Föstudagur, 5. ágúst 2016
Afsakið, hvað gáfum við?
Nokkuð hefur verið um það síðustu mánuði og ár að þeir sem tjá sig opinberlega um sölu á raforku fari með rangt með ýmsar staðreyndir sem ættu að liggja ljósar fyrir. Sérstaklega á þetta við um samskipti sem fara fram á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Ég ætla hér að leyfa mér að draga fram rök í þessu sambandi.
Við gefum raforkuna til stóriðjunnar Þessi mýta er nokkuð lífseig og svo langt gengur að opinberir aðilar stökkva á þennan vagn. SFR eða Stéttarfélag í almannaþjónustu skrifar grein á vefsíðu sína 8. maí 2015 þar sem segir m.a.
Raforkuna gefum við til stóriðjunnar án þess að þjóðin fái notið arðsins af sölu hennar
Er þetta nú allskostar rétt? Þessa möntru eða mýtu er búið að syngja svo oft að líklegt er að þeir sem ekki hafa fyrir því að kynna sér þessi mál sjálf/ir taki þennan málflutning trúarlegan. Kíkjum aðeins á staðreyndir tengdar þessu máli.
Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 og er því rétt ríflega 50 ára gamalt fyrirtæki. íslensk stjórnvöld á þessum tíma höfðu hug á að nýta orkulindir landsins betur. Landsvirkjun var þá stofnuð í þeim tilgangi að byggja og reka raforkuver sem gætu selt raforku til stóriðju og þannig nýtt það fé sem stóriðjan greiddi fyrir orkuna til uppbyggingar á raforkukerfinu og í leiðinni séð almennum markaði hér á landi fyrir raforku á hagkvæmu verði. Fram að þessum tíma hafði rafvæðing á Íslandi verið rekin af ríki og sveitarfélögum og stóð rekstur veitufyrirtækja þeirra ekki undir nýframkvæmdum í orkumálum. Landsmenn bjuggu við orkuskort og skammtanir á raforku sérstaklega átti þetta við yfir vetrarmánuðina.
Hægur en góður stígandi hefur verið í rekstri Landsvirkjunar þessi ríflega 50 ár sem fyrirtækið hefur starfað. En fyrirtækið hefur án nokkurs vafa orðið til heilla fyrir þjóðina. Fyrir tilurð þess hefur tekist að byggja upp sterkt og öflugt raforkukerfi sem við þegnarnir njótum í afhendingaröryggi og hagkvæmum verðum. Hagur félagsins og virðisaukning hefur fyrst og fremst myndast í gegnum samninga við stóriðjuna. Í upphafi var það samningurinn við ÍSAL sem var grundvöllur að rekstri Landsvirkjunar. Svo kom járnblendiverksmiðja ELKEM um 1979, eftir það kom ríflega 20 ára tímabil þar sem var stöðnun þrátt fyrir að leitað væri logandi ljósi að margskonar orkuríkri starfsemi sem tilbúin væri að hefja hér starfsemi. Nokkurt stökk verður í kringum aldamótin, ÍSAL stækkar með byggingu kerskála 3 1997 og Norðurál byggir áfanga 1 í Hvalfirði 1998, Elkem stækkar 1999 og Norðurál byggir áfanga 2 árið 2001. Annað stökk kemur svo þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð. Á svipuðum tíma komu Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja inn á raforkumarkaðinn fyrir stóriðjuna með stuðningi við kerlínu 2 hjá Norðuráli (2006-2008).
Eftir sem áður er almenn raforkunotkun á þeim verðum sem hér hafa tíðkast ekki að standa undir nýframkvæmdum í kerfinu ein og sér, ekki nema til komi umtalsverðar hækkanir á verðum.
Þegar leitað er til sérfræðinga á fjármálamarkaði og spurt um áætlað virði Landsvirkjunar í dag eru svörin nokkuð misvísandi. Tölurnar sem koma fram eru á bilinu 450 til 600 milljarðar króna. Svona til þess leika okkur aðeins með tölur á einfaldan hátt skulum við segja að fyrirtækið sé 500 milljarða virði.
Á þessu má sjá að virði Landsvirkjunar hefur aukist um 100 milljarða á hverjum áratug sem fyrirtækið hefur starfað. Það er að vísu svolítil einföldun þar sem virðisaukningin var mun hægari í upphafi og hefur síðan vaxið hratt seinnihluta þessa tímabils með aukinni sölu til stóriðjunnar. Í raun má segja að virði Landsvirkjunar hafi tekið stökk með byggingu Kárahnjúka og raforkusamning þeim sem gerður var við Fjarðarál í kjölfarið.
En hvað fæst fyrir 500 milljarða?
Máltíðin hjá Jóa í Múlakaffi kostar um 1800 krónur, við getum keypt 278 milljónir máltíða hjá honum.
Hagkvæmur fjölskyldubíll kostar um 4 milljónir gætum við keypt 125 þúsund stykki.
Við gætum sent um 3,8 milljónir inn á hvert heimili í landinu.
Nú eða við gætum rekið Landspítalann í 10 ár.
En aftur að inntaki þessarar greinar og spurningunni um það hvort að við höfum gefið orkuna til erlendra auðhringja eins og stundum heyrist. Ég tel að svo sé sannarlega ekki. Eftir viðskiptin við þessa aðila eigum við gott orkukerfi fyrir raforku og fyrirtæki sem er 500 milljarða virði fyrir afnot af auðlindum landsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. júlí 2016
Þýðir ekki að benda til Noregs
Þeim sem talað hafa fyrir lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands hefur orðið tíðrætt um reynslu Norðmanna og gjarnan bent þangað máli sínu til stuðnings. Verkefnisstjórn sæstrengs hefur nú skilað lokaskýrslum til iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þar er enn á ný horft sérstaklega til reynslu Norðmanna af lagningu sæstrengja.
Norska raforkukerfið er gerólíkt því íslenska. Meginástæðan er sú að yfir 90% af norsku húsnæði eru hituð upp með raforku öfugt við hér, þar sem 90% húsnæðis eru hituð upp með jarðvarma. Í Noregi eru því mjög miklir toppar á álagi raforkukerfisins yfir vetrartímann. Virkjanir Norðmanna eru hannaðar og reistar miðað við að anna eftirspurninni á þessum toppum sem verða yfir köldustu daga ársins.
Þessi munur veldur því að mjög mikið ónýtt afl er fyrir hendi í norska raforkukerfinu meginhluta ársins. Þessu er öfugt farið hér þar sem stóriðjan kaupir um 80% af allri raforku sem við framleiðum og nýtir hana samfellt nærri því 97%. Hitasveiflur í raforkukerfinu hér á landi eru tiltölulega mjög litlar vegna jarðvarmans sem við nýtum til að hita vistarverur okkar, þó að auðvitað kalli skammdegið á veturna á meiri lýsingu. Þetta þýðir að það er sáralítill munur á meðal raforkunotkun og því þegar notkunin er hvað mest. Í kerfinu okkar er því hlutfallslega mjög lítið af afgangsorku eða svokölluðu toppafli.
Ríflega tvær Kárahnjúkavirkjanir
Þetta þýðir að í Noregi þarf ekki að virkja til þess að selja orku inn á sæstrengi. Þessu er þveröfugt farið hér þar sem sáralítil umframorka er í kerfinu og því þyrfti að virkja. Raforkusæstrengur frá Íslandi til Bretlands kallar á fjárfestingar í orkuvinnslu upp á 1.459 megavött af nýju uppsettu afli (skv. mið-sviðsmynd verkefnisstjórnar). Til þess að glöggva sig á umfanginu er rétt að nefna að Kárahnjúkavirkjun er 690 megavött í uppsettu afli. Af því leiðir að virkja þarf ígildi 2,1 slíkra virkjanna til þess að fæða sæstrenginn.
Einnig þarf að taka með í reikninginn að Landsvirkjun er ýmist búin að ljúka samningum eða er í samningaviðræðum við fjögur kísiliðjuver sem samanlagt þurfa yfir 2500 gígavattsstundir fyrir sína framleiðslu á næstunni. Orkuþörf næstu ára er því mikil, jafnvel þó að ekkert verði af áformum um sæstreng.
Nýtist ekki til sveiflujöfnunar
Efnahagslegur grundvöllur raforkusæstrengs og í raun allra stórra mannvirkja er að ná fram sem mestri nýtingu á mannvirkið frá fyrsta degi. Hugmyndir um að gera líkt og Norðmenn gera að selja einungis orku þegar verðið hátt, nokkra klukkutíma á dag, gengur illa upp fyrir okkur. Við getum ekki virkjað fyrir sæstreng og látið virkjanir bíða þar til rétt verð fæst á markaði. Sama gildir um þá sem mögulega mundu vilja fjárfesta þessum risavaxna raforkusæstreng. Það er allt of mikið tekjutap að láta mannvirkið standa án nýtingar klukkustundum saman. Þar af leiðir að umræða um að raforkusæstrengur sé einhvers konar sveiflujöfnunartæki stenst ekki á forsendum aðstæðna hér á landi.
Talsmenn sæstrengs hafa bent á þann möguleika að á næturnar sé hægt að flytja orku til landsins í gegnum raforkusæstreng og nýta tímann til þess að safna vatni í miðlunarlón íslenskra virkjana. Með þessum hætti megi safna orku í miðlunarlónin sem síðar seljist á hærra verði að degi til. Tæknilega er þetta vissulega hægt en menn gleyma því gjarnan að þá er verið að flytja sömu orkuna tvisvar sinnum í gegnum strenginn, fram og til baka. Þetta mundi hafa mjög mikil áhrif á flutningskostnað á hverja orkueiningu sem seld er. Ólíklegt er að þetta fyrirkomulag geti orðið hagkvæmt til lengri tíma litið.
Öryggishugmyndir óraunhæfar
Að auki hefur verið bent á að raforkusæstrengurinn auki orkuöryggi þjóðarinnar, til dæmis ef hér yrði meiriháttar náttúruvá. Á þessu eru hins vegar tæknilegir annmarkar. Upplýst hefur verið að það taki allt að tvær klukkustundir að skipta um straumstefnu á strengnum. Auk þess er ólíklegt að orka frá sæstreng gagnist nokkuð ef flutningsmannvirki, sem eru nánast öll ofanjarðar hafa laskast af hendi náttúrunnar. Þessir annmarkar gera öryggishugmyndir tengdar sæstreng óraunhæfar.
Sóunin sem hefur gleymst
Þessu til viðbótar er rétt að minna á að gríðarlegt orkutap verður þegar orka er flutt um sæstrengi. Orkutapið verður í áriðli, afriðli og í strengnum sjálfum. Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, hefur bent á að tapið í gegnum strenginn og tengimannvirki geti verið allt að 10%. Það jafngildir því ríflega 1,5 Búðarhálsvirkjunum sem tapast af orku í gegnum raforkusæstrenginn. Bjarni hefur verið ómyrkur í máli og kallað tap eins og þarna kæmi fram orkusóun. Þetta er nokkuð merkilegt í því ljósi að talsmenn raforkusæstrengs hafa notað sem rök að með því að selja svokallað umframafl inn á sæstreng að þá sé verið að koma í veg fyrir sóun. Þannig gleymist í umræðunni hve sóunin í strengnum sjálfum vegur þar þungt á móti.
Fjármunum betur varið til heilbrigðismála?
Kjarni málsins er því sá að aðstæður í Noregi og Íslandi eru gerólíkar og ekki samanburðarhæfar vegna þess hve ólík kerfin eru. Norðmenn búa við gríðarlega mikið umframafl í sínu orkukerfi og þurfa ekki að virkja sérstaklega fyrir útflutning sinn. Þessi umframorka er ekki til hér á landi í þeim mæli að hún geti verið grundvöllur raforkuútflutnings um raforkusæstreng.
Rökin fyrir þessari mögulegu sæstrengsframkvæmd eru því að gufa upp eitt af öðru. Landsvirkjun hefur nú árum saman verið með þetta mál á dagskrá og sett í það hundruð milljóna af almannafé. Er ekki rétt að fara að leggja strenginn á ís og snúa sér að mikilvægari málum? Það bráðvantar til dæmis fé til heilbrigðismála.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. júlí 2016
Markaðsleg áhrif knattspyrnulandsliðsins
Ég er einn af þeim sem með athygli fylgist með viðburðum í því skyni að meta hver markaðsleg áhrif þeirra verða yfir tíma. Í þessu ljósi hefur verið sérlega áhugavert að fylgjast með þátttöku landsliðsins okkar í knattspyrnu á Evrópumótinu í Frakklandi.
Allar líkur eru á því að áhrifa þessa einstaka viðburðar eigi eftir að gæta í íslensku athafnalífi um árabil. Jákvæð framkoma stuðningsmanna og óvæntur árangur liðsins urðu að umfjöllunarefni þúsunda miðla um allan heim.
Einn af þeim vísum sem vert er að fylgjast með er hversu oft orðið Iceland er leitarorð hjá Google. Þegar það er skoðað yfir tíma í hlutfallslegri línu. Þá sést að í samanburði við eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hefur orðið tvöföldun í fjölda leita af orðinu Iceland. Það er gríðarlega mikil aukning.
Hvað þýðir þetta?
Það er erfitt að spá um það með nákvæmni í augnablikinu en ljóst er að liðið og stuðningsmenn hafa vakið mikla athygli víða um veröld. Sú athygli gæti, ef vel er á haldið orsakað enn skarpari vöxt í komu erlendra ferðamanna til landsins.
Þetta leiðir hugann af þeirri staðreynd að stuðningur ríkisins við afreksíþróttafólk á Íslandi er mjög takmarkaður. Réttindi þess mjög skert og því fórn þeirra fyrir það að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar er oft á tíðum mjög mikil. Sem betur fer á þetta ekki við um knattspyrnulandsliðið því það er skipað leikmönnum sem hafa atvinnu af því að vera íþróttamenn. KSÍ hefur lýst því yfir að leikmenn fái greiðslur fyrir þátttöku sína fyrir fé Evrópska knattspyrnusambandsins og er það vel.
Þetta kallar á það að Ríkissjóður endurskoði framlög sín til afreksíþrótta heildstætt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. júlí 2016
Lýðræðishalli
Hversu mikil áhrif get ég haft á umhverfi mitt með því að taka virkan þátt í þeim kosningum sem mér standa til boða? Ég hef síðustu vikur svolítið velt þessu fyrir mér. Ég hef tekið þátt í öllum kosningum sem hafa farið fram síðan 1982 og er enn að taka þátt, trúandi því að ég geti í raun haft áhrif. Að eiga þess kost að segja sitt álit í kosningum og hafa mögulega áhrif á hvaða málstaður nær fram að ganga í samfélaginu okkar,er jú hornsteinn þess lýðræðis sem við búum við.
Ég minnist þess að þegar ég fór að velta fyrir mér pólitík fyrir alvöru og nýta rétt minn til þess að kjósa, hafði ég miklu meiri áhrif en ég hef í dag. Með atkvæði mínu gat haft áhrif á það hvaða sjónarmiða gætti í bankaráðum ríkisbankanna. Hverjir sætu í stjórn Ríkisútvarpsins og fjölda annarra ríkisstofnana. Ég gat beitt atkvæði mínu til þess að þeir sem töluðu fyrir þeim sjónarmiðum sem ég aðhylltist, gætu haft pólitísk afskipti á ýmsum sviðum samfélagsins. Með sama hætti gat ég ef ég taldi illa farið með það vald sem í atkvæði mínu fólst, ákveðið að gefa nýjum aðila mitt vægi til þess að hafa áhrif. En nú er öldin önnur, möguleg áhrif mín eru þverrandi í samanburði við það sem áður var.
Völd embættismanna
Allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar, sem finna má á athugasemdakerfum fjölmiðlanna og víðar, súpa hveljur og bölva pólitískum afskiptum. Ástæða þessa er að það þykir ekki lengur fínt eða jafnvel boðlegt að hafa pólitísk afskipti af samfélaginu og grunnstoðum þess. Í staðin eru skipaðir embættismenn í stjórnir, sýslur og ráð sem taka pólitískar ákvarðanir á hverjum degi án þess að hafa til þess umboð kjósenda í landinu. Kjósandinn hefur því ekkert um það að segja lengur hvernig ákvarðanir þessara kjörnu embættismanna ganga fram. Enginn ber pólitíska ábyrgð á aðgerðum þeirra sem með valdið fara í þessum stjórnum, ráðum og sýslum. Á sama tíma og rætt hefur verið um að jafna þurfi vægi atkvæða í landinu, hafa ráðmenn þessa lands kerfisbundið einnig skert vægi þeirra atkvæða sem greidd eru.
Hér á öldum áður bjó fólk við andstæður lýðræðis: konungsvald, harðstjórn eða stjórnleysi. og í ákveðnum heimshlutum finnast dæmi um slíkt enn. Lýðræði á að tryggja bæði dreifingu valds og ábyrgðar og ekki síður hvernig fólk getur valið og skipt um valdhafa á friðsaman hátt.
Við nýtum okkur lýðræði einnig sem tæki til að taka ákvarðanir um hagsmunamál okkar, mál sem við erum ósammála um s.s. eins og að kjósa okkur þjóðhöfðingja. Þetta snýst ekki um að útdeila valdi heldur einfaldlega um hvernig skuli taka ákvörðun í hópi fólks. Ákvörðun getur verið lýðræðisleg í þessum skilningi hvort sem hún er ákvörðun fjölskyldunnar hvað skuli hafa í kvöldmat eða ákvörðun þjóðar um að afsala sér fullveldi eða sjálfstæði.
Eru of miklar væntingar bundnar við lýðræðið? Það er alveg mögulegt en það er hornsteinn í þjóðfélagi okkar. Þannig er lýðræði ekki markmið í sjálfu sér heldur leið okkar að réttlátara samfélagi.
Við fólkið í landinu sitjum uppi með það að enginn axlar ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru. Við getum tekið dæmi einkahlutafélög ríkisins á borð við ISAVIA, RUV, Landsvirkjun og RARIK svo einhver séu nefnd. Við, með hinu lýðræðislega valdi okkar, höfum ekki lengur áhrif á skipan þeirra sem reka þessar stofnanir frá degi til dags. Þessar stofnanir eru reknar í mörgum tilfellum af embættismönnum sem síðan taka pólitískar ákvarðanir. Þjóðin er áttavillt og enginn þessara embættismanna virðist þurfa að bera minnstu ábyrgð á gerðum sínu. Þannig vantreystir þjóðin bæði pólitíkusum og embættismönnum, sem pólitíkusar hafa ráðið.
Valdið aftur til alþingis
Ég tel að við þurfum að færa ábyrgð frá pólitískum embættismönnum sem engin vill bera ábyrgð á. Ábyrðin þarf að færast á hendur þeirra kjörnu fulltrúa sem við þjóðin höfum valið til að fara með þetta vald. Við þurfum með öðrum orðum að auka pólitísk afskipti.
Aðhaldið verður svo að vera fólgið í opinni, gagnrýnni og heiðarlegri umræðu um verk og gjörðir þeirra sem við höfum treyst fyrir valdi okkar. Mér er ekki kunnugt um að sannleikurinn hafi lotið í lægra haldi í frjálsum og opnum skoðanaskiptum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. júní 2016
Að ráðskast með hagsmuni almennings
Í Viðskiptablaðinu sem kom út nú fyrir nokkrum dögum var nokkuð ítarlegt viðtal við Hörð Arnarsson, forstjóra Landsvirkjunar. Í viðtalinu segir hann óðum styttast í að Landsvirkjun geti farið að borga eiganda sínum, íslenska ríkinu, umtalsverðar arðgreiðslur.
Við stefnum mjög eindregið í þá átt. Þegar við þurfum ekki að borga niður skuldir frekar, þá geta arðgreiðslurnar orðið það háar að þær munu hafa umtalsverð áhrif á lífskjörin í landinu. Ef við horfum á þá rúmu 100 milljarða sem farið hafa í niðurgreiðslu lána og að við fjárfestum á sama tíma fyrir 90 milljarða, þá er það fjármunamyndun upp á 190 milljarða. Þegar við hættum að þjóna lánadrottnum og getum farið að þjóna eigandanum, þá eru þetta fjárhæðir sem geta haft verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Þegar fram líða stundir tel ég að fyrirtækið geti hæglega greitt arð upp á 10 til 20 milljarða króna á ári. Ég tel að arðgreiðslurnar byrji að aukast eftir tvö til þrjú ár.
Mikilvægt er að halda því til haga að Landsvirkjun hefur einarðlega unnið að því að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Bretlands til að tengja Ísland við raforkumarkaðinn í Evrópu. Í fyrrgreindu viðtali láist að nefna þau áhrif sem möguleg tenging Landsvirkjunar við Evrópumarkað í gegnum raforkusæstreng mun hafa á lífskjörin í landinu.
Öllum ber saman um að raforkuverð hér til heimila landsins mundi hækka til samræmis við það sem gengur og gerist á Evrópumarkaði, ef af sæstrengshugmyndum verður. Reyndar hefur Landsvirkjun ítrekað lýst því yfir að óhjákvæmilegt sé að raforkuverð hér á landi hækki til samræmis við það sem er í löndunum í kringum okkur.
Þreföld hækkun á orkuútgjöldum heimila
Hvað þýðir þetta í raun fyrir heimilin í landinu? Unnt er að nálgast þær upplýsingar með einföldum reikningi. Samkvæmt vef Orkuseturs er meðal raforkueyðsla á hvert heimili um 5.000 kílóvattsstundir á ári. Orkuverðið sjálft er örlítið breytilegt eftir hverjir framleiða og dreifa orkunni en t.d. í dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar er verð á hverja notaða kílóvattsstund 14,35 krónur. Hér er um heildarverð til neytanda að ræða, það verð sem neytandinn greiðir þegar hann kveikir ljós heima hjá sér eða setur pott á eldavél.
Þetta þýðir að meðalheimili á Íslandi greiðir 71.750 krónur á ári fyrir raforku. Í Þýskalandi er verðið fyrir sama magn af raforku á ársgrundvelli 208.793, í Danmörku er þetta verð enn hærra eða 244.668 á ári.
Samkvæmt Þjóðskrá voru í árslok 2014 voru 133.636 íbúðir á Íslandi. Notum nú meðaltalið frá Orkusetrinu að hver þessara íbúða noti u.þ.b. 5.000 kílóvattsstundir (KWst). Við skulum leyfa okkur að nota uppgefið orkuverð frá Orku Náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur sem er 14,35 krónur á hverja kílóvattsstund. Þá má sjá að raforkusala til heimila landsins nemur um 9,5 milljörðum króna.
Ef heimilin í landinu þyrftu að greiða sama orkuverð og í Þýskalandi, þyrftu þau að greiða 18 milljarða til viðbótar við þessa 9,5 eða samtals 27,9 milljarða fyrir raforkuna. Ef íslensk heimili þyrftu að greiða það sama og heimili í Danmörku fyrir raforkuna, þyrftu þau að taka á sig hækkun upp á 23 milljarða til viðbótar við þessa 9,5 milljarða og greiddu þá samtals 32,6 milljarða fyrir raforkuna.
Mánaðarútgjöld meðalheimilis á Íslandi fyrir raforkunotkun eru í dag samkvæmt tölunum hér að framan 5.979 krónur. Ef fyrirætlanir um tengingu Íslands við Evrópu ganga eftir, hækka mánaðarútgjöldin í 17.399 kr. ef miðað er við Þýskaland og í 20.389 kr. ef miðað er við Danmörku.
Ekki þarf að fjölyrða um að annar orkukostnaður mundi einnig hækka í kjölfarið því ekki er neinum vafa undirorpið að hagkvæmt verð á raforku heldur niðri verði á öðrum orkukostum s.s. hjá hitaveitum landsins.
Hver er stefna stjórnvalda?
Er því nema von að maður verði hugsi þegar Landsvirkjun kveðst ætla að bæta lífskjör í landinu með því að greiða ríkissjóði 10 til 20 milljarða í arðgreiðslur árlega, á sama tíma og Landsvirkjun stefnir að því að álögur á heimili landsins hækki um tugi milljarða árlega vegna orkukaupa í kjölfar raforkusæstrengsins.
Í tengslum við væntanlegar milljarða arðgreiðslur í ríkiskassann er farið að tala í alvöru um að stofna orku/ auðlindasjóð að fyrirmynd Norðmanna, byggðan á hinum væntu arðgreiðslum upp á 10 til 20 milljarða á ári. Vandamálið er bara sá að fórnarkostnaðurinn sem leggst á heimilin í landinu vegna sæstrengsævintýrisins er umtalsvert hærri en væntar arðgreiðslur.
Ég hef í fyrri pistlum mínum um orkumál reynt að benda á nauðsyn þess að alþingi og eða ríkisstjórn setji fram eigendastefnu fyrir fyrirtækið Landsvirkjun. Á undanförum árum hefur verið tekin vinkilbeygja á stefnu fyrirtækisins án þess að nokkur virðist ætla að bera á því pólitíska ábyrgð. Er ekki komin tími til að kjörnir fulltrúar okkar axli ábyrgð í þessu máli?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. júní 2016
Síþrasandi þjóð!
Þrátt fyrir mikinn uppgang í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu er neikvæð afstaða gagnvart atvinnulífinu í landinu ríkjandi. Íslendingar ættu að vera stoltir yfir því sem vel er gert en það er því miður vöntun á því. Kreppan er búin og komið góðæri en eftir situr andlega kreppan.
Þetta sagði Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, í viðtali í Viðskiptablaðinu nú fyrir skömmu, og hún bætti við.
Það er alltaf verið að tala niður og kasta rýrð á atvinnulífið. Það er tortryggt í hvívetna og það á sama tíma og við erum að horfa til þess að íslenskt atvinnulíf er að standa sig alveg gríðarlega vel,
Katrín hefur rétt fyrir sér, okkur Íslendingum virðist algerlega fyrirmunað að dást að og hreykja okkur af því sem vel er gert í atvinnulífinu. Við erum hinsvegar dugleg að láta systurnar öfund og illkvittni ná tökum á okkur. Og svo virðist sem þessar systur eigi frjóan jarðveg í þessu litla samfélagi okkar, þar sem návígið er mikið.
Framúrskarandi árangur
Þegar við skoðum helstu stoðir íslensks atvinnulífs með opnum huga, koma fljótt í ljós þeir kostir sem Katrín bendir á. Þeir eru vissulega til staðar á öllum sviðum.
Í sjávarútvegi höfum við ná undraverðum árangri. Þetta sést einna best á því að þjóðir, sem veiða miklu meira en við, leita í smiðju okkar til þess að ná fram betri nýtingu og auknum verðmætum. Hér er íslenskt hug- og verkvit í aðalhlutverki og verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið er veruleg á ýmsum sviðum tengdum sjávarútvegi. Samt er nánast öll umræða um sjávarútveg neikvæð. Hún einkennist af upphrópunum og deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið en lítið fer fyrir þeirri umræðu hversu mikil verðmætaaukning verður við áframvinnslu á hráefninu sem í land er fært.
Byggt á íslenskri þekkingu
Við höfum byggt upp mjög öflugt raforkukerfi hér á landi með þeirri aðferð að semja við stóriðjuver um kaup á orku. Arðurinn hefur að hluta til verið sendur beint til heimila landsins í formi lægra orkuverðs en þekkist í löndunum í kringum okkur. Mjög mikil og ósanngjörn umræða hefur verið um þessi stóriðjuver og þá sérlega álfyrirtækin sem hér starfa. Umræðan hefur verið eins og þessar verksmiðjur séu óhreinu börnin hennar Evu sem allir vilja burt úr garðinum sínum. Færri vita eða kæra sig um að vita að þetta eru hreinustu álverksmiðjur heims, þökk sé íslensku hug- og verkviti. Í raun eru þessar íslensku verksmiðjur í fararbroddi um tækniþróun og takmörkun á umhverfisáhrifum álvera í heiminum. Norðmenn tilkynntu fyrir skömmu að þeir ætluðu að reisa nýtt álver sem á að vera það fullkomnasta og umhverfisvænsta í heimi. Nánast engin umræða hefur verið hér á landi um það að þetta nýja álver Norðmanna er að verulegu leytii byggt á íslensku hug og verkviti.
Engin atvinnugrein hefur vaxið jafn hratt og ferðaiðnaðurinn hér á landi síðustu árin. Þessi grein hefur ekki farið varhluta af neikvæðri umræðu. Endalausar klósettsögur. Náttúruperlur eru traðkaðar niður og lýsingar á því hvernig ferðamaðurinn er búin að hertaka Laugarveginn heyrast reglulega - það sé bara ekki hægt að ganga hann án þess að heyra talað á framandi tungum á hverju götuhorni.
Hinar skapandi greinar eru einnig í talsverðum vexti og þar í fararbroddi eru tónlistin og kvikmyndagerðin sem eiga mjög stóran þátt í þeirri velgengni sem íslenskur ferðaiðnaður nýtur í dag. Því miður einkennist umræða um þessar greinar oftar en ekki um styrkframlag þjóðarinnar til þessara greina eða listamannalaun en ekki um hið mikilvæga hlutverk þeirra bæði í að varðveita menningarsögu landsins og vekja áhuga heimsins á landinu okkar.
Mál að linni
Erum við Íslendingar óvenjulega þrasgjörn þjóð? Það er ekki gott að segja. Jón Gunnarsson formaður atvinnumálanefndar Alþingis sagði í maí 2008 það vera hluta af vinstri stefnu, að tala niður atvinnulífið.
Jafnvel forráðamenn einstaka atvinnugreina hafa leyft sér að tala niður aðrar greinar. Líkast til í þeim tilgangi að réttlæta gagnrýni á eigin grein. Svo langt hefur þetta gengið að forseti Íslands hefur séð ástæðu til þess að hnippa í menn.
Ég segi í fullri alvöru við forustumenn í samtökum íslensks atvinnulífs: Hættið að tala niður íslenskt atvinnulíf,
sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, 10. apríl 2011 á blaðamannafundi sem hann hélt á Bessastöðum. Forsetinn bætti síðan í og sagði:
Farið og segið unga fólkinu og íslensku þjóðinni frá allri uppbyggingunni, sem er í íslensku atvinnulífi. Lýsið því á hverjum degi hvað er verið að gera í hverju fyrirtækinu á fætur öðru og að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu, hátækni, upplýsingatækni og öðrum greinum hefur á síðustu tveimur árum verið að upplifa ein sín bestu ár. Því það er mikið hættuspil að halda þeirri röngu mynd að íslensku fólki að hér sé ekkert að gerast.
Ég gæti ekki verið meira sammála. Áfram Ísland!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. júní 2016
Glöggt er gests augað
Það gustar jafnan hressilega um Lars Christensen, hagfræðing, sem flestir Íslendingar kannast við af reglulegum pistlum hans í viðskiptablaði Fréttablaðsins. Þetta er jú líka sá hinn sami og spáði fyrir um hrunið á Íslandi og ráðamenn þjóðarinnar reyndu án afláts að púa niður. Að þessu sinnu voru það Samtök iðnaðarins sem fengu Lars til þess að gera úttekt á raforkumarkaðnum á Íslandi. Úttekt þessi er fyrir margra hluta sakir afar merkileg. Hún staðfestir svo að ekki verður um villst þá stefnubreytingu sem orðið hefur á rekstri Landsvirkjunar í tíð núverandi forstjóra og undirritaður hefur ítrekað bent á. Frá því að Landsvirkjun var stofnuð, um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hefur fyrirtækið lengst af verið rekið á grunni samfélagsþjónustu, þ.e. hagnaðinum hefur verið skilað til landsmanna í formi ódýrrar orku. Hin allra síðustu ár hefur þetta breyst og fyrirtækið horfir sífellt meira til auðsöfnunar undir því yfirskyni að það ætli sér að greiða mikinn arð í ríkiskassann.
Við Íslendingar stöndum í raun frammi fyrir tveim valkostum þegar kemur að raforkukerfi landsins og uppbyggingu þess. Fyrri valkosturinn er sá að hafa í heiðri þá framtíðarsýn sem mörkuð var þegar til Landsvirkjunar var stofnað. Sú sýn gerir ráð fyrir því að samningar við stóriðjuna greiði uppbyggingu og þróun íslenska raforkukerfisins og við Íslendingar njótum þess hagræðis í lægsta orkuverði í heimi sem líta má á sem arðgreiðslu til almennings. Hinn kosturinn er sá sem núverandi forstjóri Landsvirkjunar er að feta með fyrirtækið án þess að eigendur þess hafi óskað eftir því. Þessi kostur gerir ráð fyrir því að raforka á Íslandi verði seld hæstbjóðandi á markaði á hverjum tíma - markaði sem skortir samkeppni. Þetta er í raun markaðsvæðing Landsvirkjunar og rökréttur undirbúningur fyrir einkavæðingu fyrirtækisins.
Christensen bendir á þá einföldu staðreynd að ef ríkja á samkeppnismarkaður fyrir raforku á Íslandi, verði að skipta Landsvirkjun upp. Komi ekki til uppskiptingar á fyrirtækinu, muni það gnæfa áfram í markaðsráðandi stöðu yfir fákeppnismarkað þar sem evrópskar reglur um samkeppnismarkað gilda. Núverandi stjórnendur hafa sýnt það bæði í orði og verki að ætlun þeirra er að hækka orkuverð til samræmis við verð í Evrópu. Þetta eru þeir að gera í skjóli fákeppni án þess að ljóst sé hver ætli að bera á því pólitíska ábyrgð. Stefna þessi er hamlandi fyrir uppbyggingu á íslensku atvinnulífi og dregur úr samkeppnishæfni þess á alþjóðlegum mörkuðum. Að viðbættu hærra orkuverði til einstaklinga og fyrirtækja almennt veldur þessi þróun svokölluðu velferðartapi þjóðarinnar.
Stóra pólitíska spurningin sem þarf því að byrja á því að svara er hvort vilja menn markaðsvæða Landsvirkjun, með þeirri afleiðingu að fyrirtækið komi mögulega til með að greiða eitthvað hærri arð í ríkiskassann á sama tíma og landsmenn þurfa greiða miklu hærri orkureikninga líkt og í löndum Evrópu. Eða vilja menn að fyrirtækið verði áfram í eigu þjóðarinnar og nýti styrk sinn til þess að láta landsmenn alla njóta lágs orkuverðs af samstarfi sínu við stóriðjuna?
Þetta eru stóru valkostirnir tveir. Ef áfram verður haldið á braut markaðsvæðingar á raforku í skjóli evrópskra reglna, er óhjákvæmilegt annað en að skipta fyrirtækinu upp og einkavæða það. Annars verður aldrei eðlilegur samkeppnismarkaður til staðar. Ella ætti að horfa til þess eins að styrkja Landsvirkjun sem samfélagsfyrirtæki þannig að tryggt sé fyrirtækið verði ávallt í eigu landsmanna og að arði þess verði ávallt skilað í formi eins lágs orkuverðs og hugsast getur.
Í viðtali við Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar á mbl.is kemur fram að hann telur tillögur Lars Christensen um að brjóta upp Landsvirkjun óskynsamlegar. Máli sínu til stuðnings bendir forstjórinn á að um 80% af sölu Landsvirkjunar séu til stóriðju og gjörningurinn mundi veikja samningsstöðu fyrirtækisins gagnvart stóriðjunni. Þetta er í sjálfu sér alveg rétt hjá forstjóranum. Eðli þess að vera á samkeppnismarkaði er að þar fara fram kaup á sala með þeim hætti að hvorki seljandi eða kaupandi geta haft áhrif með einhliða ákvörðun á verðmyndun. En forstjórinn virðist líta á það sem veikleika ef fyrirtækinu yrði skipt upp og raunveruleg samkeppni mundi ríkja í stað fákeppni líkt og nú.
Einkenni fákeppnismarkaðar hafa berlega komið í ljós á síðustu árum og má í því sambandi nefna að mjög miklar hækkanir og skilmálabreytingar hafa komið fram á ótryggðri orku hjá Landsvirkjun. Um er að ræða einhliða ákvarðanir fyrirtækis á fákeppnismarkaði þar sem orka til ýmissar innlendrar iðnaðarstarfsemi hefur hækkað um tugi og í einhverjum tilvikum yfir 200 prósent. Rök forstjórans við gagnrýni á þessar hækkanir hafa verið staðhæfingar um aukna eftirspurn. Einhliða hækkunarákvarðanir sem þessar eru óyggjandi sönnun þess að markaðurinn er ekki heilbrigður og á honum ríki fákeppni. Því er óhjákvæmilegt að haldi Landsvirkjun áfram að síga í átt að markaðsvæðingu, verður að skipta fyrirtækinu upp líkt og Christensen leggur til.
Stjórnmálamenn verða því að taka á þessu máli og leggja fyrirtækinu Landsvirkjun til eigendastefnu. Ófært er að forstjórinn upp á sitt einsdæmi, í skjóli evrópskra reglna, ákveði að markaðsvæða fyrirtækið en ætli á sama tíma að halda dauðahaldi í fákeppnisstöðu á markaði. Þar með væri samfélagshlutverk Landsvirkjunar úr sögunni en velferðartap þjóðarinnar blasti við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. maí 2016
Sjaldan brýtur gæfumaður gler
Góður maður sagði eitt sinn að við lestur Íslendingasagna hefði hann fengið nýja sýn á þennan gamla málshátt sem er nafnið á þessari grein. Það eru ekki örlögin sem skapa mönnum gæfu, heldur atferli þeirra. Gæfumaðurinn gengur ekki fram af meira kappi en forsjá, svo vitnað sé í annað gamalt orðtak, en hann gengur heldur ekki fram af meiri forsjá en kappi.
Þegar Landsvirkjun var stofnuð á sínum tíma fékk hún það kappsfulla verkefni að reisa Búrfellsvirkjun og útvega álverinu í Straumsvík rafmagn, en í lögum um Landsvirkjun frá þessum tíma voru sett ýmis ákvæði sem áttu að tryggja, að gengið væri fram af forsjá. Meðal annarra voru þar ákvæði um að samningar Landsvirkjunar um sölu til stóriðjufyrirtækja mættu ekki valda hærra orkuverði til almennings en ella. Einnig var ákvæði um að Landsvirkjun ætti allaf að hafa næga orku fyrir viðskiptavini sína, með öðrum orðum: Fyrirtækinu var ætlað að vera framleiðandi til þrautavara og þar af leiddi að það hafði í raun einokun á að virkja. Þarna var Kröfluvirkjun þó undantekning. Helgi Jóhannesson, formaður Samorku, benti m.a. á þessa staðreynd á fagfundi samtakanna sem haldin var 26. maí síðastliðinn. Helgi sagði m.a. Við upplifum mikla eftirspurn eftir raforku en lítið framboð sem enginn vaktar.
Túlkun á lögunum leiddi svo til þess, að þegar Landsvirkjun stóð í orkusamningum við stóriðjufyrirtæki var reiknaði lágmarksverð þeirrar orku út frá svonefndum flýtingarkostnaði. Þar var borinn saman kostnaður af því að virkja fyrir almenna markaðinn eingöngu á hagkvæmasta hátt næstu áratugi og kostnaður af að virkja fyrir stóriðu til viðbótar almenna markaðnum til sama tíma. Hin harða alþjóðlega samkeppni sem var á þessum stóriðjumarkaði varð til þess, að Landsvirkjun varð að gæta ítrustu hagkvæmni við uppbyggingu virkjana sinna og flutningslína. Reikniaðferðin var þróuð áfram til aldamóta og allar endurbætur jafnóðum bornar undir stjórnvöld og efnahagsráðgjafa, sem ávallt samþykktu. Þessi reikniaðferð var aflögð eftir setningu nýrra orkulaga 2003 og til samræmis við þau teknar upp reikniaðferðir sem eru meira í ætt við algengar aðferðir banka og fjárfesta.
Fleira var gert á þessum tímum. Landsvirkjun beitti sér fyrir því, að Orkustofnun setti á fót Orkuspárnefnd, sem enn starfar. Þegar Búrfellsvirkjun var byggð, var hún hönnuð og framkvæmdum stjórnað af fyrirtæki með alþjóðlega viðurkenningu á því sviði. Næstu virkjun, Sigöldu, hannaði fyrirtækið fyrst sjálft með hjálp innlendra verkfræðistofa, en varð síðan að fá alþjóðlega viðurkenndan erlendan ráðgjafa til verksins til að það væri lánshæft hjá erlendum stofnunum. Landsvirkjun lét þá hinn erlenda ráðgjafa mynda félag um verkið með innlendum ráðgjöfum og var það fyrirkomulag notað áfram. Árangur þessa er sá, að nú selja íslenskir ráðgjafar þekkingu sína um víða veröld. Það má því fullyrða að stefna fyrirtækisins hafi orðið til gæfu fyrir þjóðina í fleiru en uppbyggingu raforkukerfisins.
Landsvirkjun gekk fram af forsjá ekki síður en kappi fram að lagabreytingunni 2003 og reyndar lengur, en með hinum nýju lögum var fyrirtækinu ætlað að gæta fyrst og fremst eigin hags og hin samfélagslega ábyrgð skilin eftir handa stjórnvöldum. Þau hafa þó ekki sýnt það út á við að þau hafi tekið við henni. Þannig hefur fyrirtækið markað sér stefnu um að hækka orkuverð hér á landi og boðar lagningu sæstregs, sem mundi stuðla mjög að þeirri hækkunarstefnu. Stjórnvöld hafa lítið tjáð sig um þetta mál.
Samhengi orkuverðs og efnahags hefur lengi legið fyrir, en hvað er orsök og hvað afleiðing í því máli hefur vafist fyrir. Þó er ljóst, að ef grípa þarf til gagnráðstafafana vegna breytinga á olíuverði, þá er það yfirleit of seint þegar svar markaðarins verður greint úr gagnasöfnum.
Dæmi um þetta samhengi má sjá á mynd 1, þar sem það sést greinilega. Við rannsóknir á þessu samhengi er oft horft til olíuverðs, því það hefur áhrif á bæði framleiðslukostnað og kostnað við flutninga innan hvers þjóðfélags, auk þess sem verð jarðefnaeldneytis og raforkuverð fylgir olíuverði töluvert eftir.
Hægt er að tengja ýmsa atburði efnahagssögunnar við olíuverð eins dæmi er sýnt um á mynd 2. Þetta er hægt, þar sem olíumarkaðir eru heimsmarkaðir, en sama verður ekki sagt um rafmagn. Raforkumarkaðir starfa yfirleitt innan ákveðinna landmæra og ákvarðanir stjórnvalda á hverjum stað hafa afgerandi áhrif á verðþróun þeirra.
Raforkuverð hér á landi hefur ekki elt olíuverð og verð raforku er hlutfallslega mun mikilvægara í okkar efnahagskerfi en annars staðar. Olíuverð hefur engu að síður veruleg áhrif á efnahag okkar og því getur verið varasamt að auka þau áhrif með því að leggja sæstreng og tengja þannig raforkuverð hérlendis við olíuverð gegnum erlenda raforkumarkaði. Þetta sjónarhorn ber stjórnvöldum að athuga sérstaklega og sjálfstætt. Stjórnvöld þurfa að útvega sér þá þekkingu og safna þeim upplýsingum sem til þarf og jafnframt afla sér þeirrar tækni og hugbúnaðar sem þarf til úrvinnslunnar óháð hagsmunaaðilum.
Einn stærsti hagsmunaaðilinn í þessu máli er Landsvirkjun, sem meðal annars býr yfir hugbúnaði til að reikna orkugetu orkukerfisins. Í samræmi við orkulög frá 2003 tekur fyrirtækið mið af eigin virkjanakerfi og eigin hagsmunum og reiknar út það sem nefnt er samningsgeta, sem reiknislega er samskonar fyrirbrigði og áður var nefnt orkugeta. Fyrirtækið hefur tæplega lagaheimild til að gera slíkar áætlanir fyrir allt orkukerfið og skiptir þá litlu þó það vilji gangast við samfélagslegri ábyrgð. Því verða stjórnvöld að fá samskonar hugbúnað og reikna orkugetu alls íslenska orkukerfisins út frá þjóðhagslegum forsendum, eins og gert var fyrir 2003. Orkugeta vatns- og jarðvarmaorkukerfis eins og okkar verður ekki reiknuð með því að hvert raforkufyrirtæki fyrir sig reikni samningsgetu og síðan sé lagt saman. Orkugeta er kerfiseiginleiki og verður ekki áætluð af viti öðruvísi en hafa heildarkerfið undir. Því verða stjórnvöld að framkvæma þetta á eigin vegum hvað sem einstök orkufyrirtæki gera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. maí 2016
Línur að skýrast í sæstrengsumræðunni
Mjög áhugavert er að grandskoða nýja skýrslu sem birt var í janúar síðastliðnum og nefnist North Atlantic Energy Network. Skýrslan er fjölþjóðleg og var Orkustofnun fulltrúi Íslands í þessu verkefni ásamt aðilum frá Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Hjaltlandseyjum og Noregi.
Í skýrslunni er fjallað um ýmis almenn atriði sem tengjast hugsanlegum raforkuflutningi milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlands og þaðan til Skotlands eða Noregs. Hún lýsir orkuinnviðum þessara landa við Norður-Atlantshaf með tilliti til mögulegrar þátttöku í lagningu og rekstri á sæstreng. Strengurinn sá hefði það meginhlutverk að tengja markaði þessara landa saman og flytja umhverfisvæna orku, framleidda í þessum löndum, inn á Evrópumarkað.
Landsvirkjun (LV) hefur um nokkurn tíma talað fyrir lagningu sæstrengs beint milli Íslands og Bretlands. Samkvæmt framsetningu LV hefur þjóðin mikinn hag af því að flytja orku út með þessum hætti. Forráðamenn Landsvirkjunar ásamt ýmsum talsmönnum þessarar hugmyndar hafa ítrekað látið í veðri vaka að raforkusæstrengur verði uppspretta mikils gróða og hagsældar fyrir íslenska þjóð. Það kemur því á óvart að áðurnefnd skýrsla sýnir, svo að ekki verður um villst, að þessar fyrirætlanir eru alls ekki raunhæfar. Þær munu aldrei geta staðið undir þeim væntingum sem framámenn Landsvirkjunar hafa byggt upp í kringum þetta verkefni síðustu árin.
Pólitísk áhætta
Í skýrslunni kemur fram að Evrópskur orkumarkaður sé mjög flókinn og megináhætta svona verkefnis sé pólitísk. Evrópusambandið setur reglur um sæstrengi á milli landa og ofan á þær koma síðan mismunandi sértækar reglur sem spegla sérhagsmuni viðkomandi landa. Þetta gerir regluverkið bæði flókið og óáreiðanlegt. Dæmi um það má finna í nýrri orkustefnu Bretlands sem gefin var út rétt fyrir nýliðna loftslagsráðstefnu í París. Þar setja bresk yfirvöld sér það markmið að hætta niðurgreiðslum á nýrri grænni orku á næstu árum, þvert á það sem áður var. Það vill svo til að niðurgreiðslur þessar eru einmitt forsenda þess að mögulegt sé að ráðast í lagningu á raforkusæstreng milli Íslands og Bretlands!
Kosnaður þrefalt hærri en raforkuverðið
Skúli Jóhannsson verkfræðingur birti nú í vikunni nýja útreikninga sem m.a. byggjast á skýrslunni hér að ofan. Skúli reiknar út kostnaðarverðið á orkunni kominni til Bretlands. Annars vegar með því að leggja raforkusæstreng beint. Hins vegar miðað við að farin yrði svokölluð eyjaleið með streng á milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlandseyja og Skotlands.
Skúli kemst að þeirri niðurstöðu að kostnaðarverð orkunnar, kominnar til Bretlands ef farin er bein leið á milli landanna, sé 148 bandaríkjadalir á hverja megawattsstund ($/MWst). Kostnaðarverðið ef farin er eyjaleiðin verður 168 $/MWst. Það sem skýrir þennan verðmun er m.a. aukinn virkjunarkostnaður með vindrafstöðvum í Færeyjum og á Hjaltlandi.
Þetta er mjög áhugavert, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að á Bretlandi er raforkuverð á almennum heildsölumarkaði um 50 $/MWst um þessar mundir. Kostnaður á hverri íslenskri megawattsstund, kominni á enska grund í gegnum raforkusæstreng, er því þrisvar sinnum hærri en það verð sem fæst á samkeppnismarkaði með raforku í Bretlandi. Ekkert bendir til þess að orkuverð í heiminum hækki í nánustu framtíð.
Það er merkileg staðreynd að Landsvirkjun hefur eytt verulegum fjármunum í þetta verkefni, þrátt fyrir að það sé á engan hátt sjálfbært. Líkurnar á því að bresk stjórnvöld séu tilbúin til þess að niðurgreiða orku sem er þrefalt dýrari en aðrir kostir, verða að teljast afar takmarkaðar. Sérstaklega í ljósi langtímastefnu stjórnvalda að hætta niðurgreiðslum fyrir nýja græna orku.
Hjáleið Landsvirkjunar
Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði á Landsfundi sínum að nýta ætti orku þá sem hér væri framleidd til atvinnuuppbyggingar hér á landi. Framsóknarflokkurinn telur að betra sé að nýta innlenda orku til að efla fjölbreyttan iðnað, auka matvælaframleiðslu og efla sjálfbærni í samgöngum með rafknúnum farartækjum. Einbeitni forráðamanna Landsvirkjunar í þessu máli er því í andstöðu við vilja ríkisstjórnarflokkanna.
Af ræðum framámanna Landsvirkjunar við ýmis tækifæri má ætla að í þessum raforkusæstreng liggi mikil tækifæri fyrir íslenska þjóð. Samt hefur fyrirtækið ekki treyst sér til þess að birta neitt af útreikningum sínum varðandi þetta verkefni sem styðja þær fullyrðingar. Á næstu dögum á að birta skýrslu Kviku um þetta verkefni sem unnin er fyrir Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið. Fróðlegt verður að sjá hvort niðurstöður hennar verði í takti við skýrslu Skúla Jóhannssonar sem hann skrifaði um þetta árið 2011 og nú þessa fjölþjóðlegu skýrslu sem Orkustofnun er aðili að, en nokkur samhljómur er með niðurstöðum þeirra.
Kappsemi er stundum dyggð. Hins vegar vaknar sú spurning hvort stjórnendur Landsvirkjunar átti sig ekki á því, að með ofuráherslu sinni á sæstrengsverkefnið fari þeir á svig við stefnu stjórnvalda og hagsmuni eigenda sinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. apríl 2016
Þegar góðir menn fara villir vega
Mér er það minnisstætt frá unglingsárunum þegar inn á heimilið barst dag einn afsláttarmiði frá Kaupfélagi Eyfirðinga þar sem bæjarbúum var tilkynnt að næstu 14 daga gætu þeir sem framvísuðu þessum forláta miða, (sem reyndar minnti meira á póstkort) fengið 10% afslátt í vöruhúsi Kaupfélagsins. Ekki væri þetta í frásögur færandi nema fyrir þá staðreynd að nokkrum dögum síðar var þessi líka glæsilegi lampi kominn í gluggann á stofunni. Móðir mín blessuð var stolt af þessu nýja skrauti og sagði okkur frá því með andakt að hún hefð mátt til með að kaupa lampann til þess að missa ekki af afslættinum sem í boði var. Hún hefði tapað alveg gríðarlega ef þessi miði hefði ekki verið nýttur!!
Ég hef oft í tímans rás fengið þessa skemmtilegu hagfræði mömmu í kollinn og nú síðast þegar ég las pistil í Kjarnanum eftir hinn mæta mann Kolbein Óttarsson Proppé sem hann kallar Þegar Framsókn gaf Alcoa 120 milljarða. Þar heldur hann því fram að Alcoa greiði smánarlega lágt verð fyrir orkuna sem fyrirtækið kaupir af Landsvirkjun. Þessa fullyrðingu sína byggir hann á því að bera saman verð til Alcoa sem hann telur vera um 20 dollara á hverja megawattsstund ($/MWst) við það verð sem Landsvirkjun setti fram árið 2010 og kallaði viðmiðunarverð til stórnotenda. Viðmiðunarverð þetta er ekki í neinu samhengi við raunveruleikann á raforkumörkuðum heimsins í dag, eins og ég hef bent á í fyrri pistlum. Kolbeinn, sem ég fylgist með og les reglulega, kom mér hér verulega á óvart, því að vanalega er það sem frá honum kemur vel skrifað og ígrundað.
Verðþróun á mörkuðum í Kanada og Noregi er með þeim hætti að orkuverð þar er orðið lægra en hér á landi. Þá er tekið mið af meðalorkuverði Landsvirkjunar samkvæmt nýútgefnum ársreikningi þeirra fyrir árið 2015 en í þeim reikningi er meðalverðið 25,15 $/MWst.
Það er líka hægt að benda á glæsilega afkomu fyrirtækisins síðustu árin. Frá árslokum 2010 hefur Landsvirkjun greitt niður skuldir um 108 milljarða og fjárfest fyrir 80 milljarða til viðbótar. Fyrst of fremst fyrir mikinn hagnað af orkusölu til stóriðjunnar, þ.m.t. Alcoa-Fjarðaáls.
Klisjan um að stóriðjan á Íslandi sé að greiða allt of lítið fyrir orkuna er orðin nokkuð þreytt og lúin, og af einhverjum ástæðum notuð í áróðursskyni gegn álverunum. Þessi síbylja virðist enn vera tískuafbrigði þeirra sem ekki hafa fyrir því að kynna sér málin, auk þess að kenna stóriðjunni um alla mengun í landinu. Á bak við þetta eru ekkert nema innihaldslausir frasar sem hinn ágæti blaðamaðurinn hnýtur kylliflatur um að þessu sinni. Það hefur enn enginn gert samning sem er virkur við Landsvirkjun á svokölluðu viðmiðunarverði til stórnotenda. Ólíklegt er að svo verði í bráð miðað við þá þróun sem er á orkumörkuðum heimsins.
Blaðamaðurinn hefði betur varið tíma sínum í að skoða allan þennan stórfenglega hóp sem forstjóri Landsvirkjunar segir að bíði hér eftir orku. Ég held því fram að hann sé ekki til nema í mýflugumynd. Það er jú þannig í viðskiptum að oft er betra að hafa færri góða og trygga kaupendur en marga smáa sem eru misöruggir. Einnig er rétt að benda á í sambandi við Kárahnjúkavirkjun að ef mörg smærri fyrirtæki hefðu átt að nýta það afl, er ljóst að þau hefðu komið inn eitt af öðru yfir lengri tíma með tilsvarandi tekjutapi fyrir Landsvirkjun, en ekki öll samstundis líkt og gerist þegar samið er við einn stóran og öruggan kaupanda. Ljóst er að ef sú leið hefði verið valin, væri fjárhagur Landsvirkjunar umtalsvert veikari í dag. Verð til Landsvirkjunar, er umræða sem þarf að taka í stóru samhengi við þjóðarhag, skattaívilnanir og niðurgreiðslur ríkisins til þessara fyrirtækja.
Skoðum aðeins hvernig hefur gengið með þessa litlu fjölbreyttu samninga sem Landsvirkjun hefur kosið að gera upp á síðkastið. PCC á Bakka er t.d. með myndarlegann ívilnunarsamning sem étur upp allan ábata af hærra orkuverði. Kísilverin, sem reisa á í Helguvík, eru bæði í vandræðum með þær skuldbindingar sem búið var að skrifa undir varðandi lóðakaup og hafnargjöld. DV hefur fjallað um að annað þessara kísilvera hafi lagt inn falsaða pappíra til Umhverfisstofnunar þegar fyrirtækið sóttist eftir rekstrarleyfi. Heyrst hefur að fyrirhugað sólarkísilver á Grundartanga sé að hugleiða að fara í annað land vegna hagfelldari samninga. Gagnaverin, þau fáu sem hér eru, eru ríflega niðurgreidd af ríkinu í gegnum niðurgreidda gagnaflutninga um ljósleiðara-sæstrengi. Og skemmst er að minnast þess að fréttir voru af því að gagnaver svissneska athafnamannsins Giorgio Massarotto, sem kallast Ice-mine, stæði rafmagnslaust uppi á Ásbrú vegna vanskila, meðal annars á orkureikningum.
Til samanburðar er rétt að geta þess að Alcoa-Fjarðaál greiðir til Landsvirkjunar um 12 milljarða á ári vegna orkukaupa. Fyrirtækið skapar auk þess um 1.000 vel launuð störf á Austurlandi. Framkvæmdir sem tengjast álverinu hafa gjörbreytt mannlífinu til hins betra fyrir austan. Ég held að það sé ofrausn að þakka Framsókn það allt. Þess bera aðrar greinar mínar af Austurlandi sem birst hafa hér og innihalda myndbönd með viðhorfum Austfirðinga glöggt merki. Mikill meirihluti Austfirðinga var samstíga varðandi uppbygginguna fyrir austan. Baráttan var fyrst og fremst við kerfið og yfirburðafólkið sem lítinn skilning hafði á þörf landshlutans, en sterkar skoðanir á því hvað öðrum væri fyrir bestu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar