Þriðjudagur, 26. apríl 2016
Á næst að leiða Björk á gapastokkinn?
Slúður er það þegar maður heyri eitthvað sem manni fellur vel um einhvern sem manni fellur ekki við (ókunnur höfundur).
Það eru mikil átök í samfélaginu þessa dagana. Kraumandi reiði ríkir hjá sumum en margir eru ráðvilltir og vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Það felst nefnilega áhætta í því að láta í ljós skoðanir sínar. Það sem virtist vera heilagur sannleikur í gær, getur reynst vafasamt í dag og helber ósannindi á morgun. Hættan liggur í því að verða úthrópaður, slíkur er atgangurinn.
Þetta moldviðri er komið úr svokölluðum Panamaskjölum. Upplýsingar úr þeim þyrlast nú í allar áttir og Gróa á Leiti smjattar sem aldrei fyrr. Í svo litlu samfélagi eins og okkar, þar sem allir þekkjast, verða upplýsingar af þessu tagi sérlega safaríkar. Fólk ræðir varla annað en Panamaskjölin, hvort heldur er í reykmettuðum bakherbergjum, heimilum sínum eða á kaffistofum vinnustaða, og gleymir eigin vandamálum um stund. Athygli vekur að þessar viðkvæmu upplýsingar eru í höndum þriggja fjölmiðla (reyndar er einn þeirra tengdur eignarhaldi í aflandsfélagi samkvæmt upplýsingum gegnum Panamaskjölin) og fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga orðið aðgang að upplýsingum skiptir væntanlega tugum. Á síðustu 3 vikum hafa nöfn 12 manna birst opinberlega úr þessum gagnagrunni Panamaskjalanna. Þetta eru 4 menn á viku þá eru ekki eftir nema 588 nöfn af þeim 600 sem sögð eru vera eftir í grunninum. Á sama hraða verða öll nöfnin komin fram í dagsljósið eftir u.þ.b. 147 vikur.
Langvarandi gremja
Þessar 147 vikur jafngilda tveimur árum og tíu mánuðum í reiði og hneykslan. Viðvarandi gremjuástand gerir engum gott. Þess vegna verðum við að taka umræðuna um það hvernig best verður tekið á þessu ástandi. Darraðardansinn hófst á því að forsætisráðherrann hraktist úr embætti fyrir skýra þjóðinni ekki frá því að hann ætti efnaða konu sem geymdi fé á aflandsreikningi. Alvarleg yfirsjón. Nú er verið að ráðast á forsetann sjálfan, einnig fyrir að eiga efnaða konu sem hugsanlega á fé á reikningum erlendis. Svo eru gerð hróp að ráðherra fyrir að eiga efnaða ættingja og jafnvel verið að skipuleggja mótmæli fyrir framan heimili hans.
Gjaldkerar og framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka eru einnig í þessum dapurlega hópi. Þar er líka að finna stjórnendur lífeyrissjóða sem eru orðnir altumlykjandi í þjóðfélaginu. Framsóknarmafían, sem allir héldu að væru með höfuðstöðvar í Skagafirði, sýndi sig og átti sína birtingarmynd á skrifstofu Framsóknarflokksins. Þó svo að þetta sé talsverð upptalning er bara búið að birta agnar ögn af þeim nöfnum sem eiga að vera á þessum lista.
Er Björk næsta fórnarlambið?
Svo eru það þeir sem hafa verið nefndir og ekki nefndir. Hún Björk okkar á að vera ríkasta kona landsins með milljarða í skattaskjóli. Konan sem hefur verið sómi þjóðarinnar erlendis og lagt sig fram um að tala rödd náttúrunnar. Á að gera hana brottræka líka? Maður spyr bara hvar og hvenær á þetta hatursfulla uppgjör að enda?
Í pistli sem birtist á vef Hringbrautar segir: Fullyrt er að Björk Guðmundsdóttir eigi sjóði á Tortóla. Ótrúlegar tölur hafa verið nefndar um þann fjölda milljarða sem hún er sögð geyma í skattaskjólinu. Björk mun vera miklu sterkari á Tortóla en nokkur íslenskur útrásarvíkingur eða sægreifi. Innan skamms mun íslenskur fjölmiðill upplýsa um auðæfi söngkonunnar á Tortóla. Þar munu vera á ferðinni tölur sem gera þekktustu útrásarvíkinga og kvótakónga okkar smáa í sniðum. Björk Guðmundsdóttir er frægasti Íslendingurinn um þessar mundir og jafnvel einnig sá ríkasti. Uppljóstranir um Tortólaeignir hennar gætu átt eftir að vekja heimsathygli.
Allir útgerðarmenn landsins eiga að vera í þessum hópi. Byggingarmeistarar, bankafólk og venjulegt fólk sem varð kannski fyrir því óláni að erfa gamlan frænda og leita ráðgjafar hjá sama bankafólkinu um hvernig væri best að geyma þá fjármuni sem því áskotnuðust, í mörgum tilvikum ómeðvitað um ruglið sem fólst í ráðgjöfinni.
Sá yðar sem syndlaus er
Þjóðin er með eindæmum þrasgjörn og púkum tekst snilldar vel þessa dagana að draga fram systurnar öfund og illkvittni í ótrúlegasta fólki. En hvað má og hvað má ekki? Við lærðum í æsku í skemmtilegum texta Sveinbjarnar Baldvinssonar að það má ekki pissa bak við hurð. Við erum svona nokkurn vegin með það á hreinu. En þegar því sleppir þá er hver og einn með sína eigin útgáfu af því hvað er siðlegt og hvað ekki.
Fóru einhverjir sem eiga fé í aflandsfélögum á svig við lögin? Það liggur í augum uppi og í sumum tilvikum svo að um munaði. Er þá ekki sjálfsagt að fordæma breytni slíks fólks? Vissulega þurfa þeir sem brotlegir eru við lög að axla ábyrgð gerða sinna en það er munur á lagalegri refsingu og aftökum dómstóls götunnar. Ef við lítum í eigin barm, kemur í ljós að flest höfum við farið á einhvern hátt á svig við lög og reglur. Ég á til dæmis vin sem hefur barið tunnur og búsáhöld niðri á Austurvelli af fítonskrafti og úthrópað ráðamenn þjóðarinnar í miklum umvöndunartón. Honum hefur hins vegar láðst að taka fram að sjálfur er hann nánast hættur að taka að sér verkefni nema fá greitt svart fyrir vinnuna. Upp í hugann kemur setning úr fermingarfræðslunni fyrir margt löngu: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.
Allar upplýsingar upp á borðið
Við þurfum að ná sátt um hvaða leikreglur eiga hér að gilda og hvernig á að leiða mál sem þessi til lykta. Við þurfum að ná umræðunni upp úr pólitískum skotgröfum og við þurfum að bjóða þeim sem hafa skotið fé undan skatti takmarkaðan tíma til þess að koma með þetta fé til baka. Við þurfum yfirvegun og skynsemi en ekki upphrópanir og sleggjudóma. Nú þegar hafa þrír aðilar hrökklast úr starfi vegna Panamaskjalanna. Forsætisráðherra, gjaldkeri stjórnmálaflokks og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessir aðilar hafi gerst sekir um fjármálalegt misferli eða stórkostlega vanrækslu í starfi. Dómgreindarbrestur þeirra hefur hins vegar valdið þeim álitshnekki og vandamönnum sárum leiðindum.
Tryggja þarf að upplýsingar úr svonefndum Panamaskjölum komi allar fram strax. Það er ekki gott að upplýsingarnar séu í höndum handvaldra fjölmiðla sem velja hvern skal taka niður og sverta með tengingum sem jafnvel koma málinu ekkert við. Smjatta á óförum annarra mánuðum saman. Opinber birting á vef þar sem allir geta skoðað upplýsingarnar er eina leiðin til þess að tryggja að ekki sé verið að nota þessar upplýsingar í pólitískum tilgangi. Það er líka nauðsynlegt úrræði til þess að þjóðin þurfi ekki að lifa á þriðja ár við heift og vandlætingu.
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.12.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.