Fimmtudagur, 6. ágúst 2015
Ríkir samkeppnismarkaður með raforku á Íslandi?
Það er allrar athygli vert að skoða vel hvað er að gerast á mörkuðum með rafmagn. Stjórnendur í orkuframleiðslu hér hafa síðustu misseri horft út fyrir landsteinana í leit að hagstæðum fordæmum, þrátt fyrir að viðurkennt sé að orkumarkaður á Íslandi sé einstakur í sinni röð (þ.e. fákeppnismarkaður með markaðsráðandi ríkisfyrirtæki) og samanburður við það sem gerist á erlendum samkeppnismarkaði geti því verið villandi.
Mikil verðlækkun í nágrannalöndum
En hver hefur þróun orkuverðs verið í nágrannalöndum okkar? Við skulum byrja á því að skoða mynd sem sýnir mikið verðfall á mörkuðum á Norðurlöndum sl. 4 ár. Öfugt við það sem gerst hefur hér á landi, hefur orkuverð verið í mikilli og stöðugri niðursveiflu frá árinu 2011. Lækkunin á þessu tímabili er ríflega 75% og þegar sama tímabil er skoðað fyrir Þýskaland er lækkunin 54%. Sumir halda því fram að hér sé um tímabundna lækkun að ræða og verðið fari fljótt upp aftur. Við leit á haldbærum rökum sem gætu stutt þá fullyrðingu hef ég fundið nokkurt magn af framvirkum samningum sem benda í öfuga átt. M.ö.o. bendir allt til þess að það lága orkuverð sem nú ríkir, verði á þessu róli a.m.k. næstu 5 árin og að vangaveltur um annað séu gripnar úr lausu lofti.
Miklar hækkanir hér á landi
Á sama tíma hefur verð á orku á Íslandi verið að hækka undir því yfirskini að hér sé svo mikil eftirspurn. Nægir hér að benda á nýlega grein í Morgunblaðinu þar sem meðal annars er rætt við Bryndísi Skúladóttur forstöðumann umhverfismála hjá Samtökum Iðnaðarins. Þar kemur fram að hækkun á raforkuverði hefur verulega íþyngjandi áhrif á iðnfyrirtæki s.s. matvælaframleiðendur, prentfyrirtæki, plastframleiðslu og málmiðnað svo fátt eitt sé nefnt. Tilefni þessarar greinar í Morgunblaðinu var 40% gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar. Þar er haft eftir fyrirsvarsmönnum Landsvirkjunar að það séu lögmál framboðs og eftirspurnar sem ráði verðinu. Er það nú svo?
Ímynduð samkeppni á gervimarkaði
Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun framleiðir u.þ.b. 75% af allri raforku í landinu. Með því að stýra rennsli úr miðlunarlónum getur fyrirtækið stjórnað framboðinu á þeirri orku sem til sölu er. Landsvirkjun er líka í þeirri stöðu að ráða við hverja er samið um orkukaup, þannig að félagið ræður ekki einungis framboðinu heldur líka eftirspurninni. Það er því í fullkominni mótsögn við anda heilbrigðrar samkeppni, og um leið óásættanlegt, að forsvarsmenn Landsvirkjunar komist upp með að skýra 40% hækkun á heildsöluverði sínu með lögmáli framboðs og eftirspurnar, þegar sem þeir sitja beggja vegna borðs.
Vissulega leggja raforkulögin frá 2003 grunn að því að hér geti í ófyrirsjáanlegri framtíð þróast eðlilegur samkeppnismarkaður með raforku. En það er langt frá því að sú framtíðarsýn, sem birtist í þessum lögum, sé að ganga eftir.
Stjórnendur Landsvirkjunar leggja þann skilning í raforkulögin, að þau heimili þeim að kalla fákeppnismarkað með markaðsráðandi ríkisfyrirtæki, samkeppnismarkað. Það ríkir ekki samkeppni á íslenskum raforkumarkaði heldur þvert á móti fákeppni þar sem ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er í markaðsráðandi stöðu og hækkar gjaldskrá sína að vild án þess að hægt sé að rökstyðja þá hækkun. Á sama tíma og orka í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við hefur lækkað á bilinu 54% til 75%, upplifum við órökstudda 40% hækkun á raforkuverði.
Viðbótar skattheimta
Hver ber svo á þessu ábyrgð? Það hlýtur að vera eiganda Landsvirkjunar að gæta þess að þeir sem veljast til þess að stjórna Landsvirkjun taki ákvarðanir sínar út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar. Það er erfitt að sjá að þessar hækkanir í kjölfar kjarasamninga séu réttlætanlegar. Böndin berast óneitanlega að ríkisstjórninni því hækkun þessa er ekki hægt að kalla neitt annað en viðbótar skattheimtu á atvinnurekstur. Þessi viðbótar skattheimta gengur síðan í gegnum verðhækkanir á framleiðsluvörum hefur áhrif vísitölu og lán heimilanna.
Einföld leið til að skapa samkeppni
Ríkisstjórnin ber einnig ábyrgð á því að engin önnur orkufyrirtæki en Landsvirkjun fá úthlutað vatnsafli til virkjunar. Sú einokun á rætur að rekja til þess að við stofnun Landsvirkjunar lagði Reykjavíkurborg til eignir sínar í Soginu á móti Búrfellsvirkjun í eigu ríkisins og Akureyrarbær lagði til eignir sínar í Laxárvirkjun. Slík einokunarstaða var kannski réttlætanleg á upphafsárunum en er það alls ekki lengur.
Svo má líka velta því fyrir sér að ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi á að hér myndist samkeppnismarkaður með raforku, liggur beint við að brjóta Landsvirkjun upp í tvær eða fleiri smærri einingar sem þá geta keppt sín í milli um kaupendur, þjóðinni allri til heilla. Þá fyrst væri hægt að ræða um áhrif framboðs og eftirspurnar með réttu og á þann veg mætti líka fjölga áhugaverðum störfum úti á landsbyggðinni.
Um bloggið
Pistlar
Tónlistarspilari
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.