Mánudagur, 12. desember 2016
Af þýlyndi
Vissulega má taka undir með Ásgeiri Jónssyni deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafa Virðingar í grein sem hann ritar á vef Virðingar og kallar Það eru framfarir hygg ég að sé þar skrifar hann m.a. um þýlyndi þjóðarinnar. Oft á tímum erum við of leiðitöm og látum glepjast af alskonar trúboði um bættan hag og blóm í haga. Það hefur löngum verið einn helsti ljóður þjóðarinnar að vera leiðitöm og við erum lítið fyrir að spyrja erfiðra spurninga. Eitt besta dæmið um þýlyndið í þjóðarsálinni er aðdragandi bankahrunsins á árunum 2005 til 2008 þegar þjóðin trúði því staðfastlega að allir gætu orðið ríkir á því að kaupa og selja verðbréf nógu oft. Á þessum árum tókst áhættusæknum aðilum nánast að setja þjóðfélagið á endann. Þetta var gert með því að tala um hin glötuðu tækifæri og draga upp myndir af ofur bjartri framtíð þjóðarinnar.
Raunar er það nú svo að Ásgeir Jónsson var framkvæmdastjóri greiningardeildar Kaupþings á þessum árum fyrir hrun og átti sinn hlut í því að blekkja þjóðina með marklitlum spám. Ásgeir vill meina í þessum hugleiðingum sínum að umræða um mögulegan raforkusæstreng til Bretlands sýni klassísk einkenni framfarahaturs. Því mótmæli ég harðlega og bendi á þá staðreynd að ekki hafa verið lögð fram nein þau gögn sem gefa minnsta tilefni til þess að halda að af þessu verkefni geti myndast nokkur arður fyrir þjóðina. Efnahagslegar framfarir þjóðarinnar liggja ekki í þessum streng. Umræðan er kynnt áfram af Landsvirkjun og einstaka fjármálafyrirtækjum og ber með sér virðingarleysi fyrir þjóðinni og áhættusækni fyrir hennar hönd.
Það sem Landsvirkjun hefur lagt á borðið er villandi í meira lagi. Himinhátt orkuverð út af strengnum er ekki okkar mál, heldur hvað við fáum fyrir orkuna frá virkjun. Að virkja einungis 200 til 300 MW fyrir 1000 MW streng setur orkuöryggi landsins í uppnám. Vera má, að forstjóri Landsvirkjunar líti á stóriðjuverin sem risastór orkuver sem hann getur ráðskast með að vild, en þarna er fjöldi manns í hálaunastörfum og hann er að ráðskast með líf þeirra og afkomu.
Og hvar sér Ásgeir því stað, að tenging orkuverðs við álverð sé slæm fyrir okkur? Hann sér aðeins að við tökum á okkur áhættu álveranna, en sér ekki að við tökum líka þátt í hagnaði þeirra þegar vel gengur. Er betra að færa þessi tengingu inn á breska pundið.? Þar höfum við næga áhættu tengda fiskinum. Er betra að færa tenginguna yfir á orkuverð í Evrópu, sem sveiflast eins og olíuverð? Þar höfum við líka næga áhættu. Er ekki álverð eitt af því sem við þurfum að hafa í körfunni.
Umræðan snýst ekki um framfarahatur heldur þá staðreynd að þrátt fyrir að málið hafi verið í athugun árum saman hjá Landsvirkjun hefur hún ekki skilað neinum gögnum sem benda til þess að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt. Málið snýst ekki um hagfræðikenningar úr fullkomnum heimi, heldur um milliríkja viðskipti, þar sem hagsmunagæslan er fyrir öllu.
Ljóst er að tenging á raforkusæstreng muni hafa veruleg áhrif til hækkurnar á raforku fyrir bæði heimili og fyrirtæki. Hugmyndir Ásgeirs til þess að koma til móts við þessar hækkanir ganga út á einhverskonar endurdreyfingu á hagnaði annað hvort með beinum hætti eða í gegnum skattkerfið. Endurdreyfing á hagnaði er hugtak sem þjóðin hefur oft heyrt en bitur reynsla sýnir að sjaldnast er staðið við slík fyrirheit. Sífellt stjórnleysi og hagsmunagæsla hinna fáu í efnahagsstjórn landsins hefur verið þar orsakavaldur og ekkert bendir til þess að breyting verði þar á.
Skrif Ásgeirs koma á óvart og skýrt er að hann er að verja ákveðna hagsmuni með hugleiðingum sínum. Skrif hans eru yfirlætisleg og þar er talað er niður til þeirra sem hafa á þessum hlutum aðrar skoðanir en hann. Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir það fjármálafyrirtæki sem hugsanlega fengi það verkefni að fjármagna framkvæmdir bæði við strenginn og uppbyggingu á mannvirkjum honum tengdum. Hagsmunir sumra virðast því vera Ásgeiri hugleiknir en ekki hagsmunir fjöldans eða hagsmunir heildarinnar. Er það ekki það sem kallað hefur verið þýlyndi eða húsbóndahollusta?
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.