Verður Straumsvík lokað?

Margt virðist benda til þess að álverinu í Straumsvík verði jafnvel lokað á næstu mánuðum. „Húrra!“ kann einhver kannski að hrópa, en ég trúi því ekki að sá einstaklingur hafi kynnt sér ítarlega hvaða afleiðingar lokun álversins mun hafa fyrir starfsfólkið, bæjarfélagið Hafnarfjörð og þjóðina í heild. 

Mikil verðmæti í húfi

Álverið í Straumsvík stendur undir ríflega 10% af heildar-gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Missir þessara útflutningstekna mun því seinka verulega þeim efnahagsábata sem vænta má hér á landi á næstu árum. Um 450 manns starfa í Straumsvík og gera má ráð fyrir að afleidd störf í kringum álverið séu ríflega 1.000. Þannig má segja að u.þ.b. 1.500 fjölskyldur, sem að stærstum hluta búa í Hafnarfirði, eigi lífsafkomu sína með einum eða öðrum hætti undir starfsemi álversins.

Bæjarsjóður Hafnarfjarðar mun tapa hundruðum milljóna í hafnargjöldum og fasteignasköttum, auk þess að tapa tímabundið útsvari frá þeim einstaklingum sem búa í Hafnarfirði og verða fyrir atvinnumissi án þess að ný störf bjóðist. Bæjarfélagið hefur verið meðal skuldsettustu sveitarfélaga landsins og óvíst er á þessari stundu hvaða afleiðingar slíkt högg mun hafa fyrir aðra íbúa bæjarins.

Undirliggjandi vandi

Í þeim kjaradeilum, sem staðið hafa síðustu mánuði, hafa deilendur vænt hvorir aðra um óbilgirni og mistök við stjórnun. Ég held að ef takast á að leysa þennan hnút, verði að leggja þessar ásakanir til hliðar og horfa í aðra átt. Ég ætla að leyfa mér að setja fram þá kenningu að ein helsta orsök þess að álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík á í verulegum rekstrarvandræðum núna, sé ákvörðun sem tekin var í tengslum við nýjan orkusamning milli Landsvirkjunar og álversins árið 2010. Þá var ákveðið að slíta tengingu raforkuverðsins við heimsmarkaðsverð á áli. 

Framsýni Hjörleifs Guttormssonar

Það var árið 1983 fyrir baráttu og framsýni þáverandi iðnaðarráðherra, Hjörleifs Guttormssonar, að Landsvirkjun og álverið í Straumsvík sömdu um tengingu á orkuverði við heimsmarkaðsverð á áli. Nýbreytni þessi varð til mikilla hagsbóta fyrir Landsvirkjun enda hækkaði verðið fyrir orkuna um nánast helming í kjölfarið. Með þessu fyrirkomulagi tóku báðir samningsaðilar þátt í þeirri áhættu sem sveiflur á markaði ollu. Hvor tveggja hagnaðist þegar verð var hátt á mörkuðum og þeir deildu byrðum þegar verr gekk. Þetta fyrirkomulag reyndist báðum fyrirtækjum vel í ríflega 27 ár.

Ábyrg lausn Kanadamanna

Engum dylst að gríðarlegar sveiflur hafa orðið á öllum alþjóðlegum mörkuðum. Þar gildir einu hvort litið er til olíuverðs sem hefur snarlækkað, álverðs, sem er í sögulegu lágmarki, eða raforkuverðs, sem fallið hefur um tugi prósenta síðan 2011. Ytri aðstæður eru því óhagkvæmar bæði fyrir áliðnaðinn og orkusala.

Þetta vandamál er langt frá því að vera séríslenskt. Nákvæmlega sama staða kom upp í Kanada fyrir skömmu. Þar brugðust yfirvöld og orkufyrirtækin við ástandinu með ábyrgum hætti. Endursamið var um orkuverð og það tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Víst er að með þessum aðgerðum komu kanadísk yfirvöld í veg fyrir að álverum þar í landi væri lokað í stórum stíl vegna óhagstæðra ytri aðstæðna.

Hvað gera íslensk stjórnvöld?

Hér á landi er ekkert að frétta. Landsvirkjun lætur sem henni komi málið ekki við. Þar á bæ ríghalda menn í nýtt hlutverk fyrirtækisins sem stjórnendur þess skilgreindu sjálfir undir forystu Harðar Árnasonar, athugasemdalaust af hálfu Samfylkingar og Vinstri Grænna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Athyglisvert er að þetta nýja hlutverk, þar sem arðsemi Landsvirkjunar sjálfrar er sett í öndvegi, og hvernig stjórnendur Landsvirkjunar túlka það, gengur þvert á raforkulög. Í þeim grundvallarlögum er skýrt kveðið á um að heildarhagsmunir þjóðarinnar eigi að ráða för.

Þetta mál er komið á það stig að ríkisstjórn og forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar hljóta að beita sér af hörku til að tryggja áframhaldandi starfsemi álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Komi til lokunar, tapa allir. Landsvirkjun tapar góðum viðskiptavini og skaðar orðspor sitt erlendis. Hafnarfjarðarbær verður af umtalsverðum tekjum og þjóðin missir ríflega 10% af gjaldeyristekjum sínum, auk þess að tapa trúverðugleika gagnvart erlendum fjarfestum. Síðast en ekki síst glatast fjöldinn allur af vel launuðum störfum og með því raskast lífsafkoma 1.500 fjölskyldna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pistlar

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Tónlistarspilari

Amy Winehouse - Rehab
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband