Mánudagur, 28. nóvember 2016
Rangfærslur um raforkusæstreng
Ég verð að viðurkenna að við hlustun á kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld sunnudaginn 27. nóvember 2016 rak mig í rogastans þegar ég heyrði fréttamanninn Þorbjörn Þórðarson segja um hugmyndir manna um lagningu raforkusæstrengs. Um er að ræða eitt stærsta viðskiptatækifæri sem íslenska ríkið hefur staðið frammi fyrir í mörg ár.
Ég veit ekki hvaðan Þorbjörn hefur upplýsingar um að hér felist eitt mesta viðskiptatækifæri ríkisins í áraraðir. Slíkar fullyrðingar eru fjarri öllum sanni.
Kvika fjárfestingarbanki í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Pöyry gerði fyrir skömmu síðan svokallaða kostnaðar og ábatagreiningu á þessu verkefni. Skýrslan er eitt ítarlegasta og heildstæðasta gagn sem aðgengilegt er um þetta verkefni. Hún var gefin út 12. júlí 2016.
Í þessari skýrslu kemur fram að mögulega geti verið um nokkurn ábata að ræða fyrir Íslenska þjóð. Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. þeim að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins. Mögulega gæti verið að ræða um 1,2 til 1,5% jákvæð áhrif á landsframleiðslu. En á þessum tölum eru verulegir fyrirvarar. Orðrétt segir í skýrslunni.
Niðurstaðan er háð ýmsum forsendum, m.a. þeim að Bretar veiti umtalsverðan fjárhagslegan stuðning til verkefnisins á grundvelli stefnu um minnkun gróðurhúsalofttegunda, að nægjanlega margir orkukostir séu í boði á Íslandi og að samkomulag náist milli landanna um hagkvæmt viðskiptalíkan fyrir verkefnið.
Það er viðurkennt, að ef af þessu verkefni verður mun það orsaka hækkun að raforkuverði til almennings hér á landi. Talsmenn raforkusæstrengs hafa bent á að ríkið geti greitt niður orkuverð til almennings verði það of hátt. Það væri þá innlend niðurgreiðsla á verkefninu.
Í viðtali á Hringbraut sagði forstjóri Landsvirkjunar að verkefnið myndi ekki ná lágmarksarðsemi nema að fjárhagslegur stuðningur komi frá Bretum. Ég spyr er líklegt að Bretar ætli sér að styrkja þetta verkefni svo myndarlega að það verði alveg gríðarleg auðsöfnun á Íslandi? Ég held ekki.
Verkefnisstjórn sæstrengs sem skilaði af sér á miðju ári 2016 sérstakri skýrslu um viðræður við bresk stjórnvöld um hugsanlegan sæstreng milli Íslands og Bretlands, en þær viðræður hófust í kjölfar fundar forsætisráðherra landanna í október 2015.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Kostnaðar- og ábatagreining á sæstreng til Bretlands leiðir í ljós að verkefnið nær ekki lágmarksarðsemi nema til komi beinn stuðningur frá breskum stjórnvöldum.
- Sæstrengur kallar á fjárfestingar í raforkuvinnslu upp á 1.459 MW af nýju uppsettu afli (samkvæmt mið-sviðsmynd). Þetta er ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjanna.
- Áætlað er að sæstrengur leiði til hækkunar á raforkuverði á bilinu 0,85 1,7 kr./kWst., sem er um 5-10% hækkun á raforkureikning meðalheimila.
- Bent er á að sæstrengur hefur í för með sér aukið orkuöryggi og mun geta uppfyllt um 2% af raforkunotkun í Bretlandi og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda þar. Á móti koma umhverfisáhrif vegna framkvæmda við uppbyggingu á nýrri orkuvinnslu á Íslandi.
- Til að geta fætt 1.000 MW sæstreng þarf mikla styrkingu á flutningskerfi raforku sem felst annað hvort í raforkuflutningsmannvirki yfir hálendið eða með aukinni styrkingu á núverandi byggðalínu.
- Á síðustu árum hefur orkustefna Evrópusambandsins þróast í þá átt að draga úr styrkjum til endurnýjanlegra orkugjafa, eftir því sem valkostir verða samkeppnishæfari. Sama má segja um stefnu breskra stjórnvalda. Kann það að hafa veruleg áhrif á fjárhagslegar forsendur verkefnisins.
Þeir sem hafa kynnt sér þetta mál ýtarlega sjá fljótt að verkefni sem er ekki sjálfbært nema helst bæði kaupandi og seljandi greiði með því getur vart talist vera eitt mesta viðskiptatækifæri ríkisins
Það er hinsvegar auðvelt að sjá að þeir sem verulegan hag hefðu af verkefni sem þessu væru fjárfestingarsjóðir og bankar sem koma að fjármögnun verkefnisins. Verkefnis sem mögulega gæfi umtalsvert hærri ávöxtun á fé, en aðrir kostir í boði á mörkuðum heimsins nú um stundir. Að sjálfsögðu á kostnað íslenskrar þjóðar.
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.