Að ráðskast með hagsmuni almennings

Í Viðskiptablaðinu sem kom út nú fyrir nokkrum dögum var nokkuð ítarlegt viðtal við Hörð Arnarsson, forstjóra Landsvirkjunar. Í viðtalinu segir hann óðum styttast í að Landsvirkjun geti farið að borga eiganda sínum, íslenska ríkinu, umtalsverðar arðgreiðslur.

„Við stefnum mjög eindregið í þá átt. Þegar við þurfum ekki að borga niður skuldir frekar,  þá geta arðgreiðslurnar orðið það háar að þær munu hafa umtalsverð áhrif á lífskjörin í landinu. Ef við horfum á þá rúmu 100 milljarða sem farið hafa í niðurgreiðslu lána og að við fjárfestum á sama tíma fyrir 90 milljarða, þá er það fjármunamyndun upp á 190 milljarða. Þegar við hættum að þjóna lánadrottnum og getum farið að þjóna eigandanum, þá eru þetta fjárhæðir sem geta haft verulega jákvæð áhrif á samfélagið. Þegar fram líða stundir tel ég að fyrirtækið geti hæglega greitt arð upp á 10 til 20 milljarða króna á ári. Ég tel að arðgreiðslurnar byrji að aukast eftir tvö til þrjú ár.” 

Mikilvægt er að halda því til haga að Landsvirkjun hefur einarðlega unnið að því að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Bretlands til að tengja Ísland við raforkumarkaðinn í Evrópu. Í fyrrgreindu viðtali láist að nefna þau áhrif sem möguleg tenging Landsvirkjunar við Evrópumarkað í gegnum raforkusæstreng mun hafa á lífskjörin í landinu.

Öllum ber saman um að raforkuverð hér til heimila landsins mundi hækka til samræmis við það sem gengur og gerist á Evrópumarkaði, ef af sæstrengshugmyndum verður. Reyndar hefur Landsvirkjun ítrekað lýst því yfir að óhjákvæmilegt sé að raforkuverð hér á landi hækki til samræmis við það sem er í löndunum í kringum okkur.

Þreföld hækkun á orkuútgjöldum heimila

Hvað þýðir þetta í raun fyrir heimilin í landinu? Unnt er að nálgast þær upplýsingar með einföldum reikningi. Samkvæmt vef Orkuseturs er meðal raforkueyðsla á hvert heimili um 5.000 kílóvattsstundir á ári. Orkuverðið sjálft er örlítið breytilegt eftir hverjir framleiða og dreifa orkunni en t.d. í dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar er verð á hverja notaða kílóvattsstund 14,35 krónur. Hér er um heildarverð til neytanda að ræða, það verð sem neytandinn greiðir þegar hann kveikir ljós heima hjá sér eða setur pott á eldavél.

Þetta þýðir að meðalheimili á Íslandi greiðir 71.750 krónur á ári fyrir raforku. Í Þýskalandi er verðið fyrir sama magn af raforku á ársgrundvelli 208.793, í Danmörku er þetta verð enn hærra eða 244.668 á ári.

Samkvæmt Þjóðskrá voru í árslok 2014 voru 133.636 íbúðir á Íslandi. Notum nú meðaltalið frá Orkusetrinu að hver þessara íbúða noti u.þ.b. 5.000 kílóvattsstundir (KWst). Við skulum leyfa okkur að nota uppgefið orkuverð frá Orku Náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur sem er 14,35 krónur á hverja kílóvattsstund. Þá má sjá að raforkusala til heimila landsins nemur um 9,5 milljörðum króna.

Ef heimilin í landinu þyrftu að greiða sama orkuverð og í Þýskalandi, þyrftu þau að greiða 18 milljarða til viðbótar við þessa 9,5 eða samtals 27,9 milljarða fyrir raforkuna. Ef íslensk heimili þyrftu að greiða það sama og heimili í Danmörku fyrir raforkuna, þyrftu þau að taka á sig hækkun upp á 23 milljarða til viðbótar við þessa 9,5 milljarða og greiddu þá samtals 32,6 milljarða fyrir raforkuna.

Mánaðarútgjöld meðalheimilis á Íslandi fyrir raforkunotkun eru í dag samkvæmt tölunum hér að framan 5.979 krónur. Ef fyrirætlanir um tengingu Íslands við Evrópu ganga eftir, hækka mánaðarútgjöldin í 17.399 kr. ef miðað er við Þýskaland og í 20.389 kr. ef miðað er við Danmörku.

Ekki þarf að fjölyrða um að annar orkukostnaður mundi einnig hækka í kjölfarið því ekki er neinum vafa undirorpið að hagkvæmt verð á raforku heldur niðri verði á öðrum orkukostum s.s. hjá hitaveitum landsins.

Hver er stefna stjórnvalda?

Er því nema von að maður verði hugsi þegar Landsvirkjun kveðst ætla að bæta lífskjör í landinu með því að greiða ríkissjóði 10 til 20 milljarða í arðgreiðslur árlega, á sama tíma og Landsvirkjun stefnir að því að álögur á heimili landsins hækki um tugi milljarða árlega vegna orkukaupa í kjölfar raforkusæstrengsins. 

Í tengslum við væntanlegar milljarða arðgreiðslur í ríkiskassann er farið að tala í alvöru um að stofna orku/ auðlindasjóð að fyrirmynd Norðmanna, byggðan á hinum væntu arðgreiðslum upp á 10 til 20 milljarða á ári. Vandamálið er bara sá að fórnarkostnaðurinn sem leggst á heimilin í landinu vegna sæstrengsævintýrisins er umtalsvert hærri en væntar arðgreiðslur. 

Ég hef í fyrri pistlum mínum um orkumál reynt að benda á nauðsyn þess að alþingi og eða ríkisstjórn setji fram eigendastefnu fyrir fyrirtækið Landsvirkjun. Á undanförum árum hefur verið tekin vinkilbeygja á stefnu fyrirtækisins án þess að nokkur virðist ætla að bera á því pólitíska ábyrgð. Er ekki komin tími til að kjörnir fulltrúar okkar axli ábyrgð í þessu máli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pistlar

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Tónlistarspilari

Amy Winehouse - Rehab
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband