Fimmtudagur, 16. júní 2016
Síþrasandi þjóð!
Þrátt fyrir mikinn uppgang í viðskiptalífinu og samfélaginu öllu er neikvæð afstaða gagnvart atvinnulífinu í landinu ríkjandi. Íslendingar ættu að vera stoltir yfir því sem vel er gert en það er því miður vöntun á því. Kreppan er búin og komið góðæri en eftir situr andlega kreppan.
Þetta sagði Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, í viðtali í Viðskiptablaðinu nú fyrir skömmu, og hún bætti við.
Það er alltaf verið að tala niður og kasta rýrð á atvinnulífið. Það er tortryggt í hvívetna og það á sama tíma og við erum að horfa til þess að íslenskt atvinnulíf er að standa sig alveg gríðarlega vel,
Katrín hefur rétt fyrir sér, okkur Íslendingum virðist algerlega fyrirmunað að dást að og hreykja okkur af því sem vel er gert í atvinnulífinu. Við erum hinsvegar dugleg að láta systurnar öfund og illkvittni ná tökum á okkur. Og svo virðist sem þessar systur eigi frjóan jarðveg í þessu litla samfélagi okkar, þar sem návígið er mikið.
Framúrskarandi árangur
Þegar við skoðum helstu stoðir íslensks atvinnulífs með opnum huga, koma fljótt í ljós þeir kostir sem Katrín bendir á. Þeir eru vissulega til staðar á öllum sviðum.
Í sjávarútvegi höfum við ná undraverðum árangri. Þetta sést einna best á því að þjóðir, sem veiða miklu meira en við, leita í smiðju okkar til þess að ná fram betri nýtingu og auknum verðmætum. Hér er íslenskt hug- og verkvit í aðalhlutverki og verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið er veruleg á ýmsum sviðum tengdum sjávarútvegi. Samt er nánast öll umræða um sjávarútveg neikvæð. Hún einkennist af upphrópunum og deilum um fiskveiðistjórnunarkerfið en lítið fer fyrir þeirri umræðu hversu mikil verðmætaaukning verður við áframvinnslu á hráefninu sem í land er fært.
Byggt á íslenskri þekkingu
Við höfum byggt upp mjög öflugt raforkukerfi hér á landi með þeirri aðferð að semja við stóriðjuver um kaup á orku. Arðurinn hefur að hluta til verið sendur beint til heimila landsins í formi lægra orkuverðs en þekkist í löndunum í kringum okkur. Mjög mikil og ósanngjörn umræða hefur verið um þessi stóriðjuver og þá sérlega álfyrirtækin sem hér starfa. Umræðan hefur verið eins og þessar verksmiðjur séu óhreinu börnin hennar Evu sem allir vilja burt úr garðinum sínum. Færri vita eða kæra sig um að vita að þetta eru hreinustu álverksmiðjur heims, þökk sé íslensku hug- og verkviti. Í raun eru þessar íslensku verksmiðjur í fararbroddi um tækniþróun og takmörkun á umhverfisáhrifum álvera í heiminum. Norðmenn tilkynntu fyrir skömmu að þeir ætluðu að reisa nýtt álver sem á að vera það fullkomnasta og umhverfisvænsta í heimi. Nánast engin umræða hefur verið hér á landi um það að þetta nýja álver Norðmanna er að verulegu leytii byggt á íslensku hug og verkviti.
Engin atvinnugrein hefur vaxið jafn hratt og ferðaiðnaðurinn hér á landi síðustu árin. Þessi grein hefur ekki farið varhluta af neikvæðri umræðu. Endalausar klósettsögur. Náttúruperlur eru traðkaðar niður og lýsingar á því hvernig ferðamaðurinn er búin að hertaka Laugarveginn heyrast reglulega - það sé bara ekki hægt að ganga hann án þess að heyra talað á framandi tungum á hverju götuhorni.
Hinar skapandi greinar eru einnig í talsverðum vexti og þar í fararbroddi eru tónlistin og kvikmyndagerðin sem eiga mjög stóran þátt í þeirri velgengni sem íslenskur ferðaiðnaður nýtur í dag. Því miður einkennist umræða um þessar greinar oftar en ekki um styrkframlag þjóðarinnar til þessara greina eða listamannalaun en ekki um hið mikilvæga hlutverk þeirra bæði í að varðveita menningarsögu landsins og vekja áhuga heimsins á landinu okkar.
Mál að linni
Erum við Íslendingar óvenjulega þrasgjörn þjóð? Það er ekki gott að segja. Jón Gunnarsson formaður atvinnumálanefndar Alþingis sagði í maí 2008 það vera hluta af vinstri stefnu, að tala niður atvinnulífið.
Jafnvel forráðamenn einstaka atvinnugreina hafa leyft sér að tala niður aðrar greinar. Líkast til í þeim tilgangi að réttlæta gagnrýni á eigin grein. Svo langt hefur þetta gengið að forseti Íslands hefur séð ástæðu til þess að hnippa í menn.
Ég segi í fullri alvöru við forustumenn í samtökum íslensks atvinnulífs: Hættið að tala niður íslenskt atvinnulíf,
sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, 10. apríl 2011 á blaðamannafundi sem hann hélt á Bessastöðum. Forsetinn bætti síðan í og sagði:
Farið og segið unga fólkinu og íslensku þjóðinni frá allri uppbyggingunni, sem er í íslensku atvinnulífi. Lýsið því á hverjum degi hvað er verið að gera í hverju fyrirtækinu á fætur öðru og að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu, hátækni, upplýsingatækni og öðrum greinum hefur á síðustu tveimur árum verið að upplifa ein sín bestu ár. Því það er mikið hættuspil að halda þeirri röngu mynd að íslensku fólki að hér sé ekkert að gerast.
Ég gæti ekki verið meira sammála. Áfram Ísland!
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.12.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.