Hver greiðir fyrir rafmagnið sem gufar upp?

Á árunum fyrir setningu íslensku raforkulaganna var flutningur á orku að mestu á hendi stærsta framleiðandans, Landsvirkjunar.  Fyrirtækið Landsnet var svo stofnað í kjölfar gildistöku raforkulaga sem kveða á um aðskilnað framleiðslu og flutnings á raforku. Landsnet er dótturfélag Landsvirkjunar.

Meginhlutverk Landsnets er að flytja raforku frá framleiðendum orkunnar til kaupenda, hvort sem er til dreifiveitna eða stóriðju. Landsnet starfar í sérleyfisumhverfi og er starfsemi fyrirtækisins háð eftirliti Orkustofnunar. Sú stofnun ákvarðar Landsneti tekjuramma sem endurskoða á með reglubundnum hætti.

Hin breiðu bök neytenda

Ástæða þessar upprifjunar er að nýverið fór fram svokallað útboð vegna kaupa Landsnets á þeirri orku sem tapast í flutningskerfinu. Stóru orkuframleiðendurnir, sem áður þurftu sjálfir að bera tapið í kerfinu, geta nú rukkað dreifingaraðilann (Landsnet) um þá orku sem tapast af tæknilegum orsökum. Landsnet sem milliliður telur sig eðlilega ekki geta setið uppi með þennan kostnað og óskar eftir því við Orkustofnun að tekjurammi félagsins verði endurskoðaður. Þannig hækkar verðið inn á dreifiveiturnar þar sem við neytendur erum látnir borga brúsann.

Með þessu nýja útboðs-fyrirkomulagi, sem er fylgifiskur raforkulaga, opnast leið fyrir stjórnendur orkuframleiðslufyrirtækja til að hækka verð á þessari orku að vild. Þannig ríkir engin samkeppni um það verð sem Landsnet þarf að greiða fyrir orku sem tapast í kerfinu. Þvert á móti geta orkuframleiðslufyrirtækin sett upp það verð sem þeim sýnist á hverjum tíma. Nú speglast þetta gráa svæði til dæmis í 18% verðhækkun sem samið er um fyrir árið 2016. Þannig er Landsnet enn á ný krafið um verulega hækkun á milli ára, að þessu sinni er um að ræða 18% hækkun á orkuverði fyrir orku sem engum er til gagns og tapast í kerfinu.

Athyglisverð ummæli

Í augum undirritaðs, sem hefur fylgst vel með því sem er að gerast í orkumálum hérlendis síðasta árið, er þetta nokkuð merkileg frétt. Landsvirkjun lá undir ámæli á vordögum þar sem ýmsar hækkanir á orkureikningum fyrirtækja voru raktar beint til fyrirtækisins. M.a. var því haldið fram að Landsvirkjun hefði hækkað meðalverð á skammtímasamningum um 40%.  

Í viðtali við Morgunblaðið 29. ágúst síðastliðinn mótmælir forstjóri Landsvirkjunar þessari gagnrýni og segir það „ekki rétt að orkuverð fyrirtækisins í heildsölu hafi hækkað verulega að undanförnu. Þvert á móti hafi meðalverðið hækkað um innan við 4% frá áramótum.“ og skömmu síðar í sama viðtali segir hann: „raforkuverð Landsvirkjunar til heildsala hafa rétt fylgt verðlagi undanfarin ár. Þannig að það hafa ekki verið miklar hækkanir. Þvert á móti hafa verið mjög hóflegar hækkanir á þessum markaði, alveg tíu ár aftur í tímann.“

Hér virðist sem forstjóri Landsvirkjunar sé ekki alveg með það á hreinu hvað fyrirtækið aðhefst. Samkvæmt ofangreindu viðtali í Morgunblaðinu í ágúst lok er hækkun á orkuverði Landsvirkjunar í heildsölu undir 4% á fyrstu 8 mánuðum ársins. Þá eru óútskýrð 14% af hækkun þeirri sem Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki krefja Landsnet um vegna taps í flutningskerfinu þetta árið. 

Leyfð sjálftaka? 

En árið í ár er ekkert einsdæmi. Árið 2013 var samið um 47% hækkun á þessum gjöldum fyrir árið 2014. Árið 2014 var samið um 23% hækkun fyrir árið 2015 og nú árið 2015 er samið um 18% hækkun fyrir árið 2016. Með þessu háttarlagi stunda orkufyrirtækin stórfellda fjármagnsflutninga til sín frá almennum neytendum og fyrirtækjum í landinu. Sú upphæð nemur árlega ríflega 900 milljónum króna ef reiknaðar eru hækkanir frá hausti 2013 til dagsins í dag.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur lagt mikið á sig til þess að ná jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þannig hefur verið haldið markvisst aftur af ríkisstofnunum með verðhækkanir á þjónustu til þess að viðhalda stöðugleika. Stöðugleikinn, sem allir vilja lifa í, flestir án þess að fórna of miklu til, er undirstaða þess að þjóðin geti lifað hér í sátt og samlyndi. Því skýtur skökku við að djarftækir forstjórar geti sín á milli samið um hækkanir langt umfram verðþróun og langt umfram eigin orð. Leyfist stjórnendum þessara orkuframleiðslufyrirtækja virkilega að seilast óátalið ofan í vasa neytenda í freklegri sjálftöku fyrir opnum tjöldum og þvert á stöðugleikamarkmið ríkisstjórnarinnar? Hvað segja menn þar á bæ og hvað segja neytendurnir sem kjósa sína fulltrúa á þing? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pistlar

Höfundur

Viðar Garðarsson
Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Tónlistarspilari

Amy Winehouse - Rehab
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • landsvirkjun
  • digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketing
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • High-Liner-0005799 SF Cod2 Front
  • cod-for-sale-in-iceland

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband