Færsluflokkur: Bloggar

Í hverju liggur markaðssnilldin

Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 var í viðtali í helgarblaði DV fyrir skömmu. Þar voru höfð eftir honum ummæli sem ég er búin að vera nokkuð hugsi yfir frá því að ég sá blaðið. 

Fyrri ummælin eru þessi: (breiðletrun er greinarhöfundar)

„Ég veit alveg hvað kostar að kaupa bensín til Íslands og selja það ef taka á tillit til alls kostnaðar og fjárfestinga sem eru talsverðar. Ef N1 myndi selja bensín á sama verði og Costco þá myndi ég tapa á því. Og af því að N1 er markaðsráðandi aðili á olíumarkaðinum þá væri það lögbrot og við hjá N1 erum með skýra sýn á að fylgja eftir öllum lögum og reglum. Ólíkt okkur, þar sem bensín og olía eru okkar helsta söluvara, þá nota Costco-menn eldsneytið til að lokka fólk í verslunina sína. Þess vegna niðurgreiða þeir bensínið og það er greinilega markaðskostnaður hjá þeim, sem er fín strategía hjá þeim en gengur ekki upp fyrir N1.“

Þessi orð forstjórans eru þess eðlis að út frá þeim má skynja að miklar fjárfestingar félagsins og þá væntanlega annarra olíufélaga hafa valdið óeðlilega háu bensínverði hér á landi í langan tíma. Takmarkalitlu fjárfestingaræði þar sem byggðar eru bensínstöðvar með nokkurra metra millibili hefur verið dengt yfir íslenska neytendur án þess að þeir átti sig eða eigi annan valkost fyrr en þá fyrst nú. Í þessu samhengi er athyglisvert að þau olíufélög sem hafa nánast enga þjónustu og litla yfirbyggingu skuli ekki hafa boðið betur. Þau hafa kosið að halda verðlagningu sinni nálægt verðum þeirra stærri sem bjóða betri þjónustu. þjónusta er jú talin vera einn af mikilvægustu lykilþáttum sem smásölufyrirtæki geta nýtt sér til að aðgreina sig á markaði eða ná samkeppnisforskoti. Það skýtur því skökku við að á markaði með eldsneyti skuli ekki sjást meiri tilburðir í þá átt að aðgreina sig betur með þjónustuframboði.

Eflaust er það rétt að hjá forstjóranum að N1 með allar sínar þjónustustöðvar um land allt getur ekki lifað af 15% álagningu á bensíni líkt og Costco gerir. Fullyrðingar forstjórans um að Costco niðurgreiði bensínið og líti á það sem markaðskostnað eiga ekki við rök að styðjast. Þjónusta Costco við bensínafgreiðslu sína er í lágmarki. Þeirra ásetningur var frá upphafi að keppa í verðum og ná fram hagræði þrátt fyrir lágt verð með miklum veltuhraða. Þetta er í raun sama módel og Jóhannes heitin í Bónus nýtti sér þegar hann hóf rekstur sinna verslana. Lág álagning og mikill veltuhraði. 

Síðari ummælin voru þessi: (Skýring í sviga er greinarhöfundar)

„Að þeir (Costco) séu „markaðssnillingar“ sem hafi nýtt sér fjölmiðla til að fá ókeypis umfjöllun.“

Vissulega hefur verið mikil umfjöllun um Costco. En hversu mikil hefur hún verið? Sá sem hér skrifar ákvað að setja sig í samband við snillingana á Fjölmiðlavakt Creditinfo og biðja þá um hjálp við að ná utan um þá spurningu hversu mikil þessi umfjöllun var í raun og veru. Hjá Fjölmiðlavaktinni eru aðilar sem daglega skima og skrá niður efni allra fjölmiðla. Talið var í hversu mörgum umfjöllunum nafn Costco kæmi fram mánuðina apríl, maí, og júní. Til samanburðar voru umfjallanir stóru olíufélaganna N1, Skeljungs og Olís einnig taldar fyrir sama tímabil. Hver umfjöllun er aðeins talin einu sinni. 

 

 

Costco   

Olíufélögin samtals  

N1     

Olís      

Skeljungur   

April     

83

201

74

68

59

Maí

302

227

86

57

84

Júní

315

216

96

66

54

 

Þessi samantekt sýnir að munurinn á umfjöllunumer er nokkur en samt minni en ætla mætti. Aðrar skýringar hjóta því eiga hér við s.s. Vörur sem ekki hafa verið boðnar hér áður. Umtalsvert lægri verðlagning á einstaka vöruliðum, o.s.frv. Víst er að Innkoma Costco hefur sannarlega sett ýmsa aðila upp á tærnar sem er gott fyrir neytendur. 

Svo er upplagt að rifja það hér upp að það er vel þekkt í heimi markaðsfræða að sterk tengsl eru á milli væntinga viðskiptavina, upplifunar og ánægju þeirra og svo tryggðar ef vel tekst til með að uppfylla þær væntingar sem kveiktar hafa verið. 

Ekki er nokkur vafi á að mikil spenna og áhugi var fyrir komu Costco inn á íslenskan smásölumarkað. Væntingar viðskiptavina voru miklar. Tilfinning þess sem hér skrifar er að stjórnendum Costco hafi tekist harla vel með það verkefni að standa undir þessum miklu væntingum. Markaðssnilld þeirra felst því fyrst og fremst í því mikilvæga atriði að standa undir þeim væntingum sem kveiktar höfðu verið í hjarta íslenskra neytenda. 


Vík skal milli vina, fjörður milli frænda

Þessi gamli málsháttur, sem ekki er víst að hafi myndast í einu lagi, hefur í sér ákveðin boðskap. Hér býr fólk dreift og er alið upp við það. Þó blóðflokkar sýni að blóð okkar sé oftar sé oftar af írskum uppruna en norskum, bendir málfar okkar, siðir og málshættir fremur norsku fjarðanna, þar sem menn bjuggu dreift, sóttu sjó og kærðu sig lítt um meir en hæfilegan átroðning vina og skyldmenna. Í landbúnaðarhéruðum Evrópu safnaðist fólk saman í þorp, sótti vinnu út á akrana á daginn. Þar var miklu meira nábýli en við erum vön.


Hér viljum við líka búa rúmt. Við viljum fá vini heim og veita þeim þar, í stað þess að fara með þá á næstu krá. Við höfum tekið upp siði höfðingja og mjög stór hluti þjóðarinnar hefur efni á því. Þessi hluti þjóðarinnar er ekkert á því, að taka lífshætti sína til baka um mörg ár og breyta þeim um leið í átt að gömlum evrópskum siðum, þar sem vinir bjuggu hver undir annars húsvegg, hittust hjá rakaranum á morgnanna og á kránni á kvöldin.


Bæði sú fjarlægð sem hér er milli vina og norðlæg lega landsins gera það að verkum, að við notum mikla orku í daglegu lífi. Það breytir engu í okkar huga, þótt rætt sé um hlýnun jarðar vegna brennslu eldsneytis. Við búum líka við miklar orkuauðlindir sem eru hreinar og við gerum meir en jafna reikninginn með því að taka hér á móti iðnaði sem mundi valda miklu meiri mengun væri hann annarstaðar í heiminum og notaði þá orku sem þar er tiltæk. Við sjáum það líka af fregnum frá fundum og ráðstefnum þar sem þessi mál eru rædd, að eigin hagsmunir eru hvarvetna í fyrirrúmi og hnattrænir hagsmunir koma síðar.


Við höfum líkt og aðrir farið að meta meir þann tíma sem við getum eytt með fjölskyldu okkar og vinum. Með öðrum hagfræðilegri orðum. Verðmæti frítímans hefur vaxið. Fólk vill hafa eðlilegan vinnutíma, þar sem það leggur sitt af mörkum til samfélagsins, en eyða minni tíma í umferð til og frá vinnu eða milli verkefna. Það vill hafa góðan tíma til að njóta samvista við og hlúa að fjölskyldunni.

Í sumarfríum viljum við ferðast um landið, sækja hátíð hér og vini heim þar, eða bara njóta landsins og taka myndir.


Þegar við gerum innkaup viljum við helst fara þangað, þar sem flestar vörur eru á minnstu svæði, gjarnan undir sama þaki. Okkur þykir að vísu gott að hafa hverfisbúð sem við getum gengið í, en mest magn er keypt í stórmörkuðum.


Þegar kemur að íþróttum er það ef til vill einn eða tveir staðir í borginni sem hver og einn sækir og skiptir þar máli hvaða íþrótt viðkomandi stundar og hvar í stórborginni hann er alinn upp, síður hvar hann býr þá stundina.


Það líf sem við viljum lifa er að hluta það sem landið og náttúran hefur alið okkur til. Stór, jafnvel stærsti hluti landsmanna annað hvort lifir þessu lífi, eða á sér þann draum að lifa þannig. Þessi hluti landsmanna er hvorki tilbúinn að fara aftur að lifa bíllaus í þéttu hverfi né láta af draum sínum um bíl, búsetu í hverfi þar sem rúmt er um og jafnvel sumarbústað, allt í þessari röð. Bíllinn er lykilatriði.


Þegar rætt er um samgöngur þá er raunhæfasti samanburðurinn gerður á grundvelli heildar tíma frá heimili á áfangastað hverju sinni. Fyrir almenningssamgöngur þarf að taka með göngutúra að og frá biðstöðvum, bið á einni eða fleiri stöðvum og ferðatíma í vagni. Fyrirbrigði eins og Borgarlína breyta þar litlu fyrir aðra en þá sem gera allt nálægt Borgarlínu, hvort sem er að búa, vinna, iðka líkamsþjálfun, stunda félagsstarf og versla. Með öðrum orðum ávinningurinn af því að nota almenningssamgöngur er lítill og borgarlína mun litlu breyta með það.


Fyrir þá sem eiga bíl og geta líka notað Borgarlínu fer valið eftir ferðatímanum. Bensínkostnaður skiptir litlu máli. Því er forsenda fyrir sjálfbærni Borgarlínu bæði í bráð og lengd sú, að sé einkabíllinn notaður lendi maður í umferðateppu, finni seint bílastæði á áfangastað og eigi á hættu að finna ekkert stæði þegar maður kemur heim aftur.
Þessu hefur meirihlutinn í Reykjavík áttað sig á og unnið markvisst í síðustu árin. Án þess að íbúar borgarinnar hafi verið spurðir að því hvort þeir óski eftir þessari þróun. Uppdiktaðar fullyrðingar um útblástur og umhverfisárif er gjarnan skellt inn í umræðuna þegar mikið liggur við. En er það víst að aukin notkun á almenningsvögnum hefði jákvæð áhrif á umhverfið?


Samkvæmt skýrslu sem University of Michigan Center for Sustainable Systems gáfu út er áætluð meðal nýting á einkabílnum 1,55 farþegi í hverri ferð eða 31% nýting að meðaltali sé miðað við 5 manna bifreiðar. Staðreyndin er að til og frá vinnu er farþegafjöldin nær því að vera ein persóna í ferð en þegar tilgangurinn er að leita afþreyingar þá er talan nær tveimur. Meðaltal í hverri ferð á einkabílnum er af þessum sökum reiknað 1,55 farþegi.   Í Bretlandi er meðal farþegafjöldin í almenningsvögnum 11,1 farþegi í hverri ferð sem er einungis 15,9% af flutningsgetu meðalvagnsins. (áætlað 40 sæti og 30 standandi).


Sé þetta sett í samhengi þarf aðeins 3 bifreiðar til þess að flytja meðalfjölda þeirra sem í vagnana fara. Þessu til viðbótar flytur bifreiðin þig á öruggari hátt beint á áfangastað.
Eldsneytisnýting nýrra bíla er sífellt að batna. Nú lætur nærri að nýir bílar komist að meðaltali 14,28 kílómetra á hvern líter af eldsneyti eða eyði um 7 lítrum á hundraðið eins og við köllum það yfirleitt. Til samanburðar hefur National Renewal Energy Laboratory í Ameríku áætlað að meðal almenningsvagninn í Bandaríkjunum komist um 1,69 kílómetra á hverjum lítra eða eyðsla sem nemur 59 lítrum á hundraðið.


Við getum því sagt að miðað við meðal fjöldann 11 farþega og þessa eyðslu þá þá sé með almenningssamgöngum hægt að ná 18,59 farþegakílómetrum (11×1,69) út úr hverjum lítra eldsneytis. Til samanburðar þá eru 22,14 (14,28×1,55) farþegakílómetrar á bak við hvern lítra eldsneytis á einkabílnum. Með öðrum orðum neikvæð umhverfisáhrif af almenningssamgöngukerfi eru meiri en notkun á meðal einkabíl. Hið sama á við ef reiknað er með að báðir kostir noti raforku.

Einkabíllinn er ekki eins slæmur og menn vilja vera láta. Hugmyndir núverandi meirihluta í Reykjavík um byggingu Borgarlínu eru því óraunhæfar. Heildar ferðalagið tekur lengri tíma, veldur meiri mengun og fjárhagslegur ávinningur er engin fyrir neytandann þannig að hugmyndir um nýtingu sem settar eru fram eru óraunhæfar líkt og raunin er með Strætó nú.


Tímamóta viljayfirlýsing Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Landsvirkjunar

Nokkuð er síðan að margar af fiskimjölsverksmiðjum landsins settu upp rafmagnskatla meðfram olíukötlum þeim sem í notkun voru um áratuga skeið. Þetta var þegar verð á rafmagni var lágt og olíuverð hátt sem þessi þróun fór af stað sem hagræðingar aðgerð af hálfu fiskmjölsframleiðenda. Síðustu ár hefur síðan Landsvirkjun markvisst hækkað verð á raforku til fiskimjölsverksmiðja á sama tíma og olíuverð hefur farið hratt niður á við. Þannig má segja að Landsvirkjun hafi verðlagt sig út af þessum markaði því að bræðslurnar brugðust við hækkunum á raforku með því að skipta til baka yfir í brennslu á olíu. Því eru fréttir af því að Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) og Landsvirkjun hafi tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði verulega ánægjulegar, sérstaklega í ljósi umhverfismarkmiða. 

Jón Már Jónsson formaður FÍF og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu viljayfirlýsingu þar að lútandi. Á fundi Hafsins Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins um loftslagsmál –áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, þar vék Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra máli sínu að framangreindum áformum í opnunarerindi.

„Ágætt dæmi um árangur í loftslagsmálum að frumkvæði atvinnulífsins er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þar hafði greinin sjálf frumkvæði að því að skipta úr olíu í rafmagn. Allir munu vera sammála um ágæti þess, auk loftslags ávinningsins minnkar loftmengun og starfsskilyrði batna við rafvæðingu. Það hafa hins vegar verið blikur á lofti vegna hækkaðs raforkuverðs. Ég fagna þess vegna nýgerðri viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda um að auka hlut endurnýjanlegrar orku við fiskimjölsframleiðslu,“ sagði umhverfisráðherra.

Fiskmjölsverksmiðjur eru tæknilega krefjandi viðskiptaaðili Landsvirkjunar m.t.t. eðlis rekstrarins og óvissu. Mikil orkuþörf í frekar skamman tíma og óvissa um hvenær veiðist og hvenær ekki, gera þessa vinnslu óvenju sveiflukennda á kerfi Landsvirkjunar. En það sem er stóra fréttin í þessari viljayfirlýsingu er að með henni er felst ákveðin viðurkenning á því að arðsöfnun í sjóði Landsvirkjunar er ekki endilega sú leið sem skilar samfélaginu mestum ábata á hverjum tíma.


Plagsiðurinn að grenja út fé

Það var áhugaverð sú skoðun Rúnars Geirmundssonar sem kom fram á bls. 4 í Morgunblaðinu í morgun að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastdæma beiti hótunum til þess að fá aukið fjármagn til reksturs. Rúnar starfar sem útfararstjóri í eigin fyrirtæki og er formaður Félags íslenskra útfararstjóra.

Fyrir rétt um viku síðan kom fram forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma og tjáði alþjóð að garðarnir hafi verið fjársveltir frá hruni og nú sé svo komið að þeir geti ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum lengur. Þetta er kunnuglegur söngur sem hefur blossað víða upp hjá opinberum stofnunum upp á síðkastið.

Ég tel þetta áhugavert í því ljósi að kirkjugarðarnir eru ekki eina batteríið sem telur sig fjársvelt. Við þekkjum öll þessi neyðarhróp sem reglulega dúkka upp. Nefni hér nokkur af handahófi sem koma upp í hugann. 

Landspítalinn, Landhelgisgæslan, Lögreglan, Kirkjugarðarnir, ISAVIA til reksturs innanlandsflugvalla, hin ýmsu hjúkrunarheimili, háskólarnir, framhaldsskólarnir og Ríkisútvarpið. Nú er rétt að taka fram strax að ég hef á þessu stigi ekki skoðun á því hvort óskir þessara aðila séu réttmætar og sanngjarnar. Eflaust er svo í einhverjum tilfellum og jafnvel öllum.

Það sem mig langar að velta hér upp er sú lenska hjá stjórnendum þessara stofnana, sem virðist vera að festa sig í sessi, að rjúka með ýtrustu óskir viðkomandi stofnunar í fjölmiðla og draga þar upp eins dökka mynd og mögulegt er. Væntanlega í þeim tilgangi að reyna að snúa almenningsálitinu á sveif með sér að berja duglega á fjárveitingarvaldinu. Beita eins miklum þrýsting og mögulegt er til þess að ná til sín stærri hluta af kökunni.

Þetta er satt best að segja að verða hálfgerður plagsiður. Það sem út úr þessu kemur er að þeir sem láta mest á sér bera, hafa bestu tengslin við fjölmiðla fá viðbót við framlög og þeir sem ekki kvarta og kveina sitja eftir að ósekju. Svo mikið hefur verið um fréttaflutning sem þennan að hann er hættur að bíta eins og áður. Úlfur úlfur áhrifin eru komin fram að einhverju leiti, þjóðin er að vissu leyti dofin fyrir þessu.

Það er hlutverk þeirra sem við kjósum á þing að horfa á stóru myndina og reyna að ráðstafa því fé sem þjóðin á í sínum sjóðum á eins góðan og uppbyggilegan hátt og mögulegt er. Vissulega getur menn greint á um forgangsröðun. Pólitík snýst um mismunandi áherslur. Það er hlutverk stjórnmálamanna að útdeila þessu fé. Það að beita stjórnmálastéttina sífelldum þrýsting með hótunum um umfjöllun fjölmiðla, er líka pólitík, sem ég tel að stjórnendur opinberra stofnana eigi ekki að stunda.

Það er ekki ásættanlegt að stjórnendur einstakra stofnana séu með þessum hætti komnir á kaf í pólitíska umræðu. Þeirra hlutverk er að sýna hæfileika sína til þess að gera framúrskarandi vel með því fjármagni sem úthlutað er á hverjum tíma. En ekki að grenja út fé með aðstoð fjölmiðla. 


Vel gert ráðherra

Mikið hefur verið ritað og rætt um skipan dómara í Landsrétt síðustu daga. Eins og vænta mátti eru deildar meiningar um það hvernig skal með fara. Rétt er hér að taka fram að ég hef ekki á þessu neina sérstaka þekkingu og hef engin tengsl við þetta fólk sem sóttist eftir þessu starfi. 

Eitt af því sem þarf að skoða í þessu samhengi er sú staðreynd að síðustu ár hefur það sífellt færst í aukana að ýmsum nefndum og ráðum embættismanna er falið að leggja mat sitt á ýmis þau mál sem eru pólitísk. Oftast undir því yfirskyni að það sé svo faglegt. Þessar valnefndir eru og hafa alltaf verið þræl pólitískar.

Þessi aðferðafræði verður til þess að engin ber ábyrgð á ferlinu og niðurstöðunni. Hinn almenni borgari stendur yfirleitt varnarlaus gagnvart embættismannakerfinu sem hikar ekki við að fara á svig við lög og reglur í pólitískum tilgangi. Þetta hefur ítrekað gerst þar sem embættismannakerfið virðir ekki andmælarétt og tímamörk. Margoft hefur það dregið lappirnar skipulega svo ómögulegt er að eiga við kerfið. 

Við sjáum oft hvernig kerfið túlkar lög og reglur á sinn hátt og ef einhver dirfist að andmæla er viðkomandi hundsaður og erindinu stungið undir stól eins lengi og mögulegt er. Jafnvel þó kveðið sé á um að svar eigi að berast innan tímamarka. Engin ber ábyrgð og bendir hver á annan. Ekki er langt síðan að upplýst var um hótanir ráðuneytisstjóra í garð alþingismanns. Þar spratt fram mynd af þessu áður dulda samtryggingarkerfi embættismanna sem í raun stjórnar flestu hér á landi. 

Alþingismenn og ráðherrar eru hvað sem hver segir umboðsmenn þjóðarinnar á hverjum tíma. Þeir bera ábyrgð gagnvart kjósendum sínum og sækja til þeirra umboð. Ef kjósendum er misboðið hafa þeir allavega rétt til þess að kjósa með fótunum og forðast að veita viðkomandi einstakling og eða flokki hans umboð sitt við næstu kosningar.

Í þessu ljósi er ég ánægður með að Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra hefur kjark til þess að fara með það umboð sem henni var falið af kjósendum. Ákvarðanir hennar hafa verið staðfestar af meirihluta Alþingis.

Vonandi er þetta upphafið af því að færa kjósendum á ný það vald sem þeim er falið í stjórnarskrá og þeir síðan framselja stjórnmálamönnum í kosningum. Það var löngu tímabært að taka þetta vald frá svonefndum val- nefndum og ráðum sem eru umboðs- og ábyrgðarlaus.


Mikilvægi eigendastefnu Landsvirkjunar

Ég hef nokkru sinnum áður sest við lyklaborðið og skrifað pistla þar sem ég hef reynt að sýna fram á mikilvægi þess að Alþingi marki fyrirtækinu Landsvirkjun eigendastefnu. En frá því að raforkulög hér á landi voru Evrópuvædd árið 2003 hefur í raun ekki verið mörkuð eigendastefna fyrir Landsvirkjun eða mörkuð heildstæð stefna um orkumál og orkunýtingu. Þetta er bagalegt því eigendastefna er þessum rekstri mjög mikilvæg. 

Raforkugeirinn á Íslandi þarf að þjóna íslensku þjóðfélagi á þann hátt, að hér byggist upp öflug atvinnustarfsemi og gott mannlíf þrátt fyrir óblíða náttúru og dreifða búsetu. Það að byggja upp nútíma þjóðfélag hér á norðurhjara krefst mikillar orku og lágs orkuverðs í samanburði við aðrar þjóðir, sem lifa þéttar á suðlægum slóðum. 

Við stofnun Landsvirkjunar var gengið þannig frá málum að samningar við stóriðjuna tryggðu orkuöryggi og fé til uppbyggingar orkukerfisins. Hinn almenni notandi naut þessa samstarfs með nægu framboði og með lægra orkuverði en þekktist í þeim löndum sem við gjarnan berum okkur saman við.

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar frá árinu 2010 hefur verið talsmaður þess að taka hér upp Stundamarkað þar sem verð á orku getur verið breytilegt eftir framboði og eftirspurn frá einum klukkutíma til annars. Slíkir markaðir eru megin undirstaða raforkumarkaða Evrópu. Raforkulögin frá 2003, sem eru að mestu lög Evrópusambandsins leggja ákveðin lagalegan grunn að uppbyggingu stundamarkaðar hér á landi. Ekkert bendir til þess að stundamarkaður geti virkað á sama hátt hér á landi og í Evrópu. M.a. vegna þess að raforkukerfið hér á landi er ein heild þar sem svo til engin samkeppni er um eitt eða neitt. Hvorki varðandi aðföng eða afurðir. Mun ég rökstyðja þessa skoðun síðar í annarri grein. 

En raforkulögin frá árinu 2003 leystu einnig Landsvirkjun undan þeirri skyldu sem var að finna í eldri lögum að vera svokallaður framleiðandi til þrautavara. Framleiðandinn sem tryggir að ávalt sé til næg orka í landinu. Þessi tvö atriði orkuöryggi og hagkvæmt verð hafa umfram önnur verið grundvöllur að almennri sátt í þjóðfélaginu um rekstur Landsvirkjunar. 

Nú bregður svo við að forstjóri Landsvirkjunar hefur ítrekað lofað miklum arðgreiðslum til ríkisins á komandi árum. Arðgreiðslum sem grundvallast meðal annars á hækkandi orkuverði til almennra nota hérlendis. Einnig er stutt síðan að Landsvirkjun kynnti nýlega skýrslu Copenhagen Economics þar sem fram kemur að hækkandi orkuverð á stóriðjumarkaði geti mögulega sett öryggi á almenna markaðnum í uppnám. Með öðrum orðum að meiri arður geti fengist með því að selja orku til stóriðju heldur en að selja hana til heimila og atvinnufyrirtækja hér á landi. Þetta eru óyggjandi merki um arðstefnu þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru ekki hafðir að leiðarljósi. Hvar er skilgreiningin á verðstefnu eða ábyrgð Landsvirkjunar varðandi orkuöryggi?

Á ársfundi Landsvirkjunar nú fyrir skemmstu kom fram kom fram í máli forstjórans að fyrirtækið stendur mjög vel. Fjármunamyndun í fyrirtækinu síðastliðin 7 ár hefur verið um 200 milljarðar króna. Eða að meðaltali 28,5 milljarður á ári síðustu 7 árin. Þetta er eftir að greiddur hefur verið allur rekstrakostnaður, allir vextir, öll gjöld sem félagið þarf að greiða.  Við skulum hér grípa niður í upptöku af fundinum sem finna má á vef Landsvirkjunar og heyra forstjórann fara yfir þessa ánægjulegu afkomu félagsins. 

100 milljarðar hafa verið notaðir til að greiða niður skuldir. 50 milljarðar hafa farið í fjárfestingar og 8 milljarðar í arðgreiðslur. 42 milljarðar eru því handbærir til frekari ráðstöfunar innan fyrirtækisins. Ekki þarf að efast um að fjárhagslegur styrkur Landsvirkjunar er mikill. 

Í spurningum utan úr sal sem opnað var fyrir eftir framsögur kom fram spurning frá Jens Garðari Helgasyni formanni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem að mörgu leiti varpar ljósi á það sem ég er hér að tala um. Er ekki betra að heimilin og atvinnulífið njóti hagstæðs orkuverðs frekar en að stefna að auknum arðgreiðslum í ríkissjóð? Við skulum sjá spurninguna borna fram og svar forstjórans sem hefur vakið furðu mína.

Ég hef mikið velt fyrir mér af hverju forstjóri Landsvirkjunar telur þetta vera lögbrot. 

Ekkert mér að vitandi er í núverandi löggjöf hér á landi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins kemur í veg fyrir að arður af þeim virkjunum sem hagkvæmastar eru á hverjum tíma sé notaður til þess að lækka verð til almennra notenda og fyrirtækja innanlands. 

Skýrsla Copenhagen Economics sem gerð er fyrir Landsvirkjun bendir m.a. á þann möguleika að greiða niður stofnkostnað virkjana í þessu ljósi.  Auðvelt er að benda á þá staðreynd að stjórnvöld í Bretlandi niðurgreiða græna orku í stórum stíl fyrir hinn almenna markað þar í landi. 

Bara þessi tvö atriði, verðstefna og orkuöryggi eru í uppnámi og engin virðist ætla að bera á því ábyrgð hvernig með þessi mál skal farið. Forstjórinn virðist komast upp með að gera og segja það sem honum dettur í hug á hverjum tíma og stefna sú sem fyrirtækið rekur virðist frá honum fengin en ekki kjörnum fulltrúum þjóðarinnar.

Því er hér enn á ný kallað eftir að Alþingi marki eigendastefnu Landsvirkjunar áður en í óefni er komið.


Orsakatengsl neyslu og fjölgunar útsölustaða ofmetin

Enn á ný ætla ég mér að setja hér nokkrar línur á blað um markaðssetningu á áfengi í tengslum við áfengisfrumvarpið svokallaða, þrátt fyrir að það sé líkt og að lenda undir valtara svo mikill er tilfinningaþrungin hjá ýmsum þeim sem komið hafa fram á ritvöllinn opinberlega. 

Síðastliðinn laugardag birtist grein á mbl.is sem bar yfirskriftina „Aukið aðgengi eykur skaða“ þarna var á ferðinni frásögn frá hádegisfundi þar sem Ögmundur Jónasson stjórnaði umræðum. Spurningunum hver á að selja áfengi? Og hvað segja rann­sókn­ir? Var varpað upp til umræðu. Því miður átti ég ekki heimangengt á fundinn sem eflaust hefur verið afar fróðlegur. Mér finnst það til fyrirmyndar að standa að upplýstri umræðu þar sem öll sjónarmið fá að koma fram.

Í umræddri grein á mbl.is er sérstaklega fjallað um erindi sem Hlynur Davíð Löve læknir flutti. Þar voru dregnar fram afleiðingar þess ef drykkja eykst og myndin er ekki fögur. Ekki er nokkur vafi að aukin neysla áfengis er böl.

Nú má vera að túlkun blaðamannsins á framsögunni sé önnur en til var ætlast en ég ætla að leyfa mér að gera ráð fyrir að svo sé ekki.  Vandinn í framsetningu læknisins og það atriði sem ég á svo erfitt með að kaupa er þetta: Frummælandi gefur sér það að fjölgun útsölustaða muni auka neyslu. Ég hef ekki séð nokkra rannsókn (hef þó leitað víða) sem styður þá kenningu að á mettum markaði þar sem framboð er meira en eftirspurn aukist neysla við fjölgun útsölustaða. Þetta stenst ekki skoðun. Er beinlínis fræðilega röng ályktun. 

Það er rétt að aukið aðgengi á markaði þar sem eftirspurn er umfram framboð, hefur áhrif til aukningar. Því er ekki að fyrir að fara á markaði með áfengi í hinum vestræna heimi. Áfengismarkaður er skilgreindur af opinberum aðilum sem mettur markaður og hegðar sér við breyttum markaðsaðstæðum samkvæmt því. 

Samkvæmt greininni á mbl.is var einnig gerður samanburður á milli Danmerkur og Íslands hvað varðar lög og reglur um aðgengi annarsvegar og neyslu og sölu á áfengi hinsvegar. Ný­gengi og algengi flestra þeirra sjúk­dóma sem tengja má beint við áfeng­isneyslu var hæst í Dan­mörku, en lægst á Íslandi og lífs­lík­ur reynd­ust mest­ar á Íslandi. 

Það getur reynst hættulegt að draga fram tölur líkt og þessar, með það í huga að sýna fram á orsakatengsl, sérstaklega ef ekki hefur verið reynt að einangra aðrar breytur. Þannig er bæði þekkt og viðurkennt að verðlagning á áfengi er sá þáttur sem mest áhrif hefur á neyslumunstur. Það er líka þekkt að verðlag á áfengi í Danmörku er umtalsvert lægra en það sem þekkist hér. Því eru talsverðar líkur að mun á heildarneyslu áfengis milli Danmerkur og Íslands megi frekar rekja til mismunar í verðlagningu en aðgengis.


Aðgerða er þörf í markaðsmálum sjávarfangs

Sjávarklasinn birti 20. febrúar síðastliðinn merkilega grein á vef sínum sem nefnist „Getum við notað áföll til þess að hugsa hlutina upp á nýtt?“ Í þessari útgáfu Sjávarklasans kemur fram að í nýliðnu verkfalli sjómanna hafi reynst tiltölulega auðvelt fyrir söluaðila á erlendum mörkuðum að skipta út íslensku flökunum fyrir norsk eða rússnesk eða að bjóða aðrar hvítfisktegundir.

Í janúar 2015 ritaði ég grein þar sem ég benti á stöðu íslensks fisks í huga þýskra neytenda. Þá höfðu Norðmenn nýlega lokið afar yfirgripsmikilli rannsókn á þýska neytendamarkaðnum með sjávarafurðir. Þessi rannsókn Norðmanna leiddi í ljós að samningsstaða íslenskra aðila í útflutningi á sjávarafurðum er veik. Ástæðan er helst sú að vitund neytenda í mið Evrópu á sérstöðu íslenskra sjávarafurða er lítil. 

Í þessari rannsókn Norðmanna mátti sjá sterkar vísbendingar um að þýskir neytendur þekkja ágætlega norskan lax og norskan gönguþorsk. En það sem vakti sérstakan áhuga minn var sú staðreynd að þarna var að finna sterkar vísbendingar um að þýskir neytendur telji íslenska þorskinn vera þýskan.

Það er síðan í sjómannaverkfalli nú tveimur árum síðar sem staðfesting á því að vísbendingin eigi við rök að styðjast kemur fram. Íslenskum fisk var skipt út fyrir fisk frá öðrum löndum án þess að neytendur þar hefðu við það nokkrar athugasemdir. 

Ekki er nokkur vafi að miklir fjármunir töpuðust á sjómannaverkfallinu en líkt og Sjávarklasinn nefnir í grein sinni, má færa sannfærandi rök fyrir því að tjónið af aðgerðarleysinu á samrýmdri markaðssetningu sjávarafurða geti jafnvel verið enn meira og það fer vaxandi.

Stjórnendur útflutningsfyrirtækja sjávarafurða á Íslandi virðast lítið hafa nýtt sér aðgreiningarmöguleika afurða sinna gagnvart öðru sjávarfangi á erlendum mörkuðum. Líklegustu skýringarnar eru annað hvort þær, að þeir hafi ekki gert sér fulla grein fyrir ávinningnum af því eða ekki talið hann nægilega mikinn. Sú atburðarás sem fór í gang með staðkvæmdarvörur í kjölfar þess að ekki tókst að flytja út afurðir vegna verkfalls ætti að ýta duglega við þeim.

Raunar er það svo að einstaka aðilar hafa áttað sig á þessu en ekki fundið leið til þess að ná fram samstöðu meðal fjöldans í langtíma markaðsátak. Þannig sagði Helgi Anton Eiríksson forstjóri Iceland Seafood á Viðskiptaþingi nýverið að Íslendingar ættu að leggja kapp á að hefja beint samtal við erlenda neytendur á vörunum okkar en láta ekki staðar numið þar sem við erum núna. Helgi hittir þarna algerlega naglann á höfuðið. 

Vegna langtíma skorts á samtali við erlenda neytendur hefur vitund þeirra um gæði og sérstöðu íslensks sjávarfangs dvínað. Áhrif þessa til lengri tíma fyrir útflytjendur eru minnkandi hlutdeild og lægra verð. Nýjustu rannsóknir benda til þess að með uppbyggingu vörumerkjavitundar í huga neytenda sé eftir verulegum ávinning að sækjast. Ávinning sem árlega gæti skilað tugum prósenta í auknum útflutningsverðmætum ef rétt er á málum haldið.


Nú hitnar undir sprittinu

Ég hef, svo sem eins og áður hefur komið fram í skrifum mínum hér, fylgst nokkuð með umræðunni um boðað áfengisfrumvarp. Í þessari umræðu endurspeglast í raun íslensk umræðuhefð og rökræða síðustu áratuga. Umræðan er að mestu tekin á tilfinningalegum nótum og mikið gert af því að fara í manninn en ekki málefnið. Nú eða hitt að settar eru fram illa rökstuddar fullyrðingar í stað rökstuðnings, þá reyna menn að gefa skoðunum sínum vægi með því að leggja áherslu á stöðu sína í samfélaginu og eða menntun. Í einhverjum tilfellum bæði. Því má segja að það sé að hitna undir sprittinu.  

Nú vill ég taka fram svo það fari ekki á milli mála að ég er engin talsmaður áfengis eða áfengisneyslu. Þvert á móti hef ég allan vara á, sjálfur uppalinn og umkringdur aðstæðum þar sem verstu hliðar áfengis og neyslu þess hafa verið til staðar. Ég er hinsvegar talsmaður þess að verslunarrekstur hverskonar og þjónusta eigi frekar að vera í höndum einstaklinga en ríkisins. Það snýst að miklu leiti um valdveitingu og traust.

Ég trúi því að einstaklingur sem fær leyfi til sölu á vöru eins og áfengi leggi sig allan fram um að veita viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustu um leið og hann virðir þær reglur sem honum ber að starfa eftir. Hann gangi til náða að kvöldi hugsandi um það hvernig gera megi betur fyrir viðskiptavininn á morgun heldur en í dag. Ég vill líka taka fram að ég er á engan hátt að leggjast gegn því frábæra starfi sem samtök eins og SÁA vinna. Ég ber ómælda virðingu fyrir því starfi sem þar er unnið. Hef sjálfur orðið vitni af því hvernig samtökin umturnuðu lífi nákominna ættingja til betri vegar. Nóg um það.

Aftur að umræðunni. Ég hef undanfarna daga séð ýmsar greinar í blöðum þar sem borin eru fram rök af vel menntuðum einstaklingum sem virðast ekki standast einföldustu kröfur vísinda- og menntasamfélagsins. Tökum dæmi:

Í morgun stökk fram á ritvöllinn aðili sem titlar sig geðlækni, hann ritar meðal annars:

„Reynsla vestrænna þjóða af því að einkavæða áfengissölu er á eina leið: áfengisneysla eykst með tilheyrandi aukningu á áfengistengdu heilsutjóni og samfélagsböli.“

Stór fullyrðing sem ég hef ekki fundið bitastæð rök fyrir og hef þó leitað. Þó kann vel að vera að rökin séu til. Ég tel það eðlilega kröfu þegar vel menntað fólk setur fram svona fullyrðingar þá sé vísað í ritrýnda fræðigrein úr viðurkenndu fræðariti málflutningi þeim sem settur er fram til stuðnings. 

Embætti land­lækn­is hef­ur ít­rekað and­stöðu sína við væntanlegt frum­varp. Í frétt í Morgunblaðinu kem­ur fram að embættið telur mik­il­vægt að skoða heild­ar­mynd­ina og hafa heil­brigðis­sjón­ar­mið að leiðarljósi áður en tvær af þrem­ur virk­ustu for­varn­araðgerðum Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar eru af­numd­ar, þ.e. tak­mörk­un á aðgengi og bann við aug­lýs­ing­um, segir landlæknir. 

Þarna fellur embættið í þá gryfju að gefa sér að aðgengi og birting auglýsinga séu séu tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum þjóðarinnar í áfengismálum. Ég er algerlega ósammála þeirri fullyrðingu. Ég hef hér í annarri grein hér bent á að aukið aðgengi á mettum markaði og markaði þar sem ekki hefur tekist að uppfylla eftirspurn eru sitt hvor hluturinn. Margir, þar á meðal landlæknisembættið virðast rugla þessu saman. Hitt er að allar viðurkenndar ritrýndar rannsóknir sem ég hef fundið á tengslum auglýsinga og aukinnar áfengisneyslu benda til þess að tengslin þar á milli séu lítil eða engin. 

Til er fjöldi rannsókna sem kanna þessi tengsl áfengisauglýsinga og neyslu. T.d. gerðu Makowsky og Whitehead rannsókn á afléttingu á 58 ára gömlu banni á áfengisauglýsingum í Saskatchewan í Canada sem var aflétt 3 október 1983.

Leyfðar voru auglýsingar á bjór og víni í útvarpi og í sjónvarpi og bjór, vín og sterkt áfengi mátti auglýsa í dagblöðum og tímaritum. Við rannsóknina voru notaðar mánaðarlegar sölutölur á áfengi frá 1981 til 1987. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að eftir að auglýsingabanninu var aflétt jókst sala á bjór en sala á sterku áfengi minnkaði.

Aflétting auglýsingabannsins hafði engin áhrif á sölu á víni og heildar áfengisneyslu í Saskatchewan þrátt fyrir tilkomu áfengisauglýsinga (Makowsky og Whitehead, 1991). 

En það er líka eins og það gleymist alltaf hver tilgangur áfengislaganna er.  Hann er ekki að vinna gegn neyslu áfengis heldur misnotkunar þess.  

Ef við teljum að rétt sé að koma í veg fyrir neyslu áfengis sé rétta leiðin til þess að minnka misnotkun. Ættum við að gera róttækar breytingar á ÁTVR í þá átt sem Ásdís Halla Bragadóttir hefur lagt til. Hún vill að útibúum verði fækkað. Opnunartími styttur. Þá verði alltaf lokað um helgar og einnig á sumrin. Í viðtali við DV lýsir Ásdís því sem sinni persónulegu skoðun að áfengi og tóbak sé illa misnotað í samfélaginu. Þess vegna þurfum við að finna leiðir til að stemma stigu við því. Rangt sé að lifa í þeirri blekkingu að sérstök áfengisverslun á vegum ríkisins leysi vandann.

Virðingarvert, hreint og beint viðhorf þar sem ekki er verið að blekkja fólk eða nota vafasöm rök. En ég persónulega er á móti svona aðgerðum. Mín skoðun er að forvarnir og fræðsla séu besta leiðin til þess að ná árangri í því að minnka misnotkun. Í nýju boðuðu frumvarpi er gert ráð fyrir fimmföldun á framlagi til fræðslu og forvarna. Það er að mínu viti mun áhrifameiri leið en að takmarka aðgengi líkt og Ásdís Halla leggur til. 


Viðauki skrifaður 21. febrúar 2017,
Vegna þessara orða minna hér að ofan „sjálfur uppalinn og umkringdur aðstæðum þar sem verstu hliðar áfengis og neyslu þess hafa verið til staðar.“ vill ég taka eftirfarandi fram.

Eins og þeir vita sem til mín þekkja er ég alinn upp eftir 7 ára aldur af ömmu minni sem var mikil sóma kona og reglusöm með afbrigðum. Tilvitnunin hér að ofan á því engan veginn við um hana sem var mín stoð og stytta alla tíð. Mér þykir leitt að orð mín skulu mögulega hafa misskilist og vill biðja alla hlutaðeigandi afsökunar á því að hafa ekki skýrt hug minn nægilega vel. 


Af karpi um sölu áfengis

Boðað áfengisfrumvarp á Alþingi hefur þegar valdi nokkrum óróa og tilfinningaríkum upphrópunum í samfélaginu okkar. Þeir sem setja sig á móti frumvarpinu bera fyrir sig lýðheilsusjónarmið og sameiginlega ábyrgð allra á áfengismenningu þjóðarinnar. Þeir sem mæla fyrir frumvarpinu benda á frelsi einstaklingsins og persónuábyrgð hvers og eins í umgengni við þennan vímugjafa. Einnig benda þeir á þá mýtu að það standist ekki skoðun að ríkið sé eini aðilinn sem treystandi sé til þess að afgreiða vöru sem skilgreindur hópur má ekki kaupa.

Ég hef furðað mig á ýmsum þeim fullyrðingum sem settar hafa verið fram í þessari umræðu. Rökfærsla þeirra sem setja sig á móti frumvarpinu er oftar en ekki byggð á „af því bara“ tilfinningalegum rökum eða upphrópunum þar sem reynt er að tengja almenn lýðheilsu sjónarmið við tegund verslunar. Mikið af þessum rökum get ég tekið heilshugar undir s.s. eins og að áfengi er óhollt og neysla þess getur valdið skorpulifur, heilarýrnun og svo er rétt að nefna hér fylgifiska eins og hættu á heimilisofbeldi, tilefnislausar árásir á vegfarendur og margt fleira má telja upp áfenginu til miska.

Öll þessi lýðheilsusjónarmið eru sannarlega fylgifiskar áfengisneyslu en hafa ekkert með það að gera hver það er sem selur áfengið. Áfengismarkaður er í markaðsfræðilegum skilningi svokallaður mettur markaður þ.e. að framboðið nær að uppfylla eftirspurnina. Það líður engin fyrir skort á þessari vöru. Á mettum markaði hefur breyting á framboði sára lítil áhrif á neyslumagn, eftir sem áður mun framboðið uppfylla eftirspurnina. Það sem mun gerast er að það verður tilfærsla á sölu á milli þjónustuaðila og neytendur munu færa innkaup sín þangað sem þeim hentar hverju sinni án þess að magn aukist.

Annað dæmi um mettan markað sem hefur veruleg áhrif á lýðheilsu okkar er bifreiðamarkaður. Bílar fella nokkur af okkur á hverju ári auk þess sem óhófleg notkun þeirra stuðlar að hreyfingarleysi og þyngdaraukningu, mengun frá þeim er okkur öllum skaðleg í miklum mæli. En öll gerum við okkur grein fyrir því að fjölgun útsölustaða á bifreiðum hefur ekki bein tengsl við þann fjölda bifreiða sem seldur er á hverju ári. Það er vegna þess að bifreiðar eru á mettum markaði líkt og áfengi.

Það að gera því starfsfólki sem mögulega verður treyst til þess að höndla með þessa vöru það upp fyrirfram að það sé ekki starfi sínu vaxið, eða það sé líklegra heldur en aðrir að brjóta þau lög sem því ber að fara eftir, stenst ekki neina rökræðu.

Það er rétt sem komið hefur fram að sá þáttur sem mest áhrif hefur á neyslumunstur er verðlagning. Þekkt er að ÁTVR vinnur á flatri álagningu sem er 12%. Í dagvöruverslun er meðaltalsálagning 25 til 26% samkvæmt úttekt Samkeppnisstofnunar um verðlagsþróun á matvörumarkaði hér á landi. Af þessu má ráða að ólíklegt er að verð áfengis lækki sem neinu nemur ef sala á vörunni verður flutt í hendur einkaaðila. Líklegra er að verðálagning smásalans muni yfir tíma frekar leiða til hækkunar á vöruverði. Hækkun mun hafa áhrif til almennt minnkaðra innkaupa á áfengi.

Á sama tíma er rétt að hugleiða að of hátt verð á áfengi hvetur til ólöglegrar starfsemi, glæpa, landabruggs og framboðs annarra ólöglegra vímuefna. Hér á landi er áfengi mjög dýrt, svo dýrt að unglingur sem ætlar sér að komast í vímu hefur kost á því að kaupa annarskonar vímugjafa mun lægra verði en áfengi. Á svörtum markaði hér á landi er bæði ódýrara og einfaldara að nálgast kannabis eða uppáskrifað læknadób á netinu. Margskonar böl getur því fylgt almennri haftastefnu og forræðishyggju.

Það vekur líka athygli undirritaðs að samkvæmt boðuðu áfengisfrumvarpi á að stórauka fjárframlög til forvarna. Við þekkjum jú á eigin skinni að forvarnir og fræðsla hafa umtalsverð áhrif á neyslu ungmenna. Árangur forvarnarstarfs í tóbaksnotkun er góður vitnisburður þess sem má áorka með fræðslu og forvörnum. Þessu ber að fagna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pistlar

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Tónlistarspilari

Amy Winehouse - Rehab
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband