Þriðjudagur, 26. apríl 2016
Á næst að leiða Björk á gapastokkinn?
Slúður er það þegar maður heyri eitthvað sem manni fellur vel um einhvern sem manni fellur ekki við (ókunnur höfundur).
Það eru mikil átök í samfélaginu þessa dagana. Kraumandi reiði ríkir hjá sumum en margir eru ráðvilltir og vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Það felst nefnilega áhætta í því að láta í ljós skoðanir sínar. Það sem virtist vera heilagur sannleikur í gær, getur reynst vafasamt í dag og helber ósannindi á morgun. Hættan liggur í því að verða úthrópaður, slíkur er atgangurinn.
Þetta moldviðri er komið úr svokölluðum Panamaskjölum. Upplýsingar úr þeim þyrlast nú í allar áttir og Gróa á Leiti smjattar sem aldrei fyrr. Í svo litlu samfélagi eins og okkar, þar sem allir þekkjast, verða upplýsingar af þessu tagi sérlega safaríkar. Fólk ræðir varla annað en Panamaskjölin, hvort heldur er í reykmettuðum bakherbergjum, heimilum sínum eða á kaffistofum vinnustaða, og gleymir eigin vandamálum um stund. Athygli vekur að þessar viðkvæmu upplýsingar eru í höndum þriggja fjölmiðla (reyndar er einn þeirra tengdur eignarhaldi í aflandsfélagi samkvæmt upplýsingum gegnum Panamaskjölin) og fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga orðið aðgang að upplýsingum skiptir væntanlega tugum. Á síðustu 3 vikum hafa nöfn 12 manna birst opinberlega úr þessum gagnagrunni Panamaskjalanna. Þetta eru 4 menn á viku þá eru ekki eftir nema 588 nöfn af þeim 600 sem sögð eru vera eftir í grunninum. Á sama hraða verða öll nöfnin komin fram í dagsljósið eftir u.þ.b. 147 vikur.
Langvarandi gremja
Þessar 147 vikur jafngilda tveimur árum og tíu mánuðum í reiði og hneykslan. Viðvarandi gremjuástand gerir engum gott. Þess vegna verðum við að taka umræðuna um það hvernig best verður tekið á þessu ástandi. Darraðardansinn hófst á því að forsætisráðherrann hraktist úr embætti fyrir skýra þjóðinni ekki frá því að hann ætti efnaða konu sem geymdi fé á aflandsreikningi. Alvarleg yfirsjón. Nú er verið að ráðast á forsetann sjálfan, einnig fyrir að eiga efnaða konu sem hugsanlega á fé á reikningum erlendis. Svo eru gerð hróp að ráðherra fyrir að eiga efnaða ættingja og jafnvel verið að skipuleggja mótmæli fyrir framan heimili hans.
Gjaldkerar og framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka eru einnig í þessum dapurlega hópi. Þar er líka að finna stjórnendur lífeyrissjóða sem eru orðnir altumlykjandi í þjóðfélaginu. Framsóknarmafían, sem allir héldu að væru með höfuðstöðvar í Skagafirði, sýndi sig og átti sína birtingarmynd á skrifstofu Framsóknarflokksins. Þó svo að þetta sé talsverð upptalning er bara búið að birta agnar ögn af þeim nöfnum sem eiga að vera á þessum lista.
Er Björk næsta fórnarlambið?
Svo eru það þeir sem hafa verið nefndir og ekki nefndir. Hún Björk okkar á að vera ríkasta kona landsins með milljarða í skattaskjóli. Konan sem hefur verið sómi þjóðarinnar erlendis og lagt sig fram um að tala rödd náttúrunnar. Á að gera hana brottræka líka? Maður spyr bara hvar og hvenær á þetta hatursfulla uppgjör að enda?
Í pistli sem birtist á vef Hringbrautar segir: Fullyrt er að Björk Guðmundsdóttir eigi sjóði á Tortóla. Ótrúlegar tölur hafa verið nefndar um þann fjölda milljarða sem hún er sögð geyma í skattaskjólinu. Björk mun vera miklu sterkari á Tortóla en nokkur íslenskur útrásarvíkingur eða sægreifi. Innan skamms mun íslenskur fjölmiðill upplýsa um auðæfi söngkonunnar á Tortóla. Þar munu vera á ferðinni tölur sem gera þekktustu útrásarvíkinga og kvótakónga okkar smáa í sniðum. Björk Guðmundsdóttir er frægasti Íslendingurinn um þessar mundir og jafnvel einnig sá ríkasti. Uppljóstranir um Tortólaeignir hennar gætu átt eftir að vekja heimsathygli.
Allir útgerðarmenn landsins eiga að vera í þessum hópi. Byggingarmeistarar, bankafólk og venjulegt fólk sem varð kannski fyrir því óláni að erfa gamlan frænda og leita ráðgjafar hjá sama bankafólkinu um hvernig væri best að geyma þá fjármuni sem því áskotnuðust, í mörgum tilvikum ómeðvitað um ruglið sem fólst í ráðgjöfinni.
Sá yðar sem syndlaus er
Þjóðin er með eindæmum þrasgjörn og púkum tekst snilldar vel þessa dagana að draga fram systurnar öfund og illkvittni í ótrúlegasta fólki. En hvað má og hvað má ekki? Við lærðum í æsku í skemmtilegum texta Sveinbjarnar Baldvinssonar að það má ekki pissa bak við hurð. Við erum svona nokkurn vegin með það á hreinu. En þegar því sleppir þá er hver og einn með sína eigin útgáfu af því hvað er siðlegt og hvað ekki.
Fóru einhverjir sem eiga fé í aflandsfélögum á svig við lögin? Það liggur í augum uppi og í sumum tilvikum svo að um munaði. Er þá ekki sjálfsagt að fordæma breytni slíks fólks? Vissulega þurfa þeir sem brotlegir eru við lög að axla ábyrgð gerða sinna en það er munur á lagalegri refsingu og aftökum dómstóls götunnar. Ef við lítum í eigin barm, kemur í ljós að flest höfum við farið á einhvern hátt á svig við lög og reglur. Ég á til dæmis vin sem hefur barið tunnur og búsáhöld niðri á Austurvelli af fítonskrafti og úthrópað ráðamenn þjóðarinnar í miklum umvöndunartón. Honum hefur hins vegar láðst að taka fram að sjálfur er hann nánast hættur að taka að sér verkefni nema fá greitt svart fyrir vinnuna. Upp í hugann kemur setning úr fermingarfræðslunni fyrir margt löngu: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.
Allar upplýsingar upp á borðið
Við þurfum að ná sátt um hvaða leikreglur eiga hér að gilda og hvernig á að leiða mál sem þessi til lykta. Við þurfum að ná umræðunni upp úr pólitískum skotgröfum og við þurfum að bjóða þeim sem hafa skotið fé undan skatti takmarkaðan tíma til þess að koma með þetta fé til baka. Við þurfum yfirvegun og skynsemi en ekki upphrópanir og sleggjudóma. Nú þegar hafa þrír aðilar hrökklast úr starfi vegna Panamaskjalanna. Forsætisráðherra, gjaldkeri stjórnmálaflokks og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessir aðilar hafi gerst sekir um fjármálalegt misferli eða stórkostlega vanrækslu í starfi. Dómgreindarbrestur þeirra hefur hins vegar valdið þeim álitshnekki og vandamönnum sárum leiðindum.
Tryggja þarf að upplýsingar úr svonefndum Panamaskjölum komi allar fram strax. Það er ekki gott að upplýsingarnar séu í höndum handvaldra fjölmiðla sem velja hvern skal taka niður og sverta með tengingum sem jafnvel koma málinu ekkert við. Smjatta á óförum annarra mánuðum saman. Opinber birting á vef þar sem allir geta skoðað upplýsingarnar er eina leiðin til þess að tryggja að ekki sé verið að nota þessar upplýsingar í pólitískum tilgangi. Það er líka nauðsynlegt úrræði til þess að þjóðin þurfi ekki að lifa á þriðja ár við heift og vandlætingu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. apríl 2016
Heiðarleg umræða um umhverfismál
Öll mannanna verk krefjast einhverra umhverfislegra fórna. Það á jafnt við um þau svæði sem við kjósum að byggja sjálf, nærumhverfið okkar og svo einnig fjærumhverfið sem í sinni víðustu merkingu er veröldin öll.
Mér hefur verið þetta nokkuð hugleikið eftir að ég gerði mér ferð á opin kynningarfund Umhverfisstofnunar þar sem verið var að kynna niðurstöður eftirlits og umhverfisvöktunar á Grundartanga.
Halla Einarsdóttir frá Umhverfisstofnun kynnti niðurstöður eftirlits og mælinga á losun iðjuveranna sem þarna starfa. Það kom verulega á óvart hversu umfangsmiklar þessar athuganir eru. Óháðir aðilar á borð við Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Nýsköpunarmiðstöð og Eflu verkfræðistofu fylgjast með 54 mismunandi mæliþáttum á landi, í sjó og í andrúmsloftinu. Niðurstöðurnar sýndu að umhverfisáhrif þessarar starfsemi er vel innan þeirra marka sem sett eru í starfsleyfum hjá fyrirtækjunum Elkem, Norðuráli og Kratus. Fyrirtækið GMR endurvinnslan þarf hinsvegar að gera betur. GMR er enn smátt í sniðum og vigtar því lítið í heildinni. Það leysir það þó ekki undan skyldum sínum.
Fyrir alla sem unna landinu sínu eru þetta góð tíðindi í heildina tekið. Það er líka til fyrirmyndar hversu vel er fylgst með þessum fyrirtækjum og ánægjulegt að sjá hversu mikinn metnað þau flest leggja í það að ganga eins vel um og kostur er. Allri starfsemi fylgir einhver umhverfisleg fórn og það á að vera krafa okkar samfélags að lágmarka þann fórnarkostnað eins og mögulegt er.
Á Austurlandi þar sem uppbygging Fjarðaáls á árunum 2003 til 2007 kom inn í hnignandi samfélag eins og hlýr vorvindur eftir langan kaldan vetur, þekkja íbúarnir vel á eigin skinni bæði þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem uppbyggingin hafði í för með sér og einnig þær fórnir sem þetta hafði í för með sér. Díana Mjöll Sveinsdóttir framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Tanna er bæði að þjónusta iðjuverið og selja upplifun í íslenskri náttúru. Hvernig upplifir hún þetta?
Heiðarlegt og ærlegt svar. Umræðan þarf á því að halda að vera heiðarleg, opin og einlæg í allar áttir eins og hugleiðingar Díönu. Alltof mikil orka fer í að tala niður ákveðnar greinar í stað þess að skoða þessi mál heildstætt.
Það er staðreynd sem ekki á að vera neitt feimnismál að stóriðjan á Íslandi losar talsvert magn af gróðurhúsalofttegundum. Þessari starfsemi fylgjumst við vel með samanber kynningu Umhverfisstofnunar. Önnur staðreynd er að losun á gróðurhúsalofttegundum er miklu meiri af völdum framræsts votlendis. Enn önnur staðreynd er að losun gróðurhúsalofttegundum frá ferðamannaiðnaðnum er mun meiri en fólk gerir sér grein fyrir.
Flugvélar eru orkufrekustu farartækin okkar og jafnframt þau sem menga mest. Flugið mengar t.d. margfalt á við stóriðjuna hér á landi en fæstir gera sér grein fyrir því. Ástæðan, umræðan hefur ekki verið heiðarleg og heildstæð. Árið 2014, er heildarmagn CO2 sem flugið til Íslands losar um 8,5 milljónir tonna. Er þá reiknað út frá fjölda farþega um Leifsstöð. Við þetta bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri. Því er ljóst að ferðaiðnaðurinn losar margfalt meiri koltvísýring en aðrar greinar hér á landi og er þá ótalin sú losun sem tengist bílaleigubílum ferðamanna.
Sama ár 2014 má gera ráð fyrir að stóriðjan hafi losað samtals 1,8 milljónir tonna af CO2 út í andrúmsloftið. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna, en í þessari tölu er reyndar undanskilin stórfelld CO2 losun vegna framræsts votlendis eins og kemur fram hér að framan.
Við þurfum að taka þessa umræðu á yfirveguðum og heiðarlegum nótum líkt og Díana gerði hér að ofan. Upphrópanir og hræðsluáróður gagnvart einni atvinnugrein, líkt og rekinn hefur verið hér á landi árum saman, skilar okkur engu. Ýmis samtök, sem kenna sig við verndun lands, verða að hafa þann þroska að geta rætt málin á breiðum grunni og heildstætt. Ekki taka einn atvinnuveg úr fyrir sviga. Pólitískar upphrópanir hafa allt of lengi fengið að grassera í umræðunni um fórnarkostnað okkar af atvinnulífinu. Heiðarleiki, opin og gegnsæ umræða verður að eiga sér stað. Öllum er auðvelt að nálgast upplýsingar í gegnum netið. Ég hvet hvert og eitt ykkar til að kynna sér málin sjálf. Ekki til þess að stunda upphrópanir. Heldur til þess að geta tekið þátt í heiðarlegri og gagnsærri umræðu.
Ég ætla að enda þessar hugleiðingar á því að gefa Smára Geirssyni orðið. Smári, sem segir stoltur frá því að hann sé kommúnisti, stóð frammi fyrir þeim óvægna veruleika að samfélagið hans fyrir austan var að gliðna í takti við fækkun starfa í sjávarútvegi. Hann var ötull talsmaður þess að byggð yrði stóriðja í Reyðafirði til þess að sporna við vaxandi atgervisflótta af svæðinu. Fáir einstaklingar hafa þurft að velta fyrir sér þeim fórnum sem uppbygging stóriðjunnar hafði með eins afgerandi hætti og hann. Þar tókust á hugsjónir og kaldur veruleikinn. Við skulum loka þessum pistli með því að heyra hvernig hann upplifir þá fórn sem þurfti að færa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. apríl 2016
Pólitísk fyrirsát?
Ég hef fylgst með darraðardansinum í kringum Sigmund Davíð síðustu daga, sérstaklega eftir Kastljósþátt gærkvöldsins. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð aðra eins aðför að íslenskum stjórnmálamanni. Vissulega var forsætisráðherra klaufskur í svörum við þeim spurningum sem komu flatt upp á hann en sá klaufaskapur jafngildir því ekki að hann hafi brotið af sér í starfi. Allur þessi spuni og hvernig hann er til komin vekur upp spurningar um hlutverk og starfsemi fjölmiðla og sérstaklega þátt RÚV í þessu máli. Framsetningin í þessum Kastljósþætti var um margt nokkuð sérstök og var greinilega ætlað að vekja sem mesta tortryggni. Magnþrungin tónlist og hálfkveðnar vísur. Pólitísk fyrirsát er hugtak sem kemur upp í hugann. Kastljós fólk heldur svo áfram að nota sömu pólitísku álitgjafa og áður. Prófessor Vilhjálm Árnason, sem kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum siðferðilega óverjandi og Indriða H. Þorláksson, hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Kastljós fólk virðist hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru afhentir hrægammasjóðunum. En Indriði er aðeins kynntur sem fyrrverandi ríkisskattstjóri þegar hann mætir í Kastljós Ríkisútvarpsins til viðtals. Með þessu vali á viðmælendum bregst RÚV þeirri skyldu sinni í að gæta sanngirni í framsetningu og efnistökum.
En hvað með efnistökin? Í ljós hefur komið síðustu daga og var síðan staðfest í umræddum Kastljósþætti að líkast til er ekkert ólöglegt hér í gangi. Þetta má merkja á þeim gögnum sem lekið hefur verið. Nema ef vera skyldi sú staðreynd að þarna eru blaðamenn að sýsla með upplýsingar sem verndaðar eru samkvæmt lögum um persónuvernd og þeir eiga ekki að hafa undir höndum. Þá hlaupa menn upp og fara að tala um að þessi gögn sýni að fólkið á þessum lista hafi sýnt af sér siðferðilega misbresti. Ekki er til neinn einn opinber mælikvarði á siðferði. Einstaka hópar og starfsstéttir setja sér siðareglur ef sérstök ástæða þykir til. Það að bregða fyrir sig uppdiktuðum mælikvarða um siðferði til þess að úthrópa fólk er eins og að ráðast á fólk fyrir smekkleysi. Eina siðferðislega spurningin sem ég sé í þessu máli miðað við fyrirliggjandi upplýsingar lýtur að því að eiga ráðstöfunarfé erlendis sem hægt er að nota til fjárfestinga og ávöxtunar í erlendum gjaldmiðlum á meðan að íslenskur almenningur situr ekki við sama borð. Sú spurning var ekki borin fram í Kastljósþætti gærkvöldsins.
Blaðamenn eiga að sjálfsögðu að birta nöfn allra þeirra sem taldir eru hafa brotið lög. En uppdiktaðir siðferðislegir mælikvarðar réttlæta ekki framkomu eins og þá sem boðið var upp á í Kastljósi í gær. Skiptir þá engu þótt ráðherrann hafi komið einstaklega klaufalega fyrir í viðtali því sem sænska sjónvarpið tók við hann. Enda augljóst að hann var fenginn til viðtalsins á allt öðrum forsendum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. mars 2016
Orka til framtíðar
Í þessari grein sem er lokagreinin í þessum flokki um orkustefnu landsins skyggnumst við aðeins til framtíðar í orkumálum þjóðarinnar.
Þróun
Orkuverð í Evrópu hefur lækkað mjög á liðnu ári eftir töluverða bólu, en fyrir fáum árum var verðið mjög hátt og því spáð að það mundi bara hækka. Segja má að mesta bólan hafi verið í spánum og ástæðan fyrir þeim hafi að stórum hluta verið óttinn við gróðurhúsaáhrif og sókn eftir kolefnalausum orkugjöfum.
Eftir loftslagsráðstefnuna í París í desember, virðist sem Bretar hafi breytt um stefnu í raforkumálum og stefni nú á fjöldaframleiðslu umhverfisvænna kjarnaofna líkt og Bandaríkjamenn og Kanadabúar. Telja má víst að með þessu móti sé hægt að lækka verulega kostnað við raforkuvinnslu úr kjarnorku. Takist þessi tilraun, mun hækkun orkuverðs stöðvast við einhver mörk í stað sífelldrar hækkunar eins og áður var rætt um. Aðrar þjóðir munu þá taka upp þessa tækni. Stefnubreyting Breta sýnir einnig vel þá pólitísku áhættu sem felst í útflutningi þangað á rafmagni í stórum stíl. Bæði Bretar og önnur Evrópuríki breyta stefnum og reglugerðum, sem hafa áhrif á markaðsverð rafmagns, eftir því sem hagsmunir þessara ríkja gefa tilefni til.
Ekki er ljóst hvort ný gerð umhverfisvænna kjarnorkuvera verður, þegar upp er staðið, nýr grundvöllur raforkuframleiðslu í heiminum, eða hvort hún verður biðleikur meðan verið er að þróa nýtingu á köldum samruna. Það má nefnilega telja mjög líklegt, að tilvist og nýtingarmöguleikar þeirrar ótrúlegu orkuuppsprettu hafi loks verið staðfestir. Fari þar allt að vonum er hér um að ræða ótæmandi orkulind sem býður upp á hagkvæmni sem er sambærileg við íslensk jarðgufuorkuver. Stærð og hreyfanleiki þessara nýju orkukosta er þannig að staðsetning þeirra er því sem næst frjáls. Það þýðir að orkuver í hentugri stærð getur verið við hlið þess sem orkuna nýtir og því hverfur þörf fyrir háspennuraflínur til flutnings. Sem stendur er þessi valkostur þó aðeins hluti af af þeim spennandi möguleikum sem ætlað er að uppfylla orkuþörf mannkyns til framtíðar.
Stefna
Efnahagslegar framfarir eru hér svipaðar og hjá öðrum sambærilegum þjóðum, þótt oft hafi gefið á bátinn en fleytt kerlingar á stundum. Menntun og lífskjör eru hér góð. Við þurfum eins og aðrar þjóðir Norður-Evrópu að taka við fólki frá láglaunasvæðum, sem stundar hér láglaunastörf, en við viljum, að afkomendur þess fólks sem ílengist hér, njóti sömu tækifæra og aðrir Íslendingar. Ekki er örgrannt um, að stundum hafi hlutfallið milli útstreymis menntaðs vinnuafls og innstreymis ómenntaðs verið þjóðinni óhagstætt. Þetta gerðist til dæmis árin eftir hrunið 2008.
Iðnaður, sem byggist á nýtingu hagkvæmrar raforkuframleiðslu, hvort sem er stóriðja eða smáiðnaður, býður almennt upp á fjölbreytt hálaunastörf í ríkara mæli en aðrar greinar. Það má sjá m.a. á víðtækum útflutningi á þekkingu varðandi bæði virkjun orkuauðlinda og bætta verkferla við stóriðjustörf. Segja má, að vel hafi tekist með uppbyggingu þekkingar og sköpun fjölbreyttra hálaunastarfa í kringum stóriðju, en sá afleiddi úrvinnsluiðnaður, sem vonast var eftir og nýta átti afurðir stóriðjunnar, hefur látið á sér standa.
Hvort tveggja er, að stóriðjan hér er ekki mjög fjölbreytt og fjarlægð frá mörkuðum fyrir iðnvarning er mikil. Óhagræðið af fjarlægðinni má ef til vill vinna upp að nokkru með hagkvæmu raforkuverði. Hér þyrfti markvisst að leita tækifæri til slíks iðnaðar, sérstaklega iðnaðar sem nýtir ekki aðeins raforku, heldur og ekki síður lághitajarðvarma. Ef til vill má, ef vandlega er leitað, finna tækifæri í ylrækt með lýsingu, lífefnaiðnaði og fleiri greinum. Hið upprunalega hlutverk Landsvirkjunar við stofnun var einmitt að stuðla að slíkum vexti og grósku með lágu orkuverði á almennum markaði, sem þó þurfti að bera í sér hvata til áframhaldandi virkjunar orkuauðlindarinnar.
Með framangreint í huga virðist skynsamlegt að forðast stórtæka uppbyggingu margra stórra iðjuvera á mjög skömmum tíma. Þó að hröð uppbygging stóriðju geti hjálpað þjóðinni upp úr öldudal síðustu kreppu, ber að hafa í huga að mjög ör uppbygging krefst meiri fjármunamyndunar og því hærra orkuverðs en hæg.
Þörf á nýrri vegferð
Raforkusæstreng til Bretlands, undir þeim formerkjum sem hann er boðaður, virðist þarna ofaukið. Hann hefði lítinn eða engan ávinning í för með sér nema fyrir sjóðsstreymi Landsvirkjunar. Áhrif til atvinnuppbyggingar í þágu þjóðarinnar yrðu engin. Það er stórt umhugsunarefni þegar um er að ræða takmarkaðar orkuauðlindir Íslendinga.
Í þessu sambandi er líka vert að minnast á kerfisáættu Landsnets sem virðist ætla að fara í 100 milljarða framkvæmd með háspennulínu yfir Sprengisand án þess að meta hvaða áhrif framkvæmdin hafi á gjaldskrá. Eða hvaða áhrif það muni hafa á fyrirtækið ef þeir nýju orkukostir sem nefndir eru hér að ofan verða ofaná. Hvaða hagsmunum þjónar slík framkvæmd? Er eingöngu verið að búa í haginn fyrir raforkusæstreng til Bretlands? Er ekki þörf á að stjórnvöld taki af skarið?
Einsýnt er að íslensk stjórnvöld verði að ráðast í að móta langtíma heildarstefnu í orkumálum landsins og taka upp raforkulögin frá árinu 2003 til gagngerrar endurskoðunar. En það er ekki nóg að móta stefnu um hvar á að virkja eða vernda. Í fyrsta lagi þarf starfsemi Landsvirkjunar sem ríkisfyrirtækis að stuðla að jafnvægi í íslensku efahagslífi en ekki að raska því. Í öðru lagi þarf að koma í veg fyrir að einn stór aðili geti misnotað markaðsráðandi stöðu sína á kostnað viðskiptavina. Í þriðja lagi þarf að tryggja að flutningsverð raforku hér á landi sé samkeppnishæft við nágrannalöndin, en það er margfalt hærra hér en í Noregi.
Samkeppinsmarkaður með orku á Íslandi er óvirkur. Þess vegna hrærist Landsvirkjun í tveimur kerfum samtímis: Markaðskerfi samkvæmt lagabókstaf og kerfi fákeppni sem er hin raunverulega staða á íslenskum raforkumarkaði. Þó að Landsvirkjun keppi að orði kveðnu á samkeppnismarkaði, eru dæmi um að fyrirtækið hafi á síðustu árum hækkað verð til ýmissa iðnfyrirtækja umtalvert í krafti yfirburðastöðu sinnar með neikvæðum afleiðingum á efnahag og umhverfi. Þar má nefna dæmi um fiskimjölsverksmiðjur sem vegna mikilla hækkana á raforku hafa ákveðið að nota frekar innflutta olíu fyrir verksmiðjur sínar en íslenskt rafmagn. Vissulega gott fyrir sjóðsstreymi Landsvirkjunar (þar til skipt er yfir í olíu) en ekki jafngott fyrir iðnaðinn sem fjárfesti í tækni til að nýta þessa auðlind landsmanna á forsendum sem ekki hafa staðist.
Í ljósi þess að hér ríkir ekki samkeppnismarkaður, er æskilegt að skýrt sé, eins og áður var, að Landsvirkjun sé óheimilt að gera samninga sem leitt geti til hækkunar á verði til dreifiveitna umfram verðlag. Meðan markaðskerfið virkar ekki og fákeppnisástand er á markaði verður stefnan og regluverkið að halda fyrirtækjunum í skefjum. Mikilvægt er einnig að að skýra hlutverk Landsvirkjunar sem framleiðanda til þrautavara svo tilbúin skortstaða leiði ekki til verðhækkana.
Í þetta verkefni þarf stjórnmálaleiðtoga með dug og framsýni, leiðtoga sem skynja að setja þarf heildstæða langtímastefnu í raforkumálum landsins. Stefnu sem ýtir undir frumkvæði og athafnasemi fólks, stefnu sem styður fjölbreitt, blómlegt og frjótt atvinnulíf, stefnu sem eykur samkeppnisfærni allra undirstöðugreina íslensks atvinnulífs, stefnu okkar sem tekur mið af aðstæðum hér, en ekki hvað kemur ríkjum Evrópu best, líkt og regluverk okkar gerir í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 9. mars 2016
Jarðvegurinn frjór fyrir austan
Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hvaða áhrif uppbygging Fjarðaráls og Kárahnjúkavirkjunar á Austurlandi hafði fyrir byggðina á svæðinu. Fyrir uppbygginguna, sem hófst árið 2003, hafði í nokkurn tíma byggðaþróun verið neikvæð á þessu svæði. Atvinnulíf var einhæft. Nánast allt snerist um sjávarútveg og fyrirsjáanleg var tæknibylting og hagræðingarskeið við áframhaldandi uppbyggingu á öllu sem laut að útgerð og fiskvinnslu á svæðinu, með enn frekari fækkun starfa í þessum byggðum sem nú mynda Fjarðarbyggð. Útlitið var því frekar dökkt þegar loksins náðust samningar um uppbyggingu Alcoa Fjarðaráls og byggingu Kárahnjúkavirkjunar.
Það var farsælt skref þegar sú stefna var tekin við uppbyggingu Alcoa Fjarðaáls að fyrirtækið tæki virkan þátt í að efla sjálfbært samfélag á Austurlandi með ýmsum hætti. Til að mynda miðar útboðsstefna fyrirtækisins að því að gera fyrirtækjum á Austurlandi kleift að byggja sig upp og efla starfsemi sína samfélaginu öllu til hagsbóta. Þannig hafa stjórnendur Fjarðaráls haft skilning á því að eitt helsta hagsmunamál fyrirtækisins og um leið samfélagsins alls er að stuðla að uppbyggingu fjölbreytts atvinnu- og athafnalífs á Austurlandi.
Þessi fjölbreytta atvinnuuppbygging hefur gefið ungu fólki, sem fluttist burt í þeim tilgangi að afla sér menntunar, tækifæri til þess að snúa heim á ný. Auk þess sem innviðir samfélagsins hafa styrkst til muna. Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðarbyggðar fluttist austur rétt í þann mund þegar uppbyggingin fór á flug. Hvernig sér hann þessi áhrif?
Samhliða fjölgun íbúa, auknum umsvifum og samgöngubótum hefur verslun á miðbiki Austurlands orðið fjölbreyttari og samkeppnishæfari, íbúum til hagsbóta enda mikilvægur þáttur í búsetuskilyrðum. Þá hafa margar sérvöruverslanir og þjónustufyrirtæki sett upp útibú í Fjarðabyggð á undanförnum árum. Meðal þeirra áhrifa sem þessi uppbygging hefur haft er að fjölbreytt flóra atvinnutækifæra skapar betur launuð störf, betri grunngerð, aukna þjónustu, ríkara menningar- og félagslíf. Allt er þetta grundvöllur þess að vöxtur samfélagsins geti verið sjálfbær inn í framtíðina.
Jens Garðar Helgason formaður bæjarráðs Fjarðarbyggðar er einn af þeirra sem þekkir vel hvaða áhrif þessi uppbygging hefur haft á samfélagið:
Sterk rök hníga að því að efnahagslegir þættir ráði mestu um búsetuval fólks. Svæðisbundin þjónusta skiptir einnig miklu fyrir búsetuskilyrði og hvort fólk ílengist. Fyrir uppbygginguna á Austurlandi 2003 var í gangi stöðug varnarbarátta til að halda í þá þjónustuþætti sem í boði voru. Samfélaginu hafði hnignað um nokkurn tíma og sjálfsagðir þjónustuþættir voru á undanhaldi. Með uppbyggingunni sköpuðust ný tækifæri á að efla þá þjónustu sem í boði var fyrir jafnt íbúa og fyrirtækin. Jens Garðar þekkir dæmi um þetta:
Orðatiltækið vinnan göfgar manninn hefur lengi staðið okkur Íslendingum nærri. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr má segja að við Íslendingar metum manngildi talsvert á grundvelli vinnu og vinnusemi. Við mótum skoðun okkar á náunganum eftir vinnuframlagi hans. Þetta er áberandi í talmáli okkar og samskiptum. Við spyrjum fólk stöðugt spurninga eins og: Hvað gerir þú? og er ekki nóg að gera hjá þér? Kannski er það hin harðneskjulega náttúra landsins sem hefur innrætt okkur þetta viðhorf. Hvað sem því líður eru dugnaður og vinnusemi inngróin í þjóðarsálina sem hinir mestu mannkostir. Með sterkan grunn eins og nú hefur byggst upp á Austurlandi, skapast skilyrði fyrir öflugri nýsköpun á ýmsum sviðum. Jörðin er frjó, nú er tækifæri fyrir ungt fólk á öllum aldri að fara á flug.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 1. mars 2016
Orkustefna Íslands II
Grein 2 af 3.
Í þessari grein ætla ég aðeins að fara yfir stöðuna í raforkumálum þjóðarinnar eins og hún blasir við mér. Þessi grein er sjálfstætt framhald fyrri greinar.
Nútíð
Ríkjandi lagaumhverfi hér á landi varðandi raforkumarkaðinn og fyrirtæki raforkugeirans er í raun regluverk Evrópusambandsins. Það er samið og sett upp til að leysa allt önnur vandamál en við er að etja hér á landi. Regluverk ESB hvetur til hagkvæmni í nýtingu annars konar auðlinda en við búum að. Við verðum að hlíta þessum reglum í einu og öllu ef raforkusæstrengur verður lagður til Bretlands, þó að tímabundnar undanþágur kunni að fást fyrst í stað. Evrópska markaðnum er líka handstýrt með reglugerðarfargani sem er sífellt í endurskoðun. Þar eigum við takmarkaða eða enga aðkomu og ólíklegt að okkar mikilvægustu mál séu þar efst á blaði.
Í eldri raforkulögum var sérstakt ákvæði sem kvað á um að Landsvirkjun væri óheimilt að gera samninga við raforkukaupendur er gætu valdið hærra verði til almenningsrafveitna. Ekkert slíkt ákvæði er að finna í raforkulögum frá 2003. Þar með er LV heimilt að gera samninga um sölu á rafmagni um sæstreng, þrátt fyrir að ljóst sé vegna evrópskra reglugerða geti slíkur samningur hækkað verulega verð á raforku til almenningsrafveitna.
Spáð í orkuspilin
Stóriðjan í landinu nýtir stærstan hluta af því rafmagni sem við framleiðum. Nýtingarhlutfall hennar er hátt og meðalverð á þeim samningum sem eru í gangi í dag, virðist vera hærra en markaðsverð til sambærilegrar starfsemi bæði í Noregi og Kanada.*
Sem stendur er stefnt að byggingu fjögurra stóriðjufyrirtækja (kísilmálmvera), sem kalla all á 200 til 300 MW með samsvarandi magni virkjana. Einnig er stefnt að lagningu sæstrengs til Skotlands, sem yrði samkvæmt sviðsmynd Landsvirkjunar um 1.000 MW. Virkjanir og vindmyllur, sem jafnframt yrðu byggðar, myndu einungis skila um helmingi þeirrar orku sem strengurinn væri fær um að flytja árlega. Ónýtt svigrúm yrði um 4.000 GWst/ári, sem samsvarar einu álveri. Þar með væri væri mögulegt án verulegrar áhættu að setja stóriðjufyrirtækjunum slíka kosti, að rekstur þeirra yrði óhagkvæmur. Möguleikinn einn gæti verið nægur til að þau hyrfu héðan eftir því sem samningar þeirra rynnu út. Væntanlega yrði leitað eftir nýjum, smærri iðjuverum til að nýta orku þeirra iðjuvera sem væri lokað. Þá skapaðist svigrúm til að loka næsta stóra iðjuveri á sama hátt.
Hinn nýi iðnaður, sem nýta ætti orkuna, yrði að geta greitt orkuverð sem væri samkeppnishæft við markaðinn á hinum enda strengsins. Það yrðu orkuveitur bæjar- og sveitarfélaga líka að gera. Almennt orkuverð hér myndi því hækka. Fyndist ekki iðnaður, sem gæti borgað svo hátt orkuverð, mætti freista þess að leggja fleiri sæstrengi. Þannig væru enn fleiri atvinnutækifæri í orkusæknum iðnaði flutt úr landi.
Vænlegur kostur?
Auðvita var upphaflega hugmyndin um lagningu raforkustæstrengs til Bretlands áhugaverð, jafnvel heillandi. Talsmenn sæstrengs eru líka prýðisgóðir sölumenn. Þeir hafa lengi dregið upp þá mynd að um ofsagróða yrði að ræða af sölu á raforku í gegnum strenginn, en þvert á spár hefur orkuverð í Evrópu fallið um helming á örfáum árum. Markaðsspár Landsvirkjunar árið 2010 gerðu hins vegar ráð fyrir því að orkuverð mundi tvöfaldast. Verðið í dag á mörkuðum í Evrópu er aðeins 25-30% af því sem Landsvirkjun spáði um 2010. Möguleikar okkar Íslendinga á ofsagróða vegna sölu á grænni orku með breskum niðurgreiðslum eru því heldur takmarkaðir. Til þess þyrfti að byggja mikið af nýjum virkjunum á Íslandi og ná samkomulagi við Breta um að þeir gerðu Íslendinga moldríka á kostnað breskra skattgreiðenda. Væri breskur almenningur spenntur fyrir því?
Við óbreyttar markaðsaðstæður er ekki líklegt að sala á raforku um sæstreng reynist vænlegur kostur. Sá fjármála- og félagslegi virðisauki fyrir samfélagið sem felst í því að skapa verðmæt störf og útflutningsverðmæti innanlands á grundvelli þessarar orku hverfur, auk þess sem verð á mörkuðum Evrópu er enn á niðurleið.
Skortstaða?
Vert er að staldra við sviðsmynd Landsvirkjunar af 1.000 MW sæstreng, þar sem flutningsgetan er aðeins nýtt um 50%. Með hliðsjón af lögmáli framboðs og eftirspurnar, kynni einhverjum að detta í hug að það væri ásetningur LV að búa til svokallað skortstöðu (ónægt framboð) á íslenskum raforkumarkaði. Það væri þá gert í þeirri viðleitni að reyna að halda orkuverðinu eins háu og mögulegt er. Skortstaða felur í sér hækkanir á almenning og iðnað sem ekki er með fastbundið orkuverð.
Þessi gjörningur er mögulegur þar sem ekkert ákvæði er í nýjum raforkulögum frá árinu 2003 um að Landsvirkjun skuli vera orkuframleiðandi til þrautavara. Þ.e. vera skylt að tryggja að ávallt sé nægilegt framboð á raforku í landinu. Að kalla fram skortstöðu getur reynst hættuspil. Þegar það gerðist í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum árið 2000, hrundi markaðurinn (talað var um market meltdown) með alvarlegum afleiðingum fyrir alla notendur. Almenn skynsemi segir okkur að slíka framvindu beri að forðast. Stendur það ekki nær raforkuframleiðenda í eigu almennings að sjá til þess að nóg sé af orku inn á flutningskerfinu okkar en að knýja fram verðhækkanir í krafti markaðsráðandi stöðu?
Vaxtarmöguleikar
En missum við ekki einfaldlega af álitlegum vaxtarmöguleikum í nýtingu orkuðalinda þjóðarinnar ef raforkusæstrengur til Bretlands verður ekki að veruleika? Hverra kosta eigum við þá völ? Svarið er að við eigum ýmis tækifæri á fjölbreytilegum framleiðslu- og úrvinnsluiðnaði hér á landi. Þannig eru langtímasamningar við orkusækinn iðnað raunverulegur valkostur í staðinn fyrir lagningu sæstrengs. Við sköpum með því aukin hagvöxt, fleiri störf, minnkum áhættu og aukum hagsæld íbúa hér verulega umfram það sem fæst með raforkusæstreng. Um þessi áhrif eigum við lifandi dæmi af Austfjörðum þar sem uppbygging á orkusæknum iðnaði hefur aukið hagsæld svæðisins, gert búsetu þar raunhæfan kost fyrir ungt og vel menntað fólk og gert fyrirtækjum í fiskvinnslu kleift að auka sjálfvirkni án þess að fækkun starfa bitni harkalega á nærsamfélaginu.
Sú aðgerð að flytja orkuna út í gegnum raforkusæstreng jafnast á við að selja fiskveiðiheimildir þjóðarinnar beint og sleppa því að auka ábatann með veiðum og vinnslu. Áhugaverður kostur í flóru heildarnýtingar íslenskrar orku, segja sumir, en aðrir vilja kalla þetta útflutning á framtíðmöguleikum barna okkar.
Í næstu grein um orkustefnu Íslands munum við skyggnast til framtíðar og ræða aðeins um stefnumörkun stjórnvalda.
*Byggt á opinberum tölum í ársreikning Landsvirkjunar og uppboðsmörkuðum með raforku í nágrannalöndum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. febrúar 2016
Úr vörn í sókn
Atgervisflótti er ekki nýtilfundið hugtak. Það er þekkt staðreynd að þar sem ekki tekst að skapa fólki störf við hæfi, unir það hag sínum illa og afræður að leita nýrra tækifæra á nýjum slóðum. Ungt fólk flyst burt vegna þess að samfélagið megnar ekki að bjóða því atvinnumöguleika þar sem það getur nýtt þekkingu sína og hæfileika. Framtaksleysi í atvinnumálum er því eitt helsta áhyggjuefnið í mörgum byggðarlögum.
Á Austurlandi átti sér stað umtalsverður atgerfisflótti á árunum fyrir 2003. En gjörbreyting varð á málum 15. mars 2003 þegar skrifað var undir virkjunar- og álverssamninga. Þann dag tók Austurland stakkaskiptum, segir Smári Geirsson fyrrverandi framhaldsskólakennari þegar undirritaður spjallaði við hann fyrir skemmstu. Svæðið hafði árum saman búið við fækkun starfa, fólksfækkun, lágt fasteignaverð og samdrátt hjá þjónustufyrirtækjum. Eftir undirritun samninganna breyttist hugarfar fólks fyrir austan bjartsýni, jákvæðni og framkvæmdahugur tóku að hafa áhrif á öllum sviðum mannlífsins til hins betra.
Smári from Vidar Gardarsson on Vimeo.
Fram að þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað í kjölfar samninga um byggingu Fjarðaáls og Kárahnjúka, voru atvinnumöguleikar á Austfjörðum takmarkaðir, ekki síst vegna þess að atvinnulífið var einhæft og byggðakjarnar smáir. Svo smáir að þjónusta sem við á mölinni teljum sjálfsagða og eðlilega átti erfitt uppdráttar. Þjónustustarfsemi sem oft myndar kjarnan í hverju samfélagi s.s. matvöruverslun, menningarstarfsemi, bakarí, pósthús, bifreiðaverkstæðið allt voru þetta einingar sem smátt og smátt höfðu látið á sjá og voru ýmist hættar rekstri eða verulega hafði dregi úr honum. Ungt fólk fór gjarnan suður í nám og ílengdist þar. Færri og færri skiluðu sér til baka eftir að námi lauk. Þessi þróun varð til þess að heilu fjölskyldurnar tóku sig upp og leituðu nýrra tækifæra.
Einn af þeim aðilum sem reynt hafa þessa miklu sveiflur í samfélaginu fyrir austan á eigin skinni er Sigurjón Baldursson, starfsmannastjóri vélsmiðju Hjalta Einarssonar á Reyðarfirði. Hlustum á hvað hann hefur að segja:
Sigurjón from Vidar Gardarsson on Vimeo.
Af orðum Smára og Sigurjóns má ljóst vera að atvinnuuppbygging og tækifæri fyrir vel menntað ungt fólk er grundvöllur þess að byggð haldist í landinu. Efla þarf sérstaklega frumkvæði og framtak á landsbyggðinni. Í því felst að auka þarf menntun og rannsóknir og styrkja enn frekar tengsl menntunar og atvinnulífs. Lykillinn að sterkri landsbyggð byggist á því að gera heimahagana fýsilega til framtíðarbúsetu og draga þannig úr straumi fólks til höfuðborgarsvæðisins eða snúa honum jafnvel við. Straumi, sem verður til, vegna öflugrar miðlægrar þjónustu sem þar hefur verið byggð upp.
Hér þarf að hugsa með nýjum hætti. Samþjöppun þjónustu á öllum sviðum á suðvestur-horninu er landsbyggðinni þungt viðmið. Það verða að byggjast upp tækifæri til athafna, vaxtar og fullnægjandi samfélagslegrar þjónustu í öllum landshlutum. Ef vel tekst til, mun stór hluti þess unga fólks sem fór að leita sér menntunar á mölinni eða freista gæfunnar erlendis erlendis, snúa aftur heim í sitt hérað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. febrúar 2016
Orkustefna Íslands
Í næstu greinum hér á mbl.is ætla ég að reyna að varpa skýrara ljósi á þróun síðustu 50 ára á íslenskum raforkumarkaði. Draga fram mynd af því hvernig við sem þjóð fórum að því að nýta orkuauðlindir okkar þjóðinni allri til hagsbóta. Einnig ætla ég að reyna að skyggnast örlítið fram á veg.
Árdagar rafvæðingar
Á fyrstu dögum raflýsingar í Reykjavík urðu áhyggjur af orkuverði revíuhöfundum efni í eftirfarandi söngtexta. Þetta var í fyrstu íslensku revíunni sem sýnd var í Reykjavík í leikhúsi Breiðfjörðs, 6. janúar 1895:
Við Arnarhól er höfuðból
þar er hálært bæjarþing
sem vantar eitt og vantar eitt,
það vantar alltaf, viti menn,
og vill fá - upplýsing.
Og þessi spurning kemst í kring;
Hvað kostar raflýsing?
Strax þarna við upphaf rafmagnsnotkunar til lýsingar voru menn að velta fyrir sér verðinu á rafmagni. Í dag, ríflega 100 árum síðar, eru menn enn að velta fyrir sér verði á rafmagni enda eru nútíma lifnaðarhættir algerlega háðir raforku. Því skiptir verðlagning á þessari nauðsynjavöru verulegu máli varðandi afkomu hvers heimilis og fyrirtækis.
Stofnun Landsvirkjunar
Hinn 1. júlí árið 1965 var Landsvirkjun stofnuð fyrir atbeina ríkisstjórnar Íslands. Kveikjan að stofnuninn var áhugi þáverandi ráðmanna á því að nýta betur orkuauðlindir landsins til atvinnusköpunar og aukinna lífsgæða fólksins í landinu. Hugmyndin var að draga að erlenda fjárfesta í orkufrekan iðnað í þeim tilgangi að fjármagna uppbyggingu virkjanna sem myndu skapa nýja atvinnukosti og tryggja orkuöryggi landsins.
Landsvirkjun var því stofnuð í þeim tilgangi að byggja og reka raforkuver sem gætu selt raforku til stóriðju og séð almennum markaði fyrir nægri raforku á hagkvæmu verði. Alþjóðabankinn var tilbúin til að fjármagna uppbyggingu Búrfellsvirkjunar með því skilyrði að ríkisstjórnin gerði langtíma samninga um sölu á verulegum hluta orkunnar. Á þessum tíma hafði þjóðin enga möguleika á því að fjármagna stór verkefni eins og byggingu Búrfellsvirkjunar með öðrum hætti.
Uppbygging orkusækins iðnaðar
Samningar um byggingu álvers á Íslandi í þessum tilgangi voru undirritaðir árið 1966, en þá höfðu viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands (Viðreisnarstjórnarinnar) staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust við Búrfell og í Straumsvík.
Þessi uppbygging hélt áfram í nokkrum stökkum á komandi áratugum, þannig að reistar voru stórar virkjanir, stærri en 150 MW. Stóriðjan var byggð upp samhliða þessum virkjunum í þeim tilgangi að standa undir fjárfestingunni um leið og almenningi var séð fyrir nægu rafmagni á hagstæðu verði. Mest var byggt af álverum, því þau reyndust geta greitt hæsta orkuverðið á þessum tíma. Þessari miklu uppbyggingu er nú að stórum hluta til lokið með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls. Til byggingar þeirra mannvirkja sem hér um ræðir voru fluttar inn stórvirkar vinnuvélar, sem ekki fóru úr landi aftur og voru nýttar til annarrar mannvirkjagerðar, eins og vegagerðar, þannig að verk unnust hraðar og ódýrar en áður þekktist. Íslenskir verkfræðingar, tæknifræðingar og iðnaðarmenn öðluðust mikla þjálfun við þessar framkvæmdir og nú er svo komið að þeir flytja út þekkingu sína á þessum sviðum í stórum stíl.
Þessar fyrstu framkvæmdir, ásamt síðari tíma virkjunum samhliða uppbyggingu stóriðjunnar, skiptu sköpum fyrir jákvæða uppbyggingu íslensks samfélags. Samfélagið nýtur enn verulegs félags- og fjárhagslegs ábata sökum þess að fé frá stóriðjunni var látið greiða niður fjárfestinguna í raforkukerfinu, en almennir notendur nutu lægra orkuverðs en almennt gerðist í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Vafasöm breyting á raforkulögum
Það vekur sérstaka athygli mína að í upphaflega lagafrumvarpinu um Landsvirkjun sem samþykkt var á 85. löggjafarþinginu 1964-1965 var sérstaklega tekið á því að Landsvirkjun væri óheimilt að gera samninga við raforkukaupendur sem gætu valdið hærra verði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið. Illu heilli er ekki að finna sambærilegt ákvæði í nýjum raforkulögum sem sett voru árið 2003.
Áhyggjur af orkuverði og orkuframboði voru á þessum tíma ekki nýjar af nálinni. Þjóðin upplifði reglulega skort og skammtanir á rafmagni. Því kemur ekki á óvart að megintilgangur þess að stofna til Landsvirkjunar var sá að skapa skilyrði til aflmikilla virkjana í stórám landsins, tryggja með því í senn næga raforku í landinu og lágan vinnslukostnað orkunnar. Því aflmeiri sem virkjunin er, því lægra er að jafnaði vinnsluverðið. Á hinn bógin þurfa aflmiklar virkjanir tilsvarandi stærri markað fyrir orkuna til þess að standa undir fjárfestingunni. Því má segja að samþætting á uppbyggingu Landsvirkjunar og stóriðjunnar, auk þeirrar stefnu sem stjórnmálamenn þess tíma mörkuðu, hafi bæði tryggt næga orku fyrir mikinn og hraðan vöxt þjóðfélagsins og lágt verð til neytenda.
Í næstu grein skoðum við aðeins á stöðuna í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. febrúar 2016
Raforkuverð í Noregi og á Íslandi
Það er athyglisvert nú í upphafi ársins að skoða upplýsingar um verð á raforku í nágrannalöndum okkar. Á Nordpool markaðnum fer fram sala á raforku til dreifingaraðila og stórnotenda á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.
Meðalverð á raforku á Nordpool markaðnum á árinu 2015 var tæplega 21 Evra á megawattstund. Það jafngildir um 23 bandaríkjadölum á hverja megawattsstund ($/MWst). Norðmenn nota Nordpool markaðinn mikið fyrir sín viðskipti með raforku. Verðið í Noregi er reyndar yfirleitt örlítið lægra en meðalverðið á markaðnum. Því til viðbótar fá stórir notendur, t.d. álver og kísilver sérstakan afslátt af sínu rafmagni sem nemur 4-5 dölum á MWst. Heildar raforkukostnaður álvera og kísilvera í Noregi, sem kaupa orku skv. Nordpool var því 18-19 $/MWst á síðasta ári.
Það er áhugavert að bera þetta saman við íslenska markaðinn. Skv. Landsvirkjun var meðalverð raforku til iðnaðar um 26 dalir árið 2014. Ef tekið er tillit til lækkana sem verið hafa á heimsmarkaði með ál á árinu 2015 má gera ráð fyrir því að meðalverð Landsvirkjunar fyrir árið 2015 hafi verið 24 - 25 $/MWst á síðasta ári
Samkvæmt þessu var meðalverð á raforku til iðnaðar 25-40% hærra á Íslandi en í Noregi á síðasta ári.
Bloggar | Breytt 10.2.2016 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. janúar 2016
Sæstrengur mun hækka orkuverð til heimila
Markmið raforkulaga frá árinu 2003 var að leggja lagalegan grunn að því að í framtíðinni gæti skapast samkeppnismarkaður með raforku á Íslandi. Margir þeirra sem starfa á þessum markaði telja að lögin sjálf geri markaðinn að samkeppnismarkaði. Því fer þó fjarri að sú sé raunin hér á landi. Hér ríkir dæmigerður fákeppnismarkaður með raforku. Skilgreining á fákeppni er sú staða þegar seljendur eru fáir og keppa ekki af hörku, oft vegna sameiginlegra hagsmuna um að halda verði háu. Á íslenskum raforkumarkaði hefur einn framleiðandi algera yfirburðastöðu og er markaðsráðandi á fákeppnismarkaði, samkvæmt skilningi samkeppnislaga.
Orkuviðskipti á frjálsum markaði
Á frjálsum samkeppnismarkaði með raforku gera menn samninga um tiltekin viðskipti fram í tímann. Þessir samningar eru nokkuð staðlaðir og kveða á um þann tíma sem afhending skal fara fram á og það afl (MW) sem nota skal. Utan um þessa samninga halda síðan markaðsfyrirtæki sem eru að mörgu leyti áþekk kauphöllum með hluta- og skuldabréf.
Dæmi um slíkt markaðsfyrirtæki er Nordpool þar sem raforka frá hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum er boðin fram. Nordpool heldur utan um tilboð sem send eru inn, þeim svo tekið eða hafnað, og fastir samningar skráðir. Þessi markaðsfyrirtæki senda síðan upplýsingar til kerfisstjóra sem skipuleggur hver mikla orku seljendur setja inn á kerfið.
Ef samningar komast á, fær seljandinn staðfestingu á því að hann megi á tilteknum tíma setja tiltekið magn af orku inn á netið og kaupandinn fær bréf upp á að mega taka tiltekna orku út af netinu á sama tíma. Þessi bréf geta síðan gengið kaupum og sölum. Það sem ræður mestu með verð á raforkunni á þessum markaði er eftirspurnin.
Tenginet Evrópu
Tenginet Evrópu samanstendur af línum og sæstrengjum sem tengja lönd Evrópu saman. Eitt helsta markmið Evrópusambandsins með sameinuðu Tengineti Evrópu er að jafna raforkuverð álfunnar. Einangruð svæði, þar sem orkuverð er hátt vegna takmarkaðs framboðs, má tengja við markaðinn með tengilínu. Þá lækkar orkuverð svæðisins og aðstaða samfélagsins þar jafnast á við önnur svæði. Markmiðið með þessum tengingum er þannig ekki síst samfélagslegs eðlis. Markaðskerfið sem stýrir verðlagningu og flutningsgjöldum hefur sama samfélagslega hlutverk.
Tenginet Evrópu, og þar með taldir raforkusæstrengir (mögulegur sæstrengur til Bretlands frá Íslandi myndi falla hér undir), er því í raun jöfnunartæki sem ætlað er að jafna raforkuverð í Evrópu allri. Þannig er markmið kerfisins að hækka orkuverð þar sem það er lágt en lækka það á þeim svæðum þar sem það er hærra. Því er óhjákvæmilegt að ef af áformum um raforkusæstreng frá Íslandi til Bretlands verður, munu jöfnunaráhrif þessarar framkvæmdar verða þau að raforkuverð á Íslandi hækkar umtalsvert á sama tíma og samfélagsábatinn hér minnkar. Hinsvegar mun raforkuverð á Bretlandseyjum lækka og samfélagsábatinn þar aukast.
Íslenski raforkumarkaðurinn er hluti af sameiginlegum markaði Evrópu. Það er ástæðan fyrir því að sett voru ný raforkulög árið 2003. Það er einnig ástæðan fyrir sölu íslenskra raforkufyrirtækja á grænum skírteinum (aflátsbréfum) til Evrópu. Stjórnarnefnd Evrópusambandsins setur reglur þessa markaðar og við erum skuldbundin til að fylgja þeim. Samkvæmt þessum reglum er mögulegt að fá tímabundnar undanþágur frá reglum um viðskipti í gegnum nýjar tengilínur. Ekki er vitað um hverskonar undanþágur er að ræða né hve lengi þær gilda.
Ávinningurinn tekinn af íslenskum heimilum
Lagaumhverfið, sem við erum hluti af, gerir því ráð fyrir að ávinningur íslensku þjóðarinnar af uppbyggingu raforkukerfisins (þjóðin hefur notið lágs orkuverðs frá byggingu Búrfellsvirkjunar) verði tekinn af heimilum landsins og hann færður Bretum með þeim verðjöfnunarreglum sem á svæðinu gilda. Landfræðileg lega landsins og einangrun hefur verndað okkur fyrir þessum áhrifum hingað til. Ef það gerist að lagður verði raforkusæstrengur á milli Íslands og Bretlands, hverfur sú vernd og jöfnunaráhrif regluverksins munu leggjast hér á heimili og fyrirtæki af fullum þunga. Þetta er að sjálfsögðu ein helst ástæða þess að Bretar sýna þessu verkefni mikinn áhuga. Hver er ekki tilbúinn til þess að stuðla að lækkun orkuverðs og um leið að auka samfélagslegan ábata í sínu eigin samfélagi?
Því verður að spyrja þessarar spurningar: Er það hagur okkar Íslendinga að jafna þann mismun sem felst í lægra raforkuverði hér en í Bretlandi með því að hækka verðið hér á landi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar