19.6.2008 | 13:19
Olíusukk !
Nú er blessað bensínið komið í rúmlega 173 krónur og enn hækkar dropinn. þetta gerist þrátt fyrir að verð á heimsmarkaði virðist heldur vera að gefa eftir. Hún féll til að mynda um 2 dollara tunnan á heimsmarkaði þjóðhátíðardaginn 17. júní. Ég skutlaðist að sjálfsögðu út á næstu bensínstöð undir hádegi daginn eftir (þann 18. ) og átti að sjálfsögðu von á því að olíufélögin okkar, sem eru jú í bullandi samkeppni mundu nýta sér þessa lækkun jafn hratt og þau hafa nýtt sér hækkanir á heimsmarkaði undanfarnar vikur.
Það var öðru nær, ég held að reiknilíkön olíufélags manna geti bara reiknað verð upp. Alla vega eru takkarnir illa fastir (líklega lítið notaðir) þegar reikna á verðið niður. Enn bíð ég og bíð, og ekkert gerist.
Þetta hefur leitt hugann að álagningu olíufélaganna. Samkvæmt upplýsingum frá FÍB sem að fylgist með þessari verðþróun daglega, virðist svo sem olíufélögin verið að hækka álagningu sína síðustu daga. (mælt í krónum á hvern seldan lítra) Bingó þar er komin skýringin á því að engin lækkun varð þann 18.
Svigrúm þessara félaga til þess að lækka álagningu sína er líkast til ekki mikil. Glitnir situr uppi með Skeljung eftir að hafa tryggt söluna á félaginu. Þar þurfa menn jú ávöxtun á sitt pund. N1 og Olís fóru bæði nýlega í gegnum eigenda skipti þar sem í báðum tilfellum var um skuldsetta yfirtöku að ræða. Þannig að ekki er svigrúmið mikið þar. Það er samt verulegt áhyggjuefni ef þessi félög með verðsamráði sínu hækka álagningu sína á þeim tíma þegar þjóðin þarf að fá fram lækkanir.
Það er mikilvægt að muna í þessu samhengi að púkinn sem fitnar mest á þessu ástandi er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Því þrátt að bensíngjald ríkisins sé föst krónutala þá er ríkið líka að taka vörugjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskatt af hverjum bensín lítra. Öll þessi gjöld eru hlutfalls reiknuð þannig að með hækkandi verði verður hlutur ríkisins hærri.
Það er merkilegur fjandi að einu tillögurnar sem sést hafa frá ráðherranum gera ráð fyrir auknum álögum á eldsneyti. Já gott fólk það stendur til að bæta við enn einum gjaldflokki á eldsneyti og kalla það kolefnisgjald. Hversu langt er hægt að leyfa ríkinu að halda áfram á þessari braut skattpíningar?
Að lokum þetta, ég hlustaði á Pétur Blöndal í morgun en hann var að tjá sig í morgunútvarpi Bylgjunnar. Hann vildi ekki slá af álögum á eldsneyti þar sem að hann óttaðist að það yrði þensluhvetjandi. Ég er nú yfirleitt hrifin af málflutningi Péturs en hvað þetta varðar er ég honum ósammála, hátt orkuverð er farið að hefta eðlilega starfsemi. Með röksemdafærslu í þessum dúr er hægt að sýna fram á að feitt fólk skapar þenslu. Það notar meira af auðlindum og þarf meiri þjónustu, ergó það er þensluhvetjandi.
Um bloggið
Viðar Garðarsson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.