Laugardagur, 28. janúar 2017
Karp um ríkis- eða einkarekstur
Þær fréttir bárust í vikunni að Klíníkin í Ármúla hefði fengið leyfi embættis landlæknis til þess að reka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með fimm daga legudeild. Nokkur órói hefur myndast eftir þessa frétt þar sem átakalínurnar virðast vera ríkisrekstur eða einkarekstur.
Stéttarfélagið BSRB blandar sér meðal annarra í þessa umræðu. BSRB varar stjórnvöld við því að láta undan þrýstingi þeirra sem vildu einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu. Telja samtökin slíka einkavæðingu vera í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Ég veit ekki til þess að þjóðin hafi verið spurð.
Í mínum huga er þetta algerlega röng átakalína. Hvort um ríkisrekstur eða einkarekstur er að ræða er ekki það sem máli skiptir fyrir megin þorra landsmanna. Það sem skiptir máli eru frekar atriði eins og, þjónusta sé eins góð og mögulegt er. Að þeir efnameiri geti ekki í krafti auðs greitt til að komast framar á biðlistum. Að sama eða lægra verð sé greitt fyrir þjónustuna úr hinum sameiginlegu sjóðum okkar. Að öllum ráðum sé beitt til þess að biðlistar séu eins stuttir og frekast er unnt. Að læknar og starfsfólk hafi nýjustu og bestu tæki til að leysa úr þeim verkefnum sem þeirra bíða.
Mér finnst þetta skipta meira máli en hvort að ég fæ þjónustu úr einka- eða ríkisrekstri. Það felst ótrúlega mikil sóun í því að fólk, oft á besta aldri, skuli vera óvinnufært langtímum saman að bíða eftir því að komast í aðgerð. Úr því þarf að bæta.
Læknar þeir sem starfa á Klíníkinni Ármúla eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands sem sjálfstætt starfandi læknar. Sá samningur innifelur ekki þær aðgerðir sem kalla á innlögn sjúklinga í allt að fimm daga. Segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands í samtali við Morgunblaðið. Áður en hægt er að gera slíkan samning þarf ráðherra og ráðuneytið að gefa út sína afstöðu sem stefnumótandi aðili.
Þá vöktu athygli mína viðbrögð Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. Honum láðist alveg að geta þess að ef hægt er að fá sömu þjónustu á fleiri en einum stað þá eiga neytendur (sjúklingar) valkost Þeir geta þá leitað staðfestingar á sjúkdómsgreiningum og fengið nýja valkosti sem styðja erfiðar ákvarðanir. Jafnvel ákveðið hverjum þeir treysta best til þess að framkvæma á þeim aðgerð.
Páll telur að bæklunarsérgreinin verði veikari á Landspítalanum. Hann virðist þá vera að gefa sér að sérhæft starfsfólk hans vilji flytja sig frá Landspítala. Í augnablikinu finnst mér þessi rök halda illa en ég viðurkenni að mögulega vantar mig heildar yfirsýn í málaflokknum til þess að sjá þetta sömu augum og forstjórinn.
Ég hefði þó talið að ef Klíníkin í Ármúla gæti bæði faglega og efnahagslega létt af Landspítala ákveðnum þrýstingi þá bæri að fagna því. Við sem þjóð getum ekki leyft okkur eða sætt okkur við það ástand að átök um rekstrarform (ríkis- eða einkarekstur) verði að millustein um háls okkar í stað þess að tryggja með stefnumótandi löggjöf jafnræði og aðgengi án tillits til efnahags. því það er líkast til vilji þjóðarinnar.
Ríkisrekstur tryggir ekki frekar jafnræði í aðgengi án tillits til efnahags frekar en annað rekstrarform. Að halda því fram er blekking. Þjónustan við borgarana og jafnt aðgengi er það sem við eigum að horfa til og svo eigum við að fagna einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu sem eykur möguleika og þjónustu við borgaranna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. janúar 2017
Ný tækifæri á álmarkaði með markaðslegri aðgreiningu
Margt bendir til þess að ný og spennandi tækifæri séu að skapast í íslenskum orkuiðnaði. Álrisinn Alcoa sem er móðurfyrirtæki Fjarðaráls á Reyðarfirði lagði sérstaka áherslu á kolefnislágar vörur sem framleiddar eru fyrir austan á stærstu álsýningu heims, sem haldin var í Dusseldorf. Sérstök áhersla var lögð á ál sem framleitt er með vatnsorku og einnig á endurunnið ál.
Þetta eru nokkur tíðindi á markaði með ál. Það hefur verið nánast óþekkt hingað til að álframleiðendur aðgreini sig með kolefnisspori málmsins á markaði. í þessari aðgreiningu felast gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan útflutning á áli.
Hvergi í heiminum er ál framleitt með lægra kolefnisfótspori en hér á landi. Ef horft er til Kína þar sem álframleiðsla hefur verið í miklum vexti, þá er 90% áls framleitt með kolum og losun gróðurhúsalofttegunda því tífalt meiri en hér á landi. Ál er því ekki endilega það sama og ál.
Ef sú staða myndast á markaði að álnotendur í fjölbreyttum iðnaði sjá markaðsleg tækifæri í því að nota ál með lágu kolefnisfótspori, geta framleiðendur hér á landi mögulega fengið mun hærra verð fyrir afurðir sínar en almennt gerist í nánustu framtíð. Það styður þessar hugmyndir að á Vesturlöndum er almennur þrýstingur á kolefnislágar afurðir sífellt að aukast. Markaðir eru að stórum hluta tilbúnir að greiða eitthvað hærra verð fyrir vörur ef kolefnissporið er lægra.
Mikið framboð hefur verið á áli frá Kína síðustu mánuði. Þetta hefur valdið nokkurri lækkun á heimsmarkaðsverði. Sem svo þýðir fyrir okkur Íslendinga lægra verð fyrir raforkuna sem við seljum í framleiðsluna vegna tengingar álverðs við orkuverðið. Markaðsleg aðgreining á áli framleiddu hér á landi gæti gjörbreytt þessari stöðu.
Aðgreining er lykilþáttur í staðfærslu vörumerkja. Eitt af markmiðum aðgreiningar er að skapa eftirsóknarverða stöðu í hugum viðskiptavina og skapa þannig aukið eða viðbætt virði. Þar sem virðistilboð fyrirtækja felst í aðgreiningunni, er afar mikilvægt að hún sé í samræmi við þarfir þeirra markhópa sem fyrirtækið þjónar. Skynjun neytenda á Vesturlöndum um mikilvægi þess að takmarka kolefnisfótspor á sem flestum sviðum opnar hér áður óþekkt tækifæri.
Íslenskt ál með tíu sinnum lægra kolefnisfótspor en ál frá Kína hefur næga sérstöðu á markaði til aðgreiningar. Takist markaðssetning á þessum aðgreiningarþætti vel, er ekki ólíklegt að ál framleitt á Íslandi geti orðið að einhverju leiti ónæmt fyrir verðlækkunum á heimsmarkaði með ál í framtíðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. desember 2016
Af þýlyndi
Vissulega má taka undir með Ásgeiri Jónssyni deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafa Virðingar í grein sem hann ritar á vef Virðingar og kallar Það eru framfarir hygg ég að sé þar skrifar hann m.a. um þýlyndi þjóðarinnar. Oft á tímum erum við of leiðitöm og látum glepjast af alskonar trúboði um bættan hag og blóm í haga. Það hefur löngum verið einn helsti ljóður þjóðarinnar að vera leiðitöm og við erum lítið fyrir að spyrja erfiðra spurninga. Eitt besta dæmið um þýlyndið í þjóðarsálinni er aðdragandi bankahrunsins á árunum 2005 til 2008 þegar þjóðin trúði því staðfastlega að allir gætu orðið ríkir á því að kaupa og selja verðbréf nógu oft. Á þessum árum tókst áhættusæknum aðilum nánast að setja þjóðfélagið á endann. Þetta var gert með því að tala um hin glötuðu tækifæri og draga upp myndir af ofur bjartri framtíð þjóðarinnar.
Raunar er það nú svo að Ásgeir Jónsson var framkvæmdastjóri greiningardeildar Kaupþings á þessum árum fyrir hrun og átti sinn hlut í því að blekkja þjóðina með marklitlum spám. Ásgeir vill meina í þessum hugleiðingum sínum að umræða um mögulegan raforkusæstreng til Bretlands sýni klassísk einkenni framfarahaturs. Því mótmæli ég harðlega og bendi á þá staðreynd að ekki hafa verið lögð fram nein þau gögn sem gefa minnsta tilefni til þess að halda að af þessu verkefni geti myndast nokkur arður fyrir þjóðina. Efnahagslegar framfarir þjóðarinnar liggja ekki í þessum streng. Umræðan er kynnt áfram af Landsvirkjun og einstaka fjármálafyrirtækjum og ber með sér virðingarleysi fyrir þjóðinni og áhættusækni fyrir hennar hönd.
Það sem Landsvirkjun hefur lagt á borðið er villandi í meira lagi. Himinhátt orkuverð út af strengnum er ekki okkar mál, heldur hvað við fáum fyrir orkuna frá virkjun. Að virkja einungis 200 til 300 MW fyrir 1000 MW streng setur orkuöryggi landsins í uppnám. Vera má, að forstjóri Landsvirkjunar líti á stóriðjuverin sem risastór orkuver sem hann getur ráðskast með að vild, en þarna er fjöldi manns í hálaunastörfum og hann er að ráðskast með líf þeirra og afkomu.
Og hvar sér Ásgeir því stað, að tenging orkuverðs við álverð sé slæm fyrir okkur? Hann sér aðeins að við tökum á okkur áhættu álveranna, en sér ekki að við tökum líka þátt í hagnaði þeirra þegar vel gengur. Er betra að færa þessi tengingu inn á breska pundið.? Þar höfum við næga áhættu tengda fiskinum. Er betra að færa tenginguna yfir á orkuverð í Evrópu, sem sveiflast eins og olíuverð? Þar höfum við líka næga áhættu. Er ekki álverð eitt af því sem við þurfum að hafa í körfunni.
Umræðan snýst ekki um framfarahatur heldur þá staðreynd að þrátt fyrir að málið hafi verið í athugun árum saman hjá Landsvirkjun hefur hún ekki skilað neinum gögnum sem benda til þess að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt. Málið snýst ekki um hagfræðikenningar úr fullkomnum heimi, heldur um milliríkja viðskipti, þar sem hagsmunagæslan er fyrir öllu.
Ljóst er að tenging á raforkusæstreng muni hafa veruleg áhrif til hækkurnar á raforku fyrir bæði heimili og fyrirtæki. Hugmyndir Ásgeirs til þess að koma til móts við þessar hækkanir ganga út á einhverskonar endurdreyfingu á hagnaði annað hvort með beinum hætti eða í gegnum skattkerfið. Endurdreyfing á hagnaði er hugtak sem þjóðin hefur oft heyrt en bitur reynsla sýnir að sjaldnast er staðið við slík fyrirheit. Sífellt stjórnleysi og hagsmunagæsla hinna fáu í efnahagsstjórn landsins hefur verið þar orsakavaldur og ekkert bendir til þess að breyting verði þar á.
Skrif Ásgeirs koma á óvart og skýrt er að hann er að verja ákveðna hagsmuni með hugleiðingum sínum. Skrif hans eru yfirlætisleg og þar er talað er niður til þeirra sem hafa á þessum hlutum aðrar skoðanir en hann. Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir það fjármálafyrirtæki sem hugsanlega fengi það verkefni að fjármagna framkvæmdir bæði við strenginn og uppbyggingu á mannvirkjum honum tengdum. Hagsmunir sumra virðast því vera Ásgeiri hugleiknir en ekki hagsmunir fjöldans eða hagsmunir heildarinnar. Er það ekki það sem kallað hefur verið þýlyndi eða húsbóndahollusta?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 28. nóvember 2016
Rangfærslur um raforkusæstreng
Ég verð að viðurkenna að við hlustun á kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld sunnudaginn 27. nóvember 2016 rak mig í rogastans þegar ég heyrði fréttamanninn Þorbjörn Þórðarson segja um hugmyndir manna um lagningu raforkusæstrengs. Um er að ræða eitt stærsta viðskiptatækifæri sem íslenska ríkið hefur staðið frammi fyrir í mörg ár.
Ég veit ekki hvaðan Þorbjörn hefur upplýsingar um að hér felist eitt mesta viðskiptatækifæri ríkisins í áraraðir. Slíkar fullyrðingar eru fjarri öllum sanni.
Kvika fjárfestingarbanki í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Pöyry gerði fyrir skömmu síðan svokallaða kostnaðar og ábatagreiningu á þessu verkefni. Skýrslan er eitt ítarlegasta og heildstæðasta gagn sem aðgengilegt er um þetta verkefni. Hún var gefin út 12. júlí 2016.
Í þessari skýrslu kemur fram að mögulega geti verið um nokkurn ábata að ræða fyrir Íslenska þjóð. Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. þeim að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins. Mögulega gæti verið að ræða um 1,2 til 1,5% jákvæð áhrif á landsframleiðslu. En á þessum tölum eru verulegir fyrirvarar. Orðrétt segir í skýrslunni.
Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. þeim að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins á grundvelli stefnu um minnkun gróðurhúsalofttegunda, að nægjanlega margir orkukostir séu í boði á Íslandi og að samkomulag náist milli landanna um hagkvæmt viðskiptalíkan fyrir verkefnið.
Það er viðurkennt, að ef af þessu verkefni verður mun það orsaka hækkun að raforkuverði til almennings hér á landi. Talsmenn raforkusæstrengs hafa bent á að ríkið geti greitt niður orkuverð til almennings verði það of hátt. Það væri þá innlend niðurgreiðsla á verkefninu.
Í viðtali á Hringbraut sagði forstjóri Landsvirkjunar að verkefnið myndi ekki ná lágmarksarðsemi nema að fjárhagslegur stuðningur komi frá Bretum. Ég spyr er líklegt að Bretar ætli sér að styrkja þetta verkefni svo myndarlega að það verði alveg gríðarleg auðsöfnun á Íslandi? Ég held ekki.
Verkefnisstjórn sæstrengs sem skilaði af sér á miðju ári 2016 sérstakri skýrslu um viðræður við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands, en þær viðræður hófust í kjölfar fundar forsætisráðherra landanna í október 2015.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Kostnaðar- og ábatagreining á sæstreng til Bretlands leiðir í ljós að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum.
- Sæstrengur kallar á fjárfestingar í raforkuvinnslu upp á 1.459 MW af nýju uppsettu afli (samkvæmt mið-sviðsmynd). Þetta er ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjanna.
- Áætlað er að sæstrengur leiði til hækkunar á raforkuverði á bilinu 0,85 1,7 kr./kWst., sem er um 5-10% hækkun á raforkureikning meðalheimila.
- Bent er á að sæstrengur hefur í för með sér aukið orkuöryggi og mun geta uppfyllt um 2% af raforkunotkun í Bretlandi og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda þar. Á móti koma umhverfisáhrif vegna framkvæmda við uppbyggingu á nýrri orkuvinnslu á Íslandi.
- Til að geta fætt 1.000 MW sæstreng þarf mikla styrkingu á flutningskerfi raforku sem felst annað hvort í raforkuflutningsmannvirki yfir hálendið eða með aukinni styrkingu á núverandi byggðalínu.
- Á síðustu árum hefur orkustefna Evrópusambandsins þróast í þá átt að draga úr styrkjum til endurnýjanlegra orkugjafa, eftir því sem valkostir verða samkeppnishæfari. Sama má segja um stefnu breskra stjórnvalda. Kann það að hafa veruleg áhrif á fjárhagslegar forsendur verkefnisins.
Þeir sem hafa kynnt sér þetta mál ýtarlega sjá fljótt að verkefni sem er ekki sjálfbært nema helst bæði kaupandi og seljandi greiði með því getur vart talist vera eitt mesta viðskiptatækifæri ríkisins
Það er hinsvegar auðvelt að sjá að þeir sem verulegan hag hefðu af verkefni sem þessu væru fjárfestingarsjóðir og bankar sem koma að fjármögnun verkefnisins. Verkefnis sem mögulega gæfi umtalsvert hærri ávöxtun á fé, en aðrir kostir í boði á mörkuðum heimsins nú um stundir. Að sjálfsögðu á kostnað íslenskrar þjóðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. nóvember 2016
Þarf að hækka verð fyrir orku og orkuflutning?
Agnes Bragadóttir blaðamaður á Morgunblaðinu skrifar frétt í Morgunblaðið í dag 23. nóvember 2016 um líklega hækkun á raforkuverði til neytenda. En þrálátur orðrómur hefur verið um allt að 10% verðhækkun sé í pípunum. Greinin er að uppistöðu viðtal við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Bjarni lýsir því í greininni að hann eigi von á því að raforkuverð hækki um áramót. Skýringanna sé að leita í væntanlegum verðhækkunum Landsvirkjunar og Landsnets. Enn hefur Landsvirkjun ekki gefið neitt upp opinberlega um væntanlegar hækkanir. En Landsnet þegar tilkynnt um 13% hækkun á gjaldskrá. Það kom síðan fram í viðtali við Eirík Hjálmarsson upplýsingafulltrúa OR í Bítinu á Bylgjunni í morgun að væntanlega mundi hækkun Landsvirkjunar verða um 6%. Ljóst má þó vera á þessum ummælum að einhver umræða hefur farið fram um þetta milli aðila á orkumarkaði.
Forstjórinn nefnir þó sérstaklega í fréttinni að Veitur dreifingarfyrirtæki OR muni lækka taxta sína til þess að koma til móts við neytendur vegna væntanlegra hækkana Landsvirkjunar og Landsnets.
Þrátt fyrir þetta er hér á ferðinni, (gangi þessar hækkunar hugmyndir fram) enn ein atlaga opinberra stofnana og fyrirtækja að þeim samfélagssáttmála sem hér ætti að ríkja. Þetta er plagsiður sem hefur ávalt nokkur áhrif á veski hins almenna borgara.
Það að opinber fyrirtæki og fyrirtæki í eigu hins opinbera s.s. eins og Landsvirkjun og Landsnet, geti athugasemdalaust og án þess að nokkur bera á því pólitíska ábyrgð gengið fram með hækkanir á þeirri þjónustu sem þau veita, oft í skjóli sértækra laga, í fákeppni eða án raunverulegrar samkeppni á markaði. Er framganga sem á ekki að líðast.
Opinber fyrirtæki þurfa, ekki síður en hið opinbera, að skapa almennt traust um starfsemi sína. Ógagnsæi í opinberum rekstri veldur skorti á ábyrgð og aðhaldi. Er víst að þessi opinberu fyrirtæki ráðstafi fjármunum sínum með eins hagkvæmum og skilvirkum hætti og unnt er? Er það eðlilegt og sjálfsagt að Þessi fyrirtæki geti nánast þegar þeim þóknast hækkað gjaldskrár sínar til almennings? Opinber fyrirtæki ættu ef eitthvað er að ganga lengra en önnur til að tryggja trúverðugleika sinn með gagnsæi. En því er ekki fyrir að fara hér.
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi hefur bent á að í dag er verðbólga í landinu 1,8%. Þessi verðbólga er að mestu tilkomin vegna þenslu á húsnæðismarkaði og ef húsnæðisliður vísitölunnar yrði felldur niður líkt og Vilhjálmur hefur bent á að er mikið réttlætismál. Þá væri hér verðhjöðnun upp á um 0,5%.
Hækkanir umfram vísitöluþróun eru í tilfelli opinberra fyrirtækja ekkert annað en aukin skattheimta á þegnana. Sífelld þörf fyrir að sækja stöðugt meira fé getur líka skýrst af óreiðu í rekstri.
-----
Leiðrétting: Í morgun 24. nóvember 2016, kom opinberlega fram að Landsvirkjun hyggst lækka verðskrá sína um 2% til dreifiveitna en ekki hækka, eins og kom fram í máli Eiríks Hjálmarssonar á Bylgjunni og skrifað er um hér að ofan. Full ástæða er til þess að hrósa Landsvirkjun fyrir þetta skref. Vel gert!
Eftir stendur gagnrýnin hér að ofan og beinist þá að Landsneti og fyrirtækjum tengdum OR sem hyggjast hækka verð til neytenda.
Bloggar | Breytt 24.11.2016 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. nóvember 2016
Sá heimski heldur hvern mann heimskari sér
Hvað er að gerast í samfélaginu okkar? Í heimsmálunum og síðast en ekki síst hvað er að gerast í Ameríku þar sem þjóðin kaus sér nýjan þjóðhöfðingja fyrir nokkrum dögum. Við sem erum að silast yfir miðjan aldur erum alin upp í trú á lýðræðinu, trú á því að meirihluti í þýðinu hafi rétt á því að taka ákvarðanir í krafti meirihlutans fyrir okkur hin.
Það hefur orðið trúnaðarbrestur á milli almennings og þeirra sem hafa farið með vald meirihlutans. Ítrekað hefur verið farið illa með það umboð. Fólki misboðið, bæði af þeim sem valdið hafa og líka hinum sem hafa aðrar skoðanir.
Svo spila þeir sem telja sig vita alla hluti betur en aðrir mjög stórt hlutverk, í því að hræða venjulegt fólk frá því að taka þátt í eðlilegum samræðum um stjórnmál. Ef fólk vogar sér að hafa skoðanir er barið á þeim með yfirlýsingum um að einungis fávitar eða fordómafullir bjánar láti svona lagað út úr sér. Máltæki sem kemur upp í hugann segir Sá heimski heldur hvern mann heimskari sér
Hér á landi þykir fínt að dæma þá sem lýsa andstæðum skoðunum heimska, illa gefna og fordómafulla. Menn eru óupplýstir aumingjar, leigukjaftar, skítadreifarar, bara fyrir það eitt að hafa skoðanir sem einhverjum öðrum kunna að þykja rangar eða ekki réttlætanlegar. Þessi óbilgirni verður til þess að venjulegt fólk þorir ekki að tjá skoðanir sínar af ótta við þessi harkalegu viðbrögð. Viðbrögð sem sífellt oftar rata nú inn í fjölmiðla og þess vegna inn fyrir veggi heimilisins. Blessunin hún Gróa á Leiti hefur lengi verið samferða okkur Íslendingum. Það var pukrað í hornum og hvíslað á kaffistofum en skoðanir Gróu voru ekki fjölprentaðar og þeim dreift samviskusamlega inn um blaðalúgur hverfisins. Fjölmiðlar dagsins í dag hika ekki við að stunda svona vinnubrögð og taka þá gjarnan að sér hlutverk rannsakanda, ákæranda, dómara og böðuls allt í senn.
Þeir álitsgjafar sem mest hafa sig í frammi og hamast hvað mest á einstaklingum í stað þess að ræða málefnalega um málefnin eru algerlega á skjön við megin þorra landsmanna. Þessir álitsgjafar fæla fólk frá þeim skoðunum sem þeir eru að reyna að halda á lofti með málflutningi sínum. Megin þorri almennings hefur ekki áhuga á því að taka þátt í, eða styðja við málstað þar sem megin þungi málflutnings snýst um að tala niður aðra og þeirra skoðanir.
Fólk er óánægt með kerfið, embættismennina, stjórnmálamennina sem taka afstöðu með kerfinu en ekki fólkinu. Fólk er óánægt með fjármálakerfið sem heldur þúsundum fjölskyldna í heljargreipum. Það treystir ekki verkalýðsforystunni sem markvisst hefur tekið hagsmuni fjármagnsins fram yfir hagsmuni fólksins. Fólk vill stjórnmálamenn sem eru tilbúnir að fara á móti kerfinu, standa á skoðunum sínum. Alveg sama hvort þær eru til vinstri, hægri eða í miðjunni. Fólk vill málefnalega umræðu þar sem tekist er á um málefni en ekki menn. Fólk hefur sýnt að það er tilbúið að nota atkvæði sitt óhikað ef því mislíkar eitthvað.
Þetta er ástæða þess að Besti flokkur Jóns Gnarr var kjörin í sveitarstjórnarkosningum 2010, Þetta er ásæða kosningasigurs Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins 2013. Þetta er ástæða þess að Bretar kusu að fara úr Evrópusambandinu. Þetta er ástæða þess að Donald Trump var kjörin forseti Bandaríkjanna fyrir nokkrum dögum.
Þegar í kjörklefann er komið kýs hin venjulegi einstaklingur með veskinu sínu og því hvað hann telur að mestu skipti fyrir sig og sína. Þess vegna vegnar þeim verr sem verja kerfið frekar en fólkið. Álitsgjafar sem sífellt úthúða þeim sem eru annarrar skoðunar missa trúverðugleika og ýta fólki að þeim sem kjósa að ræða málefni. Þess vegna komu VG og Sjálfstæðisflokkur betur út en aðrir starfandi þingflokkar í nýliðnum kosningum. Málflutningur formanna þessara flokka var málefnalegur þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á.
Sá sem hér skrifar er ekki saklaus af því að hafa farið offari á lyklaborðinu af og til. En atburðir síðustu vikna hafa þvingað mig til þess að horfast í augu við eign gerðir. Fengið mig til þess að endurmeta það hvernig ég nálgast það sem ég er að fást við á hverjum tíma. Vonandi vakna ég örlítið jákvæðari og umburðarlyndari maður á morgun en ég var í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. október 2016
Hvar er orkustefnan?
Það hefur vakið nokkra undrun hjá undirrituðum að nánast undantekningarlaust er ekki að finna neina heildstæða stefnu í orkumálum þjóðarinnar hjá þeim flokkum sem eru að bjóða fram í komandi alþingiskosningum.
Jú jú einhverjir eru á því að skoða eigi hagkvæmni þess að flytja út orku þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að það geti verið arðbært. Einhverjir leggjast gegn þessum hugmyndum. En mikið lengra nær það ekki.
Ekkert bólar á heildstæðri orkustefnu fyrir landið. Það er þekkt að raforkuverð er talið hafa umtalsverð áhrif á hagvöxt og uppgang. Hagkvæmt verð á raforku er hvati til nýsköpunar og uppbyggingar. Með sama hætti liggur fyrir að hátt orkuverð hefur öfug áhrif. Þolmörk gagnvart verðhækkunum raforku hér á landi liggja ekki fyrir, en reikna má með ruðningsáhrifum og hægari uppbyggingu almenns iðnaðar auk umtalsverðra áhrifa á nýsköpun. Með háu orkuverði er viðbúið er að atvinnugreinar eins og t.d. ræktun með lýsingu í gróðurhúsum muni draga saman seglin og svo kann að vera með fleiri orkuríkar framleiðslugreinar.
Heimilin í landinu eru svo háð raforku að þau borga hvað sem er fyrir hana, en hækkun kann að raska búsetuskilyrðum. Lágur orkureikningur hér heima á Fróni er án nokkurs vafa eitt af því sem dregur brottflutta Íslendinga aftur heim á klakann. Er lykilatriði í samkeppnishæfni landsins þegar ungt fólk vegur og metur kosti og galla þess að snúa heim á ný að námi loknu.
Núverandi stjórnendur Landsvirkjunar hafa formað og eru að innleiða nýja stefnu fyrir félagið sem engin pólitíkus virðist þora að tjá sig um. Landsvirkjun með forstjórann í fararbroddi hefur opinberlega sagst ætla að bæta lífskjör í landinu með því að greiða ríkissjóði 10 til 20 milljarða í arðgreiðslur árlega. Hljómar ágætlega en þegar nánar er skoðað kemur í ljós að Landsvirkjun stefnir að því að álögur á heimili landsins vegna raforkukaupa hækki um tugi milljarða árlega. Þetta gerist vegna hugmynda fyrirtækisins um lagningu raforkusæstrengs sem mundi hafa í för með sér umtalsverðar hækkanir á orkureikning hvers einasta heimilis og fyrirtækis í landinu. Þannig á að hverfa frá þeirri stefnu að láta stóriðjuna á Íslandi greiða fyrir uppbyggingu raforkukerfisins og tryggja neytendum þannig besta mögulega verð á hverjum tíma. Skilvirkast væri líkast til að leggja öll áform um beinan útflutning raforku á hilluna. Þannig gefst svigrúm til þess að lækka enn frekar raforkuverðið til heimila, landbúnaðar og iðnaðar á almennum gjaldskrám.
Jóhanna og Steingrímur gerðu ekkert til þess að stöðva þessa þróun og núverandi stjórnarflokkar hafa ekki heldur beitt sér í þessu máli. Heldur flotið sofandi áfram stefnulaust án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum þeirrar alþjóðastefnu sem verið er að innleiða hér á raforkumarkaði.
Stærð auðlindarinnar er takmörkuð, sérstaklega af tveim kostnaðarþáttum, sem eru verndargildi og virkjunarkostnaður. Ef helmingur biðflokks í rammaáætlun fer í nýtingarflokk eigum við ekki eftir að virkja nema um 11 TWh/ár af auðlindinni, sem er um helmingur núverandi raforkunotkunar á landinu. Sú tálsýn að hér sé orka í óþrjótandi mæli er því ekki rétt.
Það er því sérlega mikilvægt að Alþingi og eða ríkisstjórn setji fram eigendastefnu fyrir fyrirtækið Landsvirkjun og marki orkustefnu fyrir landið til lengri tíma. Af þeim sökum er auglýst eftir orkustefnu þeirra framboða sem hafa gefið kost á sér í komandi Alþingiskosningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 16. október 2016
Skjótum fyrst og spyrjum svo
Í vikunni sem leið bárust fréttir af því að stofnað hefði verið málsóknarfélag í þeim tilgangi að krefjast þess fyrir dómi að rekstrarleyfi fiskeldisfyrirtækisins Arnarlax sem gefið var út síðasta vor verði fellt úr gildi. Málið er höfðað bæði gegn fyrirtækinu og Matvælastofnun sem er sá aðili sem gaf út rekstrarleyfið. Það er hópur hagsmunaaðila sem stendur saman að þessu málsóknarfélagi.
Það vakti athygli mína að ástæður málsóknarinnar eru tvær. Aðilarnir sem að málsóknarfélaginu standa telja að formlegir og efnislegir ágallar séu á því ferli sem leiddi til útgáfu rekstrarleyfisins annarsvegar og svo hitt að þessir aðilar telja að með þessari starfsemi sé brotið gegn hagsmunum þeirra. Rökin fyrir því eru að ef eldislax sleppur úr sjókvíum fyrirtækisins geti strokulaxinn valdið tjóni á náttúrulegum laxastofnum. Jafnvel í verulegri fjarlægð.
Lögmaður málsóknarfélagsins Jón Steinar Gunnlaugsson segir að endanlegir efnisþættir málsins muni koma fram þegar málið verður þingfest sem að hann væntir að verði fyrir mánaðarlok.
Fyrra atriðið sem byggt er á snýr að formlegum og efnislegum ágöllum á því ferli sem leiddi til útgáfu rekstrarleyfisins. Þetta vekur upp spurningar um getu embættismannakerfisins til þess að annast þessi mál með lögformlegum hætti. Skemmst er að minnast þess að nú fyrir nokkrum dögum var sveitarstjórn Skútustaðahrepps gerð afturreka með framkvæmdaleyfi vegna línulagnar frá Kröflusvæðinu. Í þessu tilfelli er um embættismenn á vegum Matvælastofnunar að ræða. Mikilvægi þess að fólk geti treyst því að embættismannakerfið sé skilvirkt en á sama tíma heiðarlegt er afar mikilvægt okkur öllum. Því þarf að vera víst að lögformleg ferli séu virt. Ófært er með öllu fyrir atvinnulífið að ítrekað séu afgreidd mál tekin upp vegna formgalla.
Seinna atriðið sem byggt er á hefur valdið mér nokkrum heilabrotum. En svo virðist að Hagsmunaaðilar sem eiga talsvert undir í sölu veiðileyfa telji brotið gegn hagsmunum sínum. Hugsanlega mögulega gætu norskir laxfiskar sloppið úr sjókvíum og valdið þessum hagsmunaaðilum tjóni. Töpuðum tekjum þ.e. ef það verður eitthvað tjón sem á engan hátt er öruggt.
Nú er rétt að ítreka það að sá sem þetta skrifar er ekki löglærður maður. En að byggja kröfu sína á óhöppum sem hugsanlega geta orðið í fyrirsjáanlegri framtíð hljómar einkennilega. Erum við þá ekki farin að skjóta fyrst og spyrja svo?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. september 2016
Framsókn og fjölmiðlasirkusinn
Undirritaður hefur verið á ferð erlendis síðustu vikur og því ekki haft tækifæri til þess að fylgjast með fréttum að heiman með jafn reglulegum hætti og venjur hversdagsins bjóða. Í gær (sunnudag) gafst stund til þess að kíkja á nokkra netmiðla og taka stöðuna.
Á forsíðu mbl.is voru hvorki fleiri né færri en 11 fréttir sem snérust um bræðravígin í Framsóknarflokknum. Á Vísi og DV var þetta svipað en ég taldi því miður ekki þar.
Núna rétt rúmum mánuði fyrir kosningar þegar pólitísk umræða á að vera í hámæli. Stefnumál flokkanna dregin fram og línur skerptar á milli mismunandi valkosta kemst þessi sjálfsagða og eðlilega umræða ekki að vegna áhuga fjölmiðla á því sem er að gerast innanflokks hjá Framsókn.
Ég velti fyrir mér hvort hlutverk fjölmiðla hafi breyst svo mikið að þeir hafi engan áhuga á því að tala um það sem skiptir máli heldur kjósi frekar að ræða það sem getur vakið meiri athygli, mælst betur í rafrænum mælingum dagsins. Hvað svo sem svarið kann að vera er ljóst að mikill skortur er á faglegri pólitískri umræðu. Nokkrir dagar í burtu hafa fengið mig til þess að velta því fyrir mér hvort það sé í raun þannig að fjölmiðlar landsins eru ítrekað farnir að skapa atburðarásina. Í stað þess að skýra fyrir neytendum sínum hvað er að gerast, dikta þeir gjarnan upp hluti byggða á eigin pólitískum skoðunum og reyna að skapa umræður um það.
Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja ef einkareknir miðlar endurspegla að einhverju leiti skoðanir eigenda sinna. Þannig er það bara og verður. Alvarlegra er þegar miðlar í eigu ríkisins endurspegla persónulegar skoðanir þeirra sem þar starfa. En það hefur ítrekað gerst með afgerandi hætti síðustu vikur. Hugmyndir um að RÚV eigi að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða, hafa tæpast verið hafðar í heiðri.
Ég skil reyndar að nokkru leiti áhuga fjölmiðla á Framsóknar sápuóperunni sem þjóðinni er boðið upp á í fjölmiðlum þessa dagana. Ég man bara ekki eftir að það hafi áður gerst í sögu þjóðarinnar að sitjandi forsætisráðherra komi fram í viðtali og lýsi sjálfan sig ómerking orða sinna.
Maðurinn hafði áður mætt í viðtöl og lýst skoðunum sínum á fumlausan og ákveðinn hátt. Sjá dæmi hér. Nú kemur hann fram fyrir alþjóð og segir eitthvað allt annað.
Stjórnmál snúast um traust og heilindi. Við sem höfum rétt á því að kjósa reynum að leggja atkvæði okkar til þeirra sem við treystum helst til þess að vinna okkar hugmyndum og hugsjónum brautargengi. Jú jú svo vitum við að stjórnmál snúast um málamiðlanir. Engir fá allt sitt. En þegar aðilar sem óska eftir trausti samflokksmanna sinna koma fram og lýsa því í viðtali að þeir séu ómerkir orða sinna, á sama tíma og þeir óska eftir stuðningi samflokksmanna, þá er eitthvað orðið verulega skakkt og bogið.
Er nema von að fjölmiðlasirkusinn hafi gaman af þessu rugli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. ágúst 2016
Rangt að taka RÚV af auglýsingamarkaði
Krafan um að RÚV verði tekin af auglýsingamarkaði hefur tekið nýtt flug síðustu daga. Stjórnendur nokkurra af þeim frjálsu ljósvakamiðlum sem hér starfa tóku sig saman og skrifuðu í fréttablaðið sameiginlega grein þar sem þessi krafa þeirra er sett fram og rökstudd. Það eru þau Arnþrúður Karlsdóttir, fyrir hönd Útvarps Sögu, Ingvi Hrafn Jónsson, fyrir hönd ÍNN, Orri Hauksson, fyrir hönd Símans, Rakel Sveinsdóttir, fyrir hönd miðla Hringbrautar, Sævar Freyr Þráinsson, fyrir hönd 365 miðla sem sameiginlega setja fram áskorun á ráðherra og Alþingi.
Áður en lengra er haldið vill ég taka það fram að ég er í prinsippinu sammála því að það er rangt gefið á þessum markaði en aðgerðir til þess að laga þessa skekkju mega ekki gera slæmt ástand verra.
Það er svolítið skrítið að sjá þessa aðila sem greinina rita, saman í þessu samhengi þar sem hagsmunir þeirra eru mjög ólíkir. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeirri staðreynd að rekstur smárra eininga eins og ÍNN, Hringbrautar og Sögu er mjög þungur og því vel skiljanlegt að þessir aðilar horfi til þess fjármagns sem RÚV tekur inn í gegnum sölu auglýsinga. Ég er hinsvegar nokkuð viss um að brottnám RÚV af þessum markaði mundi hafa mjög takmörkuð áhrif til góðs á þessa miðla og jafnvel gera stöðu þeirra verri.
Ef við skoðum þetta frá sjónarhóli þeirra sem framleiða og kaupa pláss á fjölmiðlum fyrir auglýsingar, blasir við að engin af þeim miðlum sem undir kröfuna skrifa geta gagnast auglýsendum með sama hætti og RÚV gerir fyrir ákveðna hópa í þjóðfélaginu.
Auglýsendur á landinu eru flestir mjög faglegir þegar þeir ákveða hvernig þeir ætla að birta efnið sitt. Þeir velja sér markhóp sem þeir eru að höfða til og út frá því er gerð áætlun um birtingar í miðlum, þar eru sett fram markmið um bæði dekkun (hve margir í markhópnum koma til með að sjá auglýsinguna) og tíðni (hversu oft). Allt unnið eftir nýjustu áhorfsmælingum á hverjum tíma og reiknað niður í birtingu á hvern áhorfenda sem auglýsinguna sér. Brottnám RÚV af auglýsingamarkaði mundi takmarka verulega möguleika flestra fyrirtækja á auglýsingamarkaði að ná markmiðum sínum varðandi dekkun og tíðni til ákveðinna markhópa.
Það er mjög áhugavert að skoða auglýsingamarkaðinn á Íslandi í stóru samhengi (sjónvarp, útvarp, prent og net) . Þá blasir við að 365 miðlar eru núþegar með markaðsráðandi stöðu eða um 50% heildarhlutdeild. Brotthvarf RÚV af þessum markaði mundi skekkja þessa mynd enn frekar og gera hinum smærri enn erfiðar fyrir. Alsendis óvíst er að nokkuð af auglýsingafé RÚV mundi skila sér til smærri miðlanna. Hinsvegar er ljóst að hinir stærri á markaði mundu fara vel yfir 50% hlutdeild sem gerir skekkjuna á markaðnum enn verri.
Svo þegar skoðað er hvernig kaupin gerast á eyrinni þá verður þessi skekkja enn meiri. 365 miðlar stunda það grimmt að bjóða á markaðnum heildstæðar lausnir þar sem auglýsendum eru boðnar í einum pakka framleiðsla auglýsinga og birtingaáætlun í öllum miðlum félagsins þ.m.t. ritstjórnarleg aðkoma í miðlana s.s. loforð um viðtöl og umfjallanir. Heildstæðar lausnir sem þessar eru álitlegar fyrir þá aðila sem hafa ekki næga faglega þekkingu og eða aðgang að gögnum til þess að reikna hvaða samsetning skilar mestum árangri. Að sama skapi eru lausnir sem þessar verulega samkeppnishamlandi fyrir aðra smærri aðila á auglýsingamarkaði.
Hvað er til ráða?
Í ljósi stöðunnar og þess að RÚV hefur verið leiðandi í verðlagningu á þessum markaði held ég að réttast væri að hafa RÚV áfram á auglýsingamarkaði. Hækka verðskrá RÚV á auglýsingum verulega og loka á þann möguleika að hægt sé að bjóða verð þeirra niður. Það gefur öðrum á þessum markaði aukið rými til athafna. Það er of lítill munur á verði auglýsinga sem veldur því að auglýsendur kjósa oftar en ekki að auglýsa fyrir alla í stað þess að miða betur á markhópa sína í gegnum fjölbreytta flóru mismunandi miðla.
Að öðru leiti vill undirritaður taka undir þau sjónarmið sem þessir ágætu stjórnendur settu fram í grein sinni. Íslenskir fjölmiðlar, auk þess að vera í innbyrðis samkeppni eru í beinni samkeppni við flóð erlendra fjölmiðla sem búa við allt annað og hagkvæmara lagaumhverfi í mörgum tilfellum. Það er auðvelt fyrir ráðherra og Alþingi að jafna þann leik. Slíkt á að gera strax!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar