimanna sem höfðu veitt mest síðustu árin og notuðu veiðireynslu þeirra síðustu árin til þess að útdeila gæðunum.  

Að lokum heimiluðu ráðgjafarnir laxveiðimönunum að eiga viðskipti með veiðiheimildirnar sín á milli án þess að þeir þyrftu að borga bóndanum eiganda auðlindarinnar krónu fyrir heimildirnar.

Laxveiðimennirnir urðu með einu pennastriki stóreignamenn á meðan að bóndinn hinn raunverulegi eigandi fær ekkert í sinn hlut.

-----------  

Er þetta ekki kallað eignaupptaka? Er nema von að tiltrú manna á löggjafarvaldinu sé lítil?  


Framsóknarfjós

Þetta hugtak skaust upp þegar ég var í huganum að fara yfir atburði síðustu daga í borginni. Ef það er eitthvað sem að hægt er að læra á þessari vitleysu þá er það hvað mannskepnan er sjálfhverf og siðblind. Pólitískt siðferði virðist vera algerlega horfið og almúginn mærir höfðingjana sem mæla með klofinni tungu, svo hendist hann (almúginn)í meðaumkun með þeim sem hafa leyft sér að fara á svig við lög og reglur af því að þeir hrökklast úr embætti.  Jú og svo er bara að skreppa og tala við skattstjórann og þá er málið dautt.  Verður ekki að krefja skattstjórann um hvað hann hyggst gera í málinu? 

 

 


Kallinn swingar eins og engill

Ég var svo skemmtilega lánssamur að fara á tónleika Bubba Morthens og Stórsveitarinnar í gær. Það var alveg ótrúlega gaman að upplifa þetta, Kóngurinn kom fram á sviðið í hvítum smóking með hljóðnema í hendi og engan gítar. Sérlega óvanaleg staða. Ég verð að viðurkenna að ég var nokkuð spenntur því ég var ekki viss um hvernig sveiflan færi með lög eins og Aldrei fór ég suður, Rómeó og Júlía og Ísbjarnarblús svo einhverjar perlur frá kappanum séu nefndar.

Til að gera langa sögu stutta þá sat ég ýmist með hökuna niður á bringu af undrun eða brosti eins og barn í afmæli nú og svo dillaði maður eins og búðingur því sveiflan tók mann traustátökum. Heilt yfir var þetta alveg frábært og sveiflan fór vel með perlurnar sem maður er búin að raula árum saman. 

Það voru þó nokkrir hápunktar sem mig langar að nefna. Framhjáhalds ræða Bubba þar sem hann þrumaði yfir karlpeningnum í salnum og renndi síðan inn í "Sumar konur" með gæsahúða saxafón inngangi frá Sigurði Flosasyni. Kossar án vara og Þínir löngu grönnu fingur hentuðu vel fyrir Stórsveitina. Síðast en ekki síst langar mig að nefna Fjöllin hafa vakað og Ísbjarnarblús þar sem Þórir Baldursson tók Hammondinn eftirminnilega til kostanna. 

Ég verð svona að lokum að minnast aðeins á Ragga Bjarna sem kom og tók My Way til að hvíla Bubba smá stund. Ótrúlegt að kallinn getur varla talað af elli, en hann syngur eins og engill. Garðar Thor kom einnig fram með eitt lag sem mér þótti slappasta atriðið á tónleikunum. 

Heilt yfir var þetta stórskemmtileg kvöldstund þar sem hljómsveitin fór á kostum og Kóngurinn var tær snilld, dansandi í hvíta smókingnum. 

Takk fyrir mig.


Er nóg að heita Cleese?

Og hvernig fannst þér svo skaupið er spurning dagsins, alveg sama hvert maður fer eða kemur, allir eru að velta þessu fyrir sér. Kannski er það ekki skrýtið þegar 95% af þjóðinni fylgist með spennt fyrir framan kassann. Mér fannst skaupið frábært, það var fjölbreitt og húmorinn margbreytilegur allir fengu eitthvað við sitt hæfi. Mér þótti auglýsinga hléið inn í skaupinu fínt og sé fyrir mér einn skemmtilegasta auglýsingatíma ársins þarna. Svona íslensk útgáfa af Superball auglýsingahléinu. Þarna á að sjálfsögðu að vera skilyrði að eingöngu verði frumsýndar íslenskar auglýsingar. Vonbrigði kvöldsins var Kaupþingsauglýsingin með Randver og John Cleese. Metnaðarleysi, hugmyndaskortur, verulega ófrumlegt!Það var gaman að sjá þennan ástsæla gamanleikara klæmast á Kaupþings nafninu í fyrra en núna að geta ekki látið sér detta neitt í hug nema að klæmast á Randver með tilheyrandi geiflum. Ótrúlega ófrumlegt og lélegt. Vonandi eiga þeir meira inni á næstu vikum.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kæru vinir! 

Við sendum ykkur okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár, megi guð og gæfan fylgja ykkur. 

Viddi og Ólöf

Höfum við gengið til góðs?

Ég er einn þeirra sem að held því fram að við séum á kolrangri leið með stefnuna í umferðarmálum. Aðferðafræðin er ekki að gera sig og mér sýnist að þessar tölur frá Ríkislögreglustjóra staðfesti það. Reyndar vantar nánari sundurliðun og skilgreingingu á þessu en þetta er verulega athyglisvert.

Umferðarstofa hefur farið hamförum í áróðri sínum, svo mjög að fólk er hætt að nenna að hlusta á þetta tuð. Þaðan kemur bara endalaust svartsýnishjal sem er farið að minna á söguna "Úlfur Úlfur" Svo þegar þeir þurfa virkilega að koma einhverju á framfæri nennir engin að hlusta.

Þurfum við ekki meira umburðarlyndi og gleði í umferðina? Vissulega er þetta dauðans alvara en það þjónar ekki tilgangi sínum að tala stöðugt um umferðina eins og vígvöll.

Einhvervegin læðist að mér sá grunur að þessi fjölgun sé fyrst og fremst venjulegt dagfarsprútt fólk sem óvart gleymdi sér augnablik og fór lítillega út fyrir vikmörkin. Eftir sem áður hefur ekki náðst sýnilegur árangur í því að stöðva umferðarþrjóta þessa lands enda er öll áherslan á því að stöðva þá sem enga hættu skapa í kringum sig. Eða hvað?


mbl.is Um 6.000 umferðalagabrot skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hipp hipp húrra

Aldeilis frábær sjónvarpsauglýsing var frumsýnd í gær þegar Síminn hóf að sýna nýja auglýsingu fyrir 3G farsímakerfið.  Hvað er það sem að gerir þessa mynd svona góða kann einhver að spyrja. 

Hér í fyrsta sinn í langan tíma tekur íslenskt stórfyrirtæki sig til og hefur kjark til þess að láta framleiða fyrir sig metnaðarfulla sjónvarpsauglýsingu sem byggir á vel hugsaðri hugmynd. Húmor og ótrúlega skemmtilegur nútímavinkill á annars grafalvarlegu efni.  Víst er að hugsuðir, eigendur og framleiðendur myndarinnar hafa vitað að efnið er eldfimt. Enda er það að koma í ljós, þjóðin er að tapa sér yfir þessu.

Í allt of langan tíma hefur auglýsingabransinn verið huglaus og hvert stórfyrirtækið af öðru hefur framleitt stórar og miklar sjónvarpsauglýsingar sem hafa ekkert að segja, sýna fallegar myndir og ramma en eru algerlega hugmynda- og merkingalausar. 

Vonandi er þetta upphafið á skeiði hina hugrökku, þar sem menn þora að leggja nafn sitt og ímynd við framsæknar og ögrandi hugmyndir. Hér hefur verið risið upp úr meðalmennsku, húrra fyrir því.   


mbl.is Miklar umræður á meðal bloggara um nýja auglýsingu Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vald óttans

Skemmtilegt viðtal var í sunnudagsblaði Moggans við Huldu Þórisdóttur en hún er nýbúin að verja doktorsritgerð sína í sálfræði við New York University. Niðurstöður hennar í stuttu máli eru að „Þegar óttinn hreiðrar um sig tekur íhaldssemi völdin.“  Það er gaman að velta þessu fyrir sér í samhengi við fréttir af sýslumanninum á Selfossi og valdsmannslegan hrottaskap hans og hans manna.

 

Er ekki mögulegt að þetta sé akkúrat málið, beita borgarana nógu miklu ofbeldi og áreiti, þá eru verulegar líkur á því að megin þorri þegnanna haldi sér til hlés og hætti sér ekki í það að drekka malt. Enda eiga þeir þá á hættu að þvagleggir og stólpípur verði notaðir til þess að tímasetja það nákvæmlega hvenær maltflaskan kláraðist. Svona mál þola enga bið, embættismennirnir verða að komast út á götu sem fyrst til þess að þefa af fleirum.

Nei svona að öllu gamni slepptu þá er þetta stór alvarlegt mál, í raun er ótrúlega mikið af óhæfu fólki í valdastöðum sem virðist ekki kunna neitt í mannlegum samskiptum nema beita „Valdi óttans“.

Man til að mynda eftir einum skólameistara sem sífellt er að koma skilaboðum til nemenda sinna um að ef hann fái ekki sínu framgegnt, verði engar skemmtanir í skólanum þetta árið.

 

Já vald óttans birtist í ýmsum myndum.

 

Jæja ég er að hugsa um að skreppa í Hveragerði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Viðar Garðarsson

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband