Vík skal milli vina, fjörður milli frænda

Þessi gamli málsháttur, sem ekki er víst að hafi myndast í einu lagi, hefur í sér ákveðin boðskap. Hér býr fólk dreift og er alið upp við það. Þó blóðflokkar sýni að blóð okkar sé oftar sé oftar af írskum uppruna en norskum, bendir málfar okkar, siðir og málshættir fremur norsku fjarðanna, þar sem menn bjuggu dreift, sóttu sjó og kærðu sig lítt um meir en hæfilegan átroðning vina og skyldmenna. Í landbúnaðarhéruðum Evrópu safnaðist fólk saman í þorp, sótti vinnu út á akrana á daginn. Þar var miklu meira nábýli en við erum vön.


Hér viljum við líka búa rúmt. Við viljum fá vini heim og veita þeim þar, í stað þess að fara með þá á næstu krá. Við höfum tekið upp siði höfðingja og mjög stór hluti þjóðarinnar hefur efni á því. Þessi hluti þjóðarinnar er ekkert á því, að taka lífshætti sína til baka um mörg ár og breyta þeim um leið í átt að gömlum evrópskum siðum, þar sem vinir bjuggu hver undir annars húsvegg, hittust hjá rakaranum á morgnanna og á kránni á kvöldin.


Bæði sú fjarlægð sem hér er milli vina og norðlæg lega landsins gera það að verkum, að við notum mikla orku í daglegu lífi. Það breytir engu í okkar huga, þótt rætt sé um hlýnun jarðar vegna brennslu eldsneytis. Við búum líka við miklar orkuauðlindir sem eru hreinar og við gerum meir en jafna reikninginn með því að taka hér á móti iðnaði sem mundi valda miklu meiri mengun væri hann annarstaðar í heiminum og notaði þá orku sem þar er tiltæk. Við sjáum það líka af fregnum frá fundum og ráðstefnum þar sem þessi mál eru rædd, að eigin hagsmunir eru hvarvetna í fyrirrúmi og hnattrænir hagsmunir koma síðar.


Við höfum líkt og aðrir farið að meta meir þann tíma sem við getum eytt með fjölskyldu okkar og vinum. Með öðrum hagfræðilegri orðum. Verðmæti frítímans hefur vaxið. Fólk vill hafa eðlilegan vinnutíma, þar sem það leggur sitt af mörkum til samfélagsins, en eyða minni tíma í umferð til og frá vinnu eða milli verkefna. Það vill hafa góðan tíma til að njóta samvista við og hlúa að fjölskyldunni.

Í sumarfríum viljum við ferðast um landið, sækja hátíð hér og vini heim þar, eða bara njóta landsins og taka myndir.


Þegar við gerum innkaup viljum við helst fara þangað, þar sem flestar vörur eru á minnstu svæði, gjarnan undir sama þaki. Okkur þykir að vísu gott að hafa hverfisbúð sem við getum gengið í, en mest magn er keypt í stórmörkuðum.


Þegar kemur að íþróttum er það ef til vill einn eða tveir staðir í borginni sem hver og einn sækir og skiptir þar máli hvaða íþrótt viðkomandi stundar og hvar í stórborginni hann er alinn upp, síður hvar hann býr þá stundina.


Það líf sem við viljum lifa er að hluta það sem landið og náttúran hefur alið okkur til. Stór, jafnvel stærsti hluti landsmanna annað hvort lifir þessu lífi, eða á sér þann draum að lifa þannig. Þessi hluti landsmanna er hvorki tilbúinn að fara aftur að lifa bíllaus í þéttu hverfi né láta af draum sínum um bíl, búsetu í hverfi þar sem rúmt er um og jafnvel sumarbústað, allt í þessari röð. Bíllinn er lykilatriði.


Þegar rætt er um samgöngur þá er raunhæfasti samanburðurinn gerður á grundvelli heildar tíma frá heimili á áfangastað hverju sinni. Fyrir almenningssamgöngur þarf að taka með göngutúra að og frá biðstöðvum, bið á einni eða fleiri stöðvum og ferðatíma í vagni. Fyrirbrigði eins og Borgarlína breyta þar litlu fyrir aðra en þá sem gera allt nálægt Borgarlínu, hvort sem er að búa, vinna, iðka líkamsþjálfun, stunda félagsstarf og versla. Með öðrum orðum ávinningurinn af því að nota almenningssamgöngur er lítill og borgarlína mun litlu breyta með það.


Fyrir þá sem eiga bíl og geta líka notað Borgarlínu fer valið eftir ferðatímanum. Bensínkostnaður skiptir litlu máli. Því er forsenda fyrir sjálfbærni Borgarlínu bæði í bráð og lengd sú, að sé einkabíllinn notaður lendi maður í umferðateppu, finni seint bílastæði á áfangastað og eigi á hættu að finna ekkert stæði þegar maður kemur heim aftur.
Þessu hefur meirihlutinn í Reykjavík áttað sig á og unnið markvisst í síðustu árin. Án þess að íbúar borgarinnar hafi verið spurðir að því hvort þeir óski eftir þessari þróun. Uppdiktaðar fullyrðingar um útblástur og umhverfisárif er gjarnan skellt inn í umræðuna þegar mikið liggur við. En er það víst að aukin notkun á almenningsvögnum hefði jákvæð áhrif á umhverfið?


Samkvæmt skýrslu sem University of Michigan Center for Sustainable Systems gáfu út er áætluð meðal nýting á einkabílnum 1,55 farþegi í hverri ferð eða 31% nýting að meðaltali sé miðað við 5 manna bifreiðar. Staðreyndin er að til og frá vinnu er farþegafjöldin nær því að vera ein persóna í ferð en þegar tilgangurinn er að leita afþreyingar þá er talan nær tveimur. Meðaltal í hverri ferð á einkabílnum er af þessum sökum reiknað 1,55 farþegi.   Í Bretlandi er meðal farþegafjöldin í almenningsvögnum 11,1 farþegi í hverri ferð sem er einungis 15,9% af flutningsgetu meðalvagnsins. (áætlað 40 sæti og 30 standandi).


Sé þetta sett í samhengi þarf aðeins 3 bifreiðar til þess að flytja meðalfjölda þeirra sem í vagnana fara. Þessu til viðbótar flytur bifreiðin þig á öruggari hátt beint á áfangastað.
Eldsneytisnýting nýrra bíla er sífellt að batna. Nú lætur nærri að nýir bílar komist að meðaltali 14,28 kílómetra á hvern líter af eldsneyti eða eyði um 7 lítrum á hundraðið eins og við köllum það yfirleitt. Til samanburðar hefur National Renewal Energy Laboratory í Ameríku áætlað að meðal almenningsvagninn í Bandaríkjunum komist um 1,69 kílómetra á hverjum lítra eða eyðsla sem nemur 59 lítrum á hundraðið.


Við getum því sagt að miðað við meðal fjöldann 11 farþega og þessa eyðslu þá þá sé með almenningssamgöngum hægt að ná 18,59 farþegakílómetrum (11×1,69) út úr hverjum lítra eldsneytis. Til samanburðar þá eru 22,14 (14,28×1,55) farþegakílómetrar á bak við hvern lítra eldsneytis á einkabílnum. Með öðrum orðum neikvæð umhverfisáhrif af almenningssamgöngukerfi eru meiri en notkun á meðal einkabíl. Hið sama á við ef reiknað er með að báðir kostir noti raforku.

Einkabíllinn er ekki eins slæmur og menn vilja vera láta. Hugmyndir núverandi meirihluta í Reykjavík um byggingu Borgarlínu eru því óraunhæfar. Heildar ferðalagið tekur lengri tíma, veldur meiri mengun og fjárhagslegur ávinningur er engin fyrir neytandann þannig að hugmyndir um nýtingu sem settar eru fram eru óraunhæfar líkt og raunin er með Strætó nú.


Tímamóta viljayfirlýsing Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Landsvirkjunar

Nokkuð er síðan að margar af fiskimjölsverksmiðjum landsins settu upp rafmagnskatla meðfram olíukötlum þeim sem í notkun voru um áratuga skeið. Þetta var þegar verð á rafmagni var lágt og olíuverð hátt sem þessi þróun fór af stað sem hagræðingar aðgerð af hálfu fiskmjölsframleiðenda. Síðustu ár hefur síðan Landsvirkjun markvisst hækkað verð á raforku til fiskimjölsverksmiðja á sama tíma og olíuverð hefur farið hratt niður á við. Þannig má segja að Landsvirkjun hafi verðlagt sig út af þessum markaði því að bræðslurnar brugðust við hækkunum á raforku með því að skipta til baka yfir í brennslu á olíu. Því eru fréttir af því að Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) og Landsvirkjun hafi tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði verulega ánægjulegar, sérstaklega í ljósi umhverfismarkmiða. 

Jón Már Jónsson formaður FÍF og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu viljayfirlýsingu þar að lútandi. Á fundi Hafsins Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins um loftslagsmál –áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, þar vék Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra máli sínu að framangreindum áformum í opnunarerindi.

„Ágætt dæmi um árangur í loftslagsmálum að frumkvæði atvinnulífsins er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þar hafði greinin sjálf frumkvæði að því að skipta úr olíu í rafmagn. Allir munu vera sammála um ágæti þess, auk loftslags ávinningsins minnkar loftmengun og starfsskilyrði batna við rafvæðingu. Það hafa hins vegar verið blikur á lofti vegna hækkaðs raforkuverðs. Ég fagna þess vegna nýgerðri viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda um að auka hlut endurnýjanlegrar orku við fiskimjölsframleiðslu,“ sagði umhverfisráðherra.

Fiskmjölsverksmiðjur eru tæknilega krefjandi viðskiptaaðili Landsvirkjunar m.t.t. eðlis rekstrarins og óvissu. Mikil orkuþörf í frekar skamman tíma og óvissa um hvenær veiðist og hvenær ekki, gera þessa vinnslu óvenju sveiflukennda á kerfi Landsvirkjunar. En það sem er stóra fréttin í þessari viljayfirlýsingu er að með henni er felst ákveðin viðurkenning á því að arðsöfnun í sjóði Landsvirkjunar er ekki endilega sú leið sem skilar samfélaginu mestum ábata á hverjum tíma.


Plagsiðurinn að grenja út fé

Það var áhugaverð sú skoðun Rúnars Geirmundssonar sem kom fram á bls. 4 í Morgunblaðinu í morgun að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma beiti hótunum til þess að fá aukið fjármagn til reksturs. Rúnar starfar sem útfararstjóri í eigin fyrirtæki og er formaður Félags íslenskra útfararstjóra.

Fyrir rétt um viku síðan kom fram forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma og tjáði alþjóð að garðarnir hafi verið fjársveltir frá hruni og nú sé svo komið að þeir geti ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum lengur. Þetta er kunnuglegur söngur sem hefur blossað víða upp hjá opinberum stofnunum upp á síðkastið.

Ég tel þetta áhugavert í því ljósi að kirkjugarðarnir eru ekki eina batteríið sem telur sig fjársvelt. Við þekkjum öll þessi neyðarhróp sem reglulega dúkka upp. Nefni hér nokkur af handahófi sem koma upp í hugann. 

Landspítalinn, Landhelgisgæslan, Lögreglan, Kirkjugarðarnir, ISAVIA til reksturs innanlandsflugvalla, hin ýmsu hjúkrunarheimili, háskólarnir, framhaldsskólarnir og Ríkisútvarpið. Nú er rétt að taka fram strax að ég hef á þessu stigi ekki skoðun á því hvort óskir þessara aðila séu réttmætar og sanngjarnar. Eflaust er svo í einhverjum tilfellum og jafnvel öllum.

Það sem mig langar að velta hér upp er sú lenska hjá stjórnendum þessara stofnana, sem virðist vera að festa sig í sessi, að rjúka með ýtrustu óskir viðkomandi stofnunar í fjölmiðla og draga þar upp eins dökka mynd og mögulegt er. Væntanlega í þeim tilgangi að reyna að snúa almenningsálitinu á sveif með sér að berja duglega á fjárveitingarvaldinu. Beita eins miklum þrýsting og mögulegt er til þess að ná til sín stærri hluta af kökunni.

Þetta er satt best að segja að verða hálfgerður plagsiður. Það sem út úr þessu kemur er að þeir sem láta mest á sér bera, hafa bestu tengslin við fjölmiðla fá viðbót við framlög og þeir sem ekki kvarta og kveina sitja eftir að ósekju. Svo mikið hefur verið um fréttaflutning sem þennan að hann er hættur að bíta eins og áður. Úlfur úlfur áhrifin eru komin fram að einhverju leiti, þjóðin er að vissu leyti dofin fyrir þessu.

Það er hlutverk þeirra sem við kjósum á þing að horfa á stóru myndina og reyna að ráðstafa því fé sem þjóðin á í sínum sjóðum á eins góðan og uppbyggilegan hátt og mögulegt er. Vissulega getur menn greint á um forgangsröðun. Pólitík snýst um mismunandi áherslur. Það er hlutverk stjórnmálamanna að útdeila þessu fé. Það að beita stjórnmálastéttina sífelldum þrýsting með hótunum um umfjöllun fjölmiðla, er líka pólitík, sem ég tel að stjórnendur opinberra stofnana eigi ekki að stunda.

Það er ekki ásættanlegt að stjórnendur einstakra stofnana séu með þessum hætti komnir á kaf í pólitíska umræðu. Þeirra hlutverk er að sýna hæfileika sína til þess að gera framúrskarandi vel með því fjármagni sem úthlutað er á hverjum tíma. En ekki að grenja út fé með aðstoð fjölmiðla. 


Vel gert ráðherra

Mikið hefur verið ritað og rætt um skipan dómara í Landsrétt síðustu daga. Eins og vænta mátti eru deildar meiningar um það hvernig skal með fara. Rétt er hér að taka fram að ég hef ekki á þessu neina sérstaka þekkingu og hef engin tengsl við þetta fólk sem sóttist eftir þessu starfi. 

Eitt af því sem þarf að skoða í þessu samhengi er sú staðreynd að síðustu ár hefur það sífellt færst í aukana að ýmsum nefndum og ráðum embættismanna er falið að leggja mat sitt á ýmis þau mál sem eru pólitísk. Oftast undir því yfirskyni að það sé svo faglegt. Þessar valnefndir eru og hafa alltaf verið þræl pólitískar.

Þessi aðferðafræði verður til þess að engin ber ábyrgð á ferlinu og niðurstöðunni. Hinn almenni borgari stendur yfirleitt varnarlaus gagnvart embættismannakerfinu sem hikar ekki við að fara á svig við lög og reglur í pólitískum tilgangi. Þetta hefur ítrekað gerst þar sem embættismannakerfið virðir ekki andmælarétt og tímamörk. Margoft hefur það dregið lappirnar skipulega svo ómögulegt er að eiga við kerfið. 

Við sjáum oft hvernig kerfið túlkar lög og reglur á sinn hátt og ef einhver dirfist að andmæla er viðkomandi hundsaður og erindinu stungið undir stól eins lengi og mögulegt er. Jafnvel þó kveðið sé á um að svar eigi að berast innan tímamarka. Engin ber ábyrgð og bendir hver á annan. Ekki er langt síðan að upplýst var um hótanir ráðuneytisstjóra í garð alþingismanns. Þar spratt fram mynd af þessu áður dulda samtryggingarkerfi embættismanna sem í raun stjórnar flestu hér á landi. 

Alþingismenn og ráðherrar eru hvað sem hver segir umboðsmenn þjóðarinnar á hverjum tíma. Þeir bera ábyrgð gagnvart kjósendum sínum og sækja til þeirra umboð. Ef kjósendum er misboðið hafa þeir allavega rétt til þess að kjósa með fótunum og forðast að veita viðkomandi einstakling og eða flokki hans umboð sitt við næstu kosningar.

Í þessu ljósi er ég ánægður með að Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra hefur kjark til þess að fara með það umboð sem henni var falið af kjósendum. Ákvarðanir hennar hafa verið staðfestar af meirihluta Alþingis.

Vonandi er þetta upphafið af því að færa kjósendum á ný það vald sem þeim er falið í stjórnarskrá og þeir síðan framselja stjórnmálamönnum í kosningum. Það var löngu tímabært að taka þetta vald frá svonefndum val- nefndum og ráðum sem eru umboðs- og ábyrgðarlaus.


Um bloggið

Pistlar

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Tónlistarspilari

Amy Winehouse - Rehab
Júní 2017
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 6029

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband