Föstudagur, 13. maí 2016
Línur að skýrast í sæstrengsumræðunni
Mjög áhugavert er að grandskoða nýja skýrslu sem birt var í janúar síðastliðnum og nefnist North Atlantic Energy Network. Skýrslan er fjölþjóðleg og var Orkustofnun fulltrúi Íslands í þessu verkefni ásamt aðilum frá Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Hjaltlandseyjum og Noregi.
Í skýrslunni er fjallað um ýmis almenn atriði sem tengjast hugsanlegum raforkuflutningi milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlands og þaðan til Skotlands eða Noregs. Hún lýsir orkuinnviðum þessara landa við Norður-Atlantshaf með tilliti til mögulegrar þátttöku í lagningu og rekstri á sæstreng. Strengurinn sá hefði það meginhlutverk að tengja markaði þessara landa saman og flytja umhverfisvæna orku, framleidda í þessum löndum, inn á Evrópumarkað.
Landsvirkjun (LV) hefur um nokkurn tíma talað fyrir lagningu sæstrengs beint milli Íslands og Bretlands. Samkvæmt framsetningu LV hefur þjóðin mikinn hag af því að flytja orku út með þessum hætti. Forráðamenn Landsvirkjunar ásamt ýmsum talsmönnum þessarar hugmyndar hafa ítrekað látið í veðri vaka að raforkusæstrengur verði uppspretta mikils gróða og hagsældar fyrir íslenska þjóð. Það kemur því á óvart að áðurnefnd skýrsla sýnir, svo að ekki verður um villst, að þessar fyrirætlanir eru alls ekki raunhæfar. Þær munu aldrei geta staðið undir þeim væntingum sem framámenn Landsvirkjunar hafa byggt upp í kringum þetta verkefni síðustu árin.
Pólitísk áhætta
Í skýrslunni kemur fram að Evrópskur orkumarkaður sé mjög flókinn og megináhætta svona verkefnis sé pólitísk. Evrópusambandið setur reglur um sæstrengi á milli landa og ofan á þær koma síðan mismunandi sértækar reglur sem spegla sérhagsmuni viðkomandi landa. Þetta gerir regluverkið bæði flókið og óáreiðanlegt. Dæmi um það má finna í nýrri orkustefnu Bretlands sem gefin var út rétt fyrir nýliðna loftslagsráðstefnu í París. Þar setja bresk yfirvöld sér það markmið að hætta niðurgreiðslum á nýrri grænni orku á næstu árum, þvert á það sem áður var. Það vill svo til að niðurgreiðslur þessar eru einmitt forsenda þess að mögulegt sé að ráðast í lagningu á raforkusæstreng milli Íslands og Bretlands!
Kosnaður þrefalt hærri en raforkuverðið
Skúli Jóhannsson verkfræðingur birti nú í vikunni nýja útreikninga sem m.a. byggjast á skýrslunni hér að ofan. Skúli reiknar út kostnaðarverðið á orkunni kominni til Bretlands. Annars vegar með því að leggja raforkusæstreng beint. Hins vegar miðað við að farin yrði svokölluð eyjaleið með streng á milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlandseyja og Skotlands.
Skúli kemst að þeirri niðurstöðu að kostnaðarverð orkunnar, kominnar til Bretlands ef farin er bein leið á milli landanna, sé 148 bandaríkjadalir á hverja megawattsstund ($/MWst). Kostnaðarverðið ef farin er eyjaleiðin verður 168 $/MWst. Það sem skýrir þennan verðmun er m.a. aukinn virkjunarkostnaður með vindrafstöðvum í Færeyjum og á Hjaltlandi.
Þetta er mjög áhugavert, sérstaklega ef tekið er tillit til þess að á Bretlandi er raforkuverð á almennum heildsölumarkaði um 50 $/MWst um þessar mundir. Kostnaður á hverri íslenskri megawattsstund, kominni á enska grund í gegnum raforkusæstreng, er því þrisvar sinnum hærri en það verð sem fæst á samkeppnismarkaði með raforku í Bretlandi. Ekkert bendir til þess að orkuverð í heiminum hækki í nánustu framtíð.
Það er merkileg staðreynd að Landsvirkjun hefur eytt verulegum fjármunum í þetta verkefni, þrátt fyrir að það sé á engan hátt sjálfbært. Líkurnar á því að bresk stjórnvöld séu tilbúin til þess að niðurgreiða orku sem er þrefalt dýrari en aðrir kostir, verða að teljast afar takmarkaðar. Sérstaklega í ljósi langtímastefnu stjórnvalda að hætta niðurgreiðslum fyrir nýja græna orku.
Hjáleið Landsvirkjunar
Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði á Landsfundi sínum að nýta ætti orku þá sem hér væri framleidd til atvinnuuppbyggingar hér á landi. Framsóknarflokkurinn telur að betra sé að nýta innlenda orku til að efla fjölbreyttan iðnað, auka matvælaframleiðslu og efla sjálfbærni í samgöngum með rafknúnum farartækjum. Einbeitni forráðamanna Landsvirkjunar í þessu máli er því í andstöðu við vilja ríkisstjórnarflokkanna.
Af ræðum framámanna Landsvirkjunar við ýmis tækifæri má ætla að í þessum raforkusæstreng liggi mikil tækifæri fyrir íslenska þjóð. Samt hefur fyrirtækið ekki treyst sér til þess að birta neitt af útreikningum sínum varðandi þetta verkefni sem styðja þær fullyrðingar. Á næstu dögum á að birta skýrslu Kviku um þetta verkefni sem unnin er fyrir Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið. Fróðlegt verður að sjá hvort niðurstöður hennar verði í takti við skýrslu Skúla Jóhannssonar sem hann skrifaði um þetta árið 2011 og nú þessa fjölþjóðlegu skýrslu sem Orkustofnun er aðili að, en nokkur samhljómur er með niðurstöðum þeirra.
Kappsemi er stundum dyggð. Hins vegar vaknar sú spurning hvort stjórnendur Landsvirkjunar átti sig ekki á því, að með ofuráherslu sinni á sæstrengsverkefnið fari þeir á svig við stefnu stjórnvalda og hagsmuni eigenda sinna.
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.12.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.